þri 18. nóvember 2025 17:59
Brynjar Ingi Erluson
Segir Man Utd að forðast Wharton - „Ekki viss um að hann sé rétta svarið“
Adam Wharton er heitur biti á markaðnum
Adam Wharton er heitur biti á markaðnum
Mynd: EPA
Adam Wharton, leikmaður Crystal Palace, er ekki rétti maðurinn fyrir Manchester United, en þetta segir Dwight Yorke, fyrrum leikmaður rauðu djöflanna í viðtali við Snabbare.

Man Utd er að ná framförum undir stjórn Ruben Amorim en næsta skref félagsins er að kaupa varnarsinnaðan miðjumann.

Wharton er sagður mjög ofarlega á óskalistanum, en hann er falur fyrir um það bil 100 milljónir punda. Carlos Baleba hjá Brighton er einnig á listanum.

Yorke segir að Man Utd ætti að halda sig frá Wharton

„Ég er ekki viss um að Adam Wharton sé rétta svarið. Ég er ekki enn sannfærður um hann og þetta er svæði sem við þurfum að bæta og er mikið áhyggjuefni fyrir okkur. Þetta er hola í United-liðinu og ef þú horfir á árangursríkustu ár félagsins þá vorum við alltaf með frábæra 'sexu'“

„Ferill Casemiro hjá Man Utd hefur verið upp og niður í stöðu sem er lykilhluti í liðinu. Maður hlustar á alla frábæru þjálfarana og þeir segja að miðjan sé alltaf mikilvægasta staðan. Það er erfitt gigg að finna réttu leikmennina og þess vegna eru þeir í vandræðum. Þeir eru ekki með þennan leikmann sem getur sett tóninn í leikjum, stjórnað hraðanum, getur varist en líka með sýn og getur sent boltann fram á við.“

„Svoleiðis leikmenn eru sjaldgæfir sem kemur mér verulega á óvart því þetta virkar ekki sem erfiðasta starf heimsins, en klárlega það mikilvægasta. Hvern væri ég til að sjá í þessari stöðu? Ég veit það ekki því það er svo mikið 'hæp' í kringum nokkra af þessum leikmönnum. Fá kannski Michael Carrick aftur? Hann hefði getað gert frábæra hluti í þessu liði!“
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner