„Mér líst mjög vel á að fá þá. Heiðar er ungur og efnilegur markmaður sem hefur smá tengingu hérna í FH í gegnum pabba sinn. Finnur Orri er reynslumikill og mjög góður fótboltamaður," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH. Ólafur var til viðtals eftir að Finnur Orri Margeirsson og Heiðar Máni Hermannsson höfðu verið tilkynntir sem nýir leikmenn félagsins.
„Í fyrra, þegar ég tók við, þá hafði ég áhuga á að fá Finn Orra og við þreyfuðum aðeins á því en það gekk ekki eftir. Það tók ekki langan tíma núna. Finnur hefur spilað margar stöður á vellinum en mín hugmynd er sú að hann verði inn á miðjunni, ég fékk hann hingað sem miðjumann."
Sigurbjörn Hreiðarsson kom inn í þjálfarateymi FH í vetur og verður aðstoðarmaður Óla. Þeir þekkjast ágætlega, hafa unnið saman hjá Haukum og Val.
„Ég talaði við Bjössa ... ég man ekki hvenær, þegar við vorum saman í Haukum og við höfum verið saman síðan. Hann var með Grindavík í fyrra, hætti því og kom hingað."
Óli var í viðræðum við FH síðasta haust hvort hann yrði áfram með félagið. Hann neitaði því að það hefði verið krafa að fá inn Bjössa Hreiðars í þjálfarateymið. Hann gaf sama svar aðspurður um komu Kristins Freys Sigurðssonar í vetur. „Þetta er bara fótbolti."
Í lok viðtals við var Óli spurður út í frekari styrkingar. Viðtalið í heild má sjá í spilaranum að ofan.
Athugasemdir