KR vann 4-1 sigur á ÍBV á heimavelli í 18.umferð Pepsí-deildar karla í dag. Pálmi Rafn Pálmason leikmaður KR var mjög ánægður með spilamennsku liðsins en hefði þó viljað halda markinu hreinu.
Lestu um leikinn: KR 4 - 1 ÍBV
„Já við vorum helvíti flottir í dag fannst mér, pínu pirrandi að sleppa inn marki þarna en heilt yfir mjög flottur leikur."
Pálmi er kominn með 9 mörk í sumar eftir að hafa skorað lítið undanfarin ár. Pálmi sagði að það hefði verið kominn tími á að fara skila fleiri mörkum fyrir liðið.
„Allavega svona markalega séð þá er þetta það, það er bara fínt, það hefur alltaf verið beðið eftir mörkunum frá mér og gaman að geta loksins skilað þeim. En er þetta ekki þessi leiðinlega klisja, svo lengi sem við vinnum skiptir það ekki máli hver skorar."
KR er í lykilstöðu í 4.sætinu og eru nú einungis 4 stigum frá 3.sætinu þar sem Breiðablik er búið að tapa tveim leikjum í röð. Pálmi segir að þeir séu fyrst og fremst að hugsa um að klára þetta 4.sæti og komast í Evrópukeppnina.
„Ef þeir misstíga sig og við klárum okkar leiki þá væntanlega getum við náð þeim. Við erum bara að hugsa um Evrópusætið, við ætlum að ná því allavega og svo skulum við sjá hvort við náum hærra en það. Fyrst og fremst ætlum við að halda í þetta sæti og komast í Evrópukeppni."
Athugasemdir