Ég hef sjálfur litið á að þessi uppbygging á nýju liði væri kláruð á þessum tveimur árum og svo yrði staðan endurmetin
Ég held að það sé klippt og skorið að ég hafi komið til félagsins, byggt upp nýtt lið sem var óskað eftir og hugmyndafræðinni var haldið alveg í gegn
„Þetta er mjög langur aðdragandi, við ræddum saman í júlí og ágúst. Ég hef sjálfur litið á að þessi uppbygging á nýju liði væri kláruð á þessum tveimur árum og svo yrði staðan endurmetin. Það voru mjög miklar breytingar í fyrra og við hentum þá inn mörgum ungum leikmönnum," sagði Þorlákur Árnason við Fótbolta.net í dag.
Þór tilkynnti í morgun að Láki yrði ekki áfram með liðið en hann þjálfaði meistaraflokk karla síðustu tvö tímabil.
Þór tilkynnti í morgun að Láki yrði ekki áfram með liðið en hann þjálfaði meistaraflokk karla síðustu tvö tímabil.
Á fundum í sumar sagði Láki við stjórn Þórs að hann væri ekki viss hvort hann myndi vilja halda áfram þjálfun liðsins. Hann segir að það hafi verið skoðað að hann færi í annað starf hjá félaginu.
„Mér líkaði mjög vel hjá félaginu og þegar ég var efins um hvort ég vildi vera áfram þjálfarið liðsins þá skoðuðum við að ég færi í meira afreksstarf. Mér fannst vera svolítið bil í næstu leikmenn og við myndum reyna brúa bilið þannig. Það samtal var tekið."
„Staðan í deildinni var svo þannig að Þór var mjög lengi að berjast um möguleikann á að fara í efstu deild, en á sama tíma gat liðið alveg fallið í 2. deild, svo jöfn var deildin. Við biðum því með að taka ákvörðun," sagði Láki.
Á örugglega eftir að starfa fyrir Þór í framtíðinni
En af hverju er Láki ekki á leið í annað starf hjá Þór?
„Ég var búinn að slá það af borðinu, á endanum var ég ekki alveg til í það, smá egóismi í mér. Þó að mér hafi líkað gríðarlega vel hjá Þór, þá fannst mér það kannski ekki alveg rétta skrefið núna, kannski eitthvað sem gerist bara seinna. Ég á örugglega eftir að starfa hjá félaginu í framtíðinni miðað við hvernig þetta hefur gengið."
Mjög sjaldgæft
Genguru sáttur frá borði?
„Mjög, þetta er í fyrsta lagi mjög sjaldgæft að félag gefi þessu tvö ár. Við sáum Grindavík í fyrra; þjálfari (Alfreð Elías) sem skrifaði undir þriggja ára samning og sagðist vera í uppbyggingu, hann kláraði bara eitt ár. Það eru mörg félög sem segjast vera í uppbyggingu en eru ekki í því."
„Það er bara ofboðslega mikið hrós á þá sem réðu mig á sínum tíma, þetta gekk illa í byrjun í fyrra, menn héldu sjó. Í sumar vorum við í miklum meiðslavandræðum allt tímabilið, ákveðið að taka enga leikmenn í glugganum og menn sem fóru. Það er hrós á stjórn og þá sem eru í kringum þetta, hugmyndafræðinni var haldið."
„Það var ekki grundvöllur í fyrra fyrir því að vera að berjast um eitthvað, en í sumar vorum við í 8-liða úrslit í bikar; klaufar að mínu mati að klára ekki Víkinga hér heima og svo vorum við mjög lengi að narta í 4.-5. sætið í deildinni. Það voru bara rosaleg skakkaföll á liðinu, meiðslin voru farin að kosta okkur í seinni hlutanum. Ég tel að það hafi endanlega farið með möguleikann á því að gera meiri atlögu að sæti í umspilinu. Maður gerir sér grein fyrir því að það eru fleiri lið sem segja það sama, deildin var það gríðarlega jöfn."
