Everton hefur haft hægt um sig á leikmannamarkaðinum í sumar þrátt fyrir hrikalegt gengi á síðustu leiktíð.
Félagið er að reyna að losa sig við nokkra leikmenn áður en nýir verða keyptir inn. Einn þeirra er portúgalski miðjumaðurinn Andre Gomes sem á ennþá tvö ár eftir af samningi sínum við félagið. Hann er á háum launum og virðist ekki vera tilbúinn til að taka á sig launalækkun til að skipta um félag.
Gomes er ekki í áformum Frank Lampard knattspyrnustjóra sem er einnig með Allan, Tom Davies og Abdoulaye Doucoure í hóp auk Jean-Phillippe Gbamin sem er á sölulista.
Everton er þá í viðræðum við Juventus um sóknarmanninn Moise Kean sem er hjá félaginu á tveggja ára lánssamningi sem hófst í fyrra. Lánssamningnum fylgir kaupskylda ef ákveðnum skilyrðum er mætt og eru félögin að semja um að ljúka félagsskiptunum strax í sumar.
Hinn 22 ára gamli Kean skoraði fimm og gaf þrjár stoðsendingar í 32 leikjum í Serie A á síðustu leiktíð.
Everton borgaði 30 milljónir evra fyrir Kean en honum tókst ekki að sanna sig á Englandi og hefur verið hjá PSG og Juve á lánssamningum síðan.
Félagið er búið að selja Richarlison í sumar og þá eru Jonjoe Kenny, Cenk Tosun, Fabian Delph og Gylfi Þór Sigurðsson farnir á frjálsri sölu eða samningslausir.