
Nokkrir landsliðsmenn Íslands skelltu sér á viðureign Brooklyn Nets og Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í gær. Jóhann Berg Guðmundsson er einn af þeim en hann sat á fremsta bekk þegar Lebron James og félagar léku listir sínar.
„Það var gaman að Cleveland væri mætt til New York, við vildum sjá Lebron. Hann er einn sá allra besti sem hefur spilað leikinn. Hann var mjög góður. Ég og Sverrir (Ingi Ingason) vorum þó Brooklyn menn í gær, ákváðum að halda með okkar liði. Lebron er samt það góður að hann kláraði þetta þegar hann vildi," segir Jóhann en gestirnir frá Cleveland fögnuðu sigri í leiknum.
En að fótboltanum, framundan er leikur gegn Perú sem verður á miðnætti annað kvöld að íslenskum tíma. Jóhann var spurður að því hvað við vildum sjá breytt frá tapinu gegn Mexíkó?
„Aðallega snýst þetta um að klára færin held ég. Í fyrri hálfleik gegn Mexíkó spiluðum við mjög vel og sköpuðum okkur fín færi. Venjulega klárum við svona færi en það gekk ekki í þessum leik. Við fengum á okkur mörk sem við hefðum getað komið í veg fyrir."
Andre Carrillo og Edison Flores skoruðu mörk Perú þegar liðið vann Króatíu 2-0 í vináttuleik í síðustu viku. Það má búast við mjög erfiðum leik annað kvöld.
„Þeir spila mjög flottan fótbolta og eru gríðarlega góðir. Ég tel þó að Króatar hafi átt fullt inni, það var æfingaleikjabragur á þeim. Perú er á góðu skriði og vonandi getum við stöðvað það," segir Jóhann.
Jóhann Berg er lykilmaður hjá liði í ensku úrvalsdeildinni og er á leiðinni á HM. Það má því segja að hann sé að upplifa draum allra ungra fótboltadrengja.
„Þetta er auðvitað eitthvað sem flestir krakkar sem æfa fótbolta vilja upplifa. Ég er það heppinn að það sé að rætast hjá mér og er þakklátur fyrir það. Það er líka mikil vinna á bak við þetta og það er magnað afrek og magnað fyrir okkur alla að vera á leiðinni á HM með Íslandi."
Athugasemdir