Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 26. október 2021 08:15
Elvar Geir Magnússon
„Conte yrði fullkominn fyrir Man Utd"
Antonio Conte.
Antonio Conte.
Mynd: Getty Images
„Solskjær verður áfram hetja á Old Trafford en Manchester United þarf að hrista upp í hlutunum og það eru stjórar á lausu sem geta gert það," skrifar Martin Samuel, blaðamaður Daily Mail, um stjóramál United.

Hann er algjörlega ósammála Gary Neville sem talaði um að Antonio Conte væri ekki rétti maðurinn fyrir United. Að mati Samuel er Conte hin fullkomna lausn fyrir félagið.

„Conte er laus og hann vinnur hvert sem hann fer. Á sunnudag talaði Gary Neville um að hann ætti ekki að verða stjóri United. Neville er venjulega svo skynsamur en það er sársaukafullt að sjá hann reyna að verja vin sinn Ole og þá hverfur skynsemin út um gluggann."

„Rök Neville voru þau að hann passi ekki inn í United. En hvað þýðir það? Að hann hafi ekki skorað sigurmark fyrir þá í úrslitaleik Meistaradeildarinnar? Að nærvera hans fái ekki fólk til að hugsa til betri tíma? Að baksaga hans sé ekki sýnd á United safninu?"

Í pistli sínum fer Samuel yfir afrek Conte sem fyrrum stjóri Juventus, Ítalíu, Chelsea og Inter.

„Conte er mjög kröfuharður en erum við að láta eins og Sir Alex Ferguson hafi ekki verið það? Og Ferguson var þarna í 27 ár. Conte vill vissulega ráða leikmannakaupum en er það svo slæmt? Má ekki gera ráð fyrir því að sá sem hefur unnið tíu titla viti meira um fótbolta en Ed Woodward og Richard Arnold?"

Einhverjir hafa efast um að leikstíll Conte sé sá rétti fyrir United og talað um að hann sé varnarsinnaður.

„Það er eins og fólk hafi mjög lélegt minni. Tímabilið 2016-17 setti Chelsea lið hann met yfir úrvalsdeildarsigra á einu tímabili (30), jafnaði met yfir flesta sigurleiki í röð (13). Stigafjöldi Chelsea í heildina var sá næst hæsti í sögunni, 93. Liðið skoraði 85 mörk í 38 leikjum, fleiri mörk en Manchester United skoraði í 11 af 13 meistaratímabilum undir Ferguson," skrifar Samuel. „Margir segja að Conte sé of varfærinn fyrir Manchester United. Hvað þýðir það? Að varnarlínurnar hans séu of sjaldan sundurspilaðar?"
Athugasemdir
banner
banner