Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 25. apríl 2021 22:00
Fótbolti.net
Spá Fótbolta.net fyrir Pepsi Max-deild kvenna: 8. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving ver mark ÍBV áfram.
Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving ver mark ÍBV áfram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Júlíana Sveinsdóttir
Júlíana Sveinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keppni í Pepsi Max-deild kvenna hefst 4. maí næstkomandi. Fótbolti.net mun næstu dagana opinbera spá fyrir deildina í sumar en liðin verða kynnt eitt af öðru næstu dagana.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ÍBV
9. Keflavík
10. Tindastóll

8. ÍBV

Lokastaða í fyrra: ÍBV endaði í 8. sæti í fyrra og er spáð sama sæti í ár. Liðið sigldi lengi vel lygnan sjó í fyrra en var búið að sogast í harða fallbaráttu þegar mótið var flautað af.

Þjálfarinn: Andri Ólafsson er að sigla inn í sitt annað tímabil sem þjálfari ÍBV. Andri var lengi leikmaðiur hjá ÍBV en hann var síðan í þjálfarateyminu hjá karlaliði félagsins áður en hann tók við sem þjálfari meistaraflokks kvenna haustið 2019.

Álit Jóa
Jóhann Kristinn Gunnarsson er sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi Max-deild kvenna líkt og síðustu ár. Hér er álit hans á liði ÍBV.

„ÍBV er eins og áður algjört ólíkindatól í Pepsi Max kvenna. Heimavöllurinn þeirra hefur í gegnum tíðina slegið niður stærstu liðin og það er alltaf erfitt að fara til eyja í leik. Það lítur ekki út fyrir að ÍBV sé að breyta mikið um stefnu eða áherslur þó þær hafi verið að færast neðar í töflunni á undanförnum árum. Þær gefa ungum heimastelpum séns og bæta svo við nokkrum, og stundum mörgum, erlendum leikmönnum sem oftar en ekki eru aðal breytan í þeirra gengi."

Erlendu leikmennirnir verða að hafa gæði
„Hér er þeim spáð rétt fyrir ofan fall og svo gæti farið að þær þurfi verulega að hafa fyrir því að vera þó þar. Margir erlendir leikmenn koma til með að spila með liðinu í sumar og þær verða að hafa gæði."

„Varnarlínan var ung að árum í fyrra en með tilkomu Annie Williams frá USA er líklegt að reynsla og gæði verði meiri í ár. Einnig er sterkt að fá Kristjönu R. Kristjánsdóttur Sigurz aftur frá Blikum á láni. Það mun styrkja liðið mikið að Clara Sigurðardóttir sé komin aftur og leiki með liðinu í sumar. Það er mikilvægt fyrir þær að ná góðu hryggjarstykki sem spilar alla leiki og lætur mikið að sér kveða. Auður í markinu er góð og ef vörnin verður stöðug, plús gæði og mörk frá erlendum leikmönnum eins og Delaney Baie Pridham, þá er aldrei að vita nema Eyjastúlkur ryðjist ofar í töfluna í sumar."


Lykilmenn: Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving, Clara Sigurðardóttir og Júlíana Sveinsdóttir og Hanna Kallmaier.

Gaman að fylgjast með: Ragna Sara Magnúsdóttir er aðeins 2003 módel en samt að fara inn í sitt fjórða tímabil í Pepsi Max með ÍBV. Spennandi leikmaður sem vert er að fylgjast með í sumar.

Komnar:
Annie Willams frá Bandaríḱjunum
Clara Sigurðardóttir frá Selfossi
Delaney Baie Pridham frá Bandaríkjunum
Lana Osinina frá Lettlandi
Liana Hinds frá Sundsvall í Svíþjóð
Viktorija Zaičikova frá Lettlandi

Farnar:
Fatma Kara til Þýskalands
Karlina Miksone til Litháen
Kristín Erna Sigfurlásdóttir í Víking R.
Athugasemdir
banner
banner
banner