Man Utd vill Kane - Arsenal hefur áhuga á Yildiz - Villa vill kaupa Sancho
banner
   fös 26. september 2025 07:00
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Stjóri Lille hrósar Hákoni fyrirliða - „Treystum honum fullkomlega"
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Hákon Arnar Haraldsson var fyrirliði Lille þegar liðið vann Brann í Íslendingaslag í Evrópudeildinni í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem hann ber fyrirliðabandið hjá franska liðinu.

Hákon átti erfitt uppdráttar í leiknum en hann átti m.a. slæma sendingu á miðjum vellinum og í kjölfarið skoraði Sævar Atli Magnússon fyrir Brann og jafnaði metin. Eggert Aron Guðmundsson átti einnig þátt í markinu.

Hákon meiddist lítillega í 3-0 tapi gegn Lens um síðustu helgi. Bruno Genesio, stjóri Lille, tjáði sig um Hákon eftir leikinn.

„Það hægði mögulega á honum. Hann klikkaði á færi gegn Lens, það gerist en það hafði mikil áhrif á hann. Hann var líka ekki sáttur þegar hann kom út af í kvöld (í gær). Við þekkjum hann og munum styðja hann. Við dæmum hann ekki á einum eða tveimur leikjum," sagði Genesio

„Kannski var það ekki góð ákvörðun hjá mér að spila honum aðeins dýpra á vellinum. Það setti hann ekki í bestu stöðurnar til að sýna sig."

„Hann er einn af okkar leiðtogum. Við treystum fullkomlega á hann. Þess vegna var hann fyrirliði í kvöld. Það vara annað hvort hann eða Nabil Bentaleb en Hákon bar fyrirliðabandið hjá Íslandi nýlega," sagði Genesio.
Athugasemdir