Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 26. apríl 2021 18:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Markmiðin og tilgangur er kannski annar en annarra liða í deildinni"
Miklu fleiri betri leikmenn en voru t.d. fyrir tíu árum
Aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins
Aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ási var aðstoðarmaður Óla Kristjáns hjá FH
Ási var aðstoðarmaður Óla Kristjáns hjá FH
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Spáin kemur mér svosum ekkert á óvart. Úrslitin í vetur hafa verið upp og ofan. Menn renna tiltölulega blint í sjóinn hvað varðar mótherja og styrkleika liðanna í deildinni. En við höfum heldur ekki verið að sækja okkur liðsstyrk heldur búa til pláss fyrir unga og efnilega leikmenn hér á Skaganum," sagði Ásmundur Haraldsson. þjálfari Kára, þegar Fótbolti.net leitaði til hans eftir viðbrögðum við því að Kára væri spáð 9. sæti í 2. deild í sumar.

Sjá einnig:
Spá þjálfara í 2. deildinni: 9. sæti

„Káraliðið er ólíkt öðrum liðum því markmiðin okkar og tilgangur er kannski annar en annarra liða í deildinni, kannski að KV undanskildu. Við viljum vera vettvangur fyrir efnilega leikmenn ÍA, sem félagið bindur vonir um hafi hæfileika og getu til þess að spila fyrir ÍA í framtíðinni."

Hvernig líst þér á deildina í heild sinni?

„Bara mjög vel, hún verður firnasterk enda hafa neðri deildirnar orðið betri með hverju árinu. Liðin eru betur þjálfuð, leikmenn eru í betra standi og það eru bara miklu fleiri betri leikmenn en voru t.d. fyrir tíu árum."

Hver eru markmið Kára í sumar?

„Markmið Kára verður að tryggja stöðu þess í deildinni. Við verðum með mjög ungt lið í bland við eldri og reyndari menn sem koma til með að draga vagninn í sumar. Það er metnaður og vilji til þess að gera vel og við förum að sjálfsögðu í hvern einasta leik til þess að ná í þrjú stig."

Er leikmannahópurinn klár eða á eftir að fá menn inn?

„Leikmannahópurinn hefur tekið töluverðum breytingum í vetur. Samstarfið við ÍA spilar stórt hlutverk þar og við erum vonandi að ná jafnvægi í hópinn þar sem að æfingahópurinn hjá ÍA hefur einnig verið að ná sínu jafnvægi. Síðan hafa einhverjir leikmenn horfið á braut og aðrir lagt skóna á hilluna. En við eigum einnig von á strákum sem eru núna að klára sínar annir í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Þannig að þetta fer nú allt að smella hjá okkur."

Hvert er langtíma markmið Kára ef horft er á samstarfið við ÍA?

„Langtímamarkmið Kára er að halda liðinu á eins háu leveli og mögulegt er miðað við aðstæður, leikmannahóp etc. Markmið Kára er að veita ungum og efnilegum leikmönnum ÍA og Kára vettvang til þess að öðlast þá reynslu sem þarf til þess að brjóta sér leið inní Skagaliðið á næstum árum."

„Okkar eldri leikmenn leika gríðarlega mikilvægt hlutverk í því að hjálpa þeim að aðlagast, takast á við meistaraflokksfótbolta á mjög góðu leveli en um leið taka mótvindinn á kassann þegar á móti blæs. Amk þangað til að þeir geta staðið sjálfir af sér mótvindinn og storminn. Þannig sjáum við þetta fyrir okkur og þetta er unnið í miklu og góðu samstarfi við ÍA, stjórnendur, þjálfara meistaraflokks og 2. flokks og það er mikill hagur og akkur fyrir unga stráka á Akranesi að vita til þess að þeir sem að stjórna viti hvaða leið félagið vill fara með þá og hvaða leiðir eru í boði."

„Það er mikill fengur að hafa menn eins og Jóa Kalla, Sigga Jóns og Elínberg sem að búa yfir hafsjó af reynslu og vita hvað þarf til þess að ungir leikmenn nái að brjóta sér leið í gegn og vilja vinna vel og skipulega að því markmiði. Einnig er vert að minnast á Sveinbjörn formann sem leggur líf og sál í þetta verkefni. Kári er því frábær vettvangur fyrir þetta frábæra samstarf félaganna tveggja sem ber hag ungra knattspyrnumanna á Skaganum að brjósti,"
sagði Ási.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner