Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson og félagar hans í danska félaginu Midtjylland eru komnir áfram í þriðju umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið AEK Larnaca frá Kýpur í vítaspyrnukeppni í kvöld.
Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum í Danmörku en staðan var sú sama þegar flautað var til leiksloka í kvöld.
Því var boðið upp á framlengingu þar sem liðunum tókst ekki að koma boltanum í netið.
Elías Rafn, sem stóð vaktina í marki Midtjylland, varði vissulega ekki vítaspyrnu í vítakeppninni. Leikmenn Larnaca settu boltann í slá og þá fór síðasta spyrna liðsins í stöng, en Elías skutlaði sér þá í rétt horn og fylgdist með boltanum hafna í stönginni.
Midtjylland vann því vítakeppnina, 4-3, og er komið í þriðju umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar. Liðið mætir portúgalska liðinu Benfica en sigurvegarinn fer síðan í umspil um sæti í riðlakeppninni.
Athugasemdir