Áhyggjur af því að ungir leikmenn fái færri tækifæri
Talandi um fyrirkomulagið, hvað finnst þér um að það sé umspil um sæti í Bestu deildinni milli liðanna sem enda í 2.-5. sæti deildarinnar?
„Þetta er búið að breyta allri nálgun félaganna á mótið. Það eru lið sem eru búin að eyða mun meira fyrir vikið, fleiri lið sem eiga möguleika á að komast upp. Lengjudeildin hefur verið þróunardeild fyrir unga leikmenn. Við sjáum Selfoss sem er með svipað ungt lið og Þór og Grótta er einnig með ungt lið. Ég hef smá áhyggjur að þetta verði deild þar sem menn þori ekki að gefa ungum mönnum tækifærið af því hún er orðin sterkari. Hún var töluvert sterkari í ár en hún var í fyrra. Þróttur, Njarðvík og Vestri eru með marga erlenda leikmenn. Þetta fyrirkomulag eykur möguleikann á því að lið komist bakdyramegin upp."
„Rökin eru þarna, mótið var geggjað spennandi og Selfoss féll á 23 stigum, sem er einsdæmi. En ég hef áhyggjur, í efstu deild er mjög hár meðalaldur, en staðan hefur verið þannig að Lengjudeildin hefur verið meiri þróunardeild. Liðin gætu farið að kasta enn meiru til á kostnað ungra leikmanna."
„Ég vil undirstrika það að ég er hrikalega sáttur við að við í Þór héldum okkar hugmyndafræði í gegn, en ég var svekktur að við fórum ekki lengra gegn flötum Víkingum á þeim tíma. Við getum ekkert gert tilkall í sæti í umspilinu frekar en önnur lið í kringum okkur í deildinni, en það voru útileikir gegn Vestra og Leikni sem hefðu getað sett okkur í góða stöðu og sett okkur í séns. Það vantaði svo lítið upp á að við næðum að búa til aðeins meira ævintýri."
Ekki víst að leikmaðurinn hefði breytt miklu
Láki nefndi að það voru ekki leikmenn sem kláruðu mótið, fóru í glugganum. Var hann svekktur að það var ekki tekinn inn leikmaður í staðinn?
„Við misstum tvo byrjunarliðsmenn, (Ion Perello og Valdimar Daða Sævarsson). Á þeim tímapunkti fannst mér að við ættum að taka einn leikmann, mér fannst ég vera með meiri yfirsýn en stjórnin yfir hvað við vorum í ofboðslega miklu veseni með meiðsli. En eftir á að hyggja þá varð þetta til að það varð ennþá meiri ábyrgð á yngri leikmennina. Ég held að það sé klippt og skorið að ég hafi komið til félagsins, byggt upp nýtt lið sem var óskað eftir og hugmyndafræðinni var haldið alveg í gegn."
„Það er ekkert víst að einn leikmaður hefði breytt miklu. Það eru lið, í 6.-11. sæti í deildinni sem eru mikið að hugsa ef og hefði. Munurinn frá Grindavík og niður í Selfoss er svo ofboðslega lítill í stigafjölda."
Ofboðslega gott fólk í Þór
Kom Þór sem félag þér á óvart?
„Ég varð ástfanginn af félaginu. Þetta er algjör undirhundur, með lélega aðstöðu og þarf að hafa ofboðslega mikið fyrir öllum hlutum; ekki kannski með risastóra og sterka styrktaraðila o.s.frv."
„Það er ofboðslega gott fólk hjá félaginu, rosalega mikil ástríða, bæði stjórn og starfsmenn. Mér þykir rosalega vænt um þennan klúbb."
Fæðukeðjan fyrir Þór sé mjög erfið
Hvað heldur þú að sé rökrétt næsta skref fyrir Þór?
„Mér finnst ekki réttlátt af mér að vera að ráðleggja mönnum með næsta skref. Þegar ég var spurður í júlí og ágúst hvort ég myndi vilja halda áfram með liðið þá sagði ég að ég vissi ekki hvort ég væri rétti maðurinn í að taka næsta skref."
„Ég bjó í Vestmannaeyjum sem krakki og veit hvernig er að vera á landsbyggðinni. Eftir að hafa verið í Þór og þjálfað lið úti á landinu þá uppgötvar maður hvað það er pínu ójafnt gefið. Við þurfum að hafa alveg ofboðslega mikið fyrir öllu, bæði aðstöðumálin og svo líka aðgangur að leikmönnum og annað. Það er bara mjög lítill leikmannamarkaður á Norðurlandi og við erum að lána leikmenn í deildirnar fyrir neðan, en við fáum ekkert frá efstu deildar liðinu sem er KA. Síðustu tvö ár hefur KA fengið sterka leikmenn frá Þór en við höfum ekkert fengið niður."
„Ef þessu er snúið við á höfuðborgarsvæðinu, ef þú lendir í vandræðum sem Lengjudeildarlið þá geturu tekið upp símann og fengið leikmann á láni frá liðum í efstu deild. Fæðukeðjan er mjög erfið fyrir Þór, er að verða erfiðari og erfiðari. Það er offramboð af góðum leikmönnum á höfuðborgarsvæðinu, en þeim hefur fækkað úti á landi af því að góðir leikmenn fara fyrr. Maður hefur kynnst því að þú þarft að hafa rosalega mikið fyrir hlutunum. Það er eins með erlenda leikmenn, það er auðveldara fyrir lið í efstu deild að fá góðan erlendan leikmann því sá veit að hann er að spila á hærra getustigi og á möguleika á að fara á enn hærra level. Leikmaður sem kemur í Lengjudeildarliðin er oft að leita að einhverju öðru skrefi. Það eru margar áskoranir í þessu."
Til í að skoða bæði
Hvað tekur við hjá Láka?
„Það er óvíst. Það er spurning hvort ég þjálfi úti á velli áfram eða fari aftur til baka í að vera yfirmaður knattspyrnumála eða eitthvað svoleiðis. Það verður bara að koma í ljós. Ég hef bara ekki hugmynd. Blekið er rétt að þorna og það þarf bara að sjá til hvað gerist á næstu vikum."
„Það er alveg möguleiki að fara aftur út. Umboðsmaðurinn, Hafdís Ebba Guðjónsdóttir, hún hefur svolítið um þetta að segja. Það kæmi alveg til greina að fara út en ég er til í að skoða bæði."
„Það sem var gott við Þór var að hugmyndafræðin var mjög skýr og mér líkar svoleiðis verkefni. Ég vil gefa þessu smá tíma, það er pínu sorg að þetta sé búið, þetta var mjög skemmtilegur tími."
Ef þú fengir að velja, hvort yrði næsta starf yfirmaður knattspyrnumála eða þjálfari?
„Ég er opinn fyrir báðu. Úti í heimi er ég ekki þekktur fótboltaþjálfari. Það hefur verið eitthvað kroppað eftir að ég vann í Hong Kong síðan ég kom heim aftur. Þar mynduðust tengingar, sérstaklega í þeirri heimsálfu. Á síðustu tveimur árum hafa komið upp einhverjir möguleikar úti, en aldrei farið neitt langt."
„Svo er fullt af spennandi hlutum að gerast í íslenskum fótbolta. Eins og staðan er í dag á ég ekki von á öðru en að ég verði heima á Íslandi. Ég flyt í bæinn í vikunni og vil njóta aðeins með fjölskyldunni. Þetta er búin að vera fjarbúð og ég verið fjarri mínum nánustu í þessi tvö ár," sagði Láki að lokum.
Athugasemdir