þri 26. júlí 2022 20:11
Brynjar Ingi Erluson
Luis Suarez semur við uppeldisfélagið
Luis Suarez
Luis Suarez
Mynd: EPA
20 þúsund stuðningsmenn Nacional mættu með grímu af Suarez til að auka möguleikann á að fá hann aftur heim
20 þúsund stuðningsmenn Nacional mættu með grímu af Suarez til að auka möguleikann á að fá hann aftur heim
Mynd: EPA
Úrúgvæski framherjinn Luis Suarez er á heimleið eftir sextán ára feril í Evrópu en hann hefur tekið ákvörðun um að semja við uppeldisfélag sitt, Nacional, sem spilar í efstu deild í Úrúgvæ. Þetta kemur fram í myndbandi sem hann deilir á samfélagsmiðlum í kvöld.

Suarez hóf atvinnumannaferilinn hjá Nacional áður en hann var seldur til hollenska félagsins Groningen árið 2006.

Síðan þá hefur framherjinn átt stórkostlegan feril í Evrópu með liðum á borð við AJax, Liverpool, Barcelona og nú síðast Atlético Madríd.

Samningur hans við Atlético rann út í sumar en hann skoðaði tilboð frá fjölmörgum félögum í MLS-deildinni í Bandaríkjunum og þá hafði argentínska félagið River Plate mikinn áhuga.

Suarez hefur tekið sér dágóðan tíma í að taka ákvörðun en hún liggur nú fyrir; hann mun spila fyrir Nacional, þar sem ævintýri hans hófst og má gera ráð fyrir því að hann mun ljúka ferlinum þar.

„Ég hef náð samkomulagi við Nacional um að ganga til liðs við félagið. Það var ómögulegt fyrir mig að hafna þessu tækifæri. Ég vonast til þess að gengið verði frá helstu smáatriðum bráðlega," sagði Suarez í kvöld.

Suarez skoraði 12 mörk í 34 leikjum fyrir Nacional tímabilið 2005-2006 áður en hann var seldur til Hollands. Félagið er næst sigursælasta lið Úrúgvæ með 48 deildartitla, en aðeins Penarol er með fleiri, eða 51 talsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner