Sane, Bruno og Zubimendi orðaðir við Arsenal - Útsendarar Liverpool fylgjast með Hato - Tilboði Man Utd í De Jong var hafnað
   mán 27. janúar 2025 19:05
Ívan Guðjón Baldursson
Sádi-Arabía: Toppliðin biðu bæði ósigurs
Mynd: EPA
Það fóru þrír leikir fram í efstu deild sádi-arabíska boltans í dag þar sem úrslitin komu mikið á óvart.

Stórveldi Al-Ittihad tapaði óvænt á útivelli gegn Damac þar sem Georges-Kévin N'Koudou, fyrrum leikmaður Tottenham, skoraði bæði mörk heimamanna í 2-1 sigri.

N'Koudou skoraði eftir undirbúning frá Nicolae Stanciu í fyrri hálfleik en Karim Benzema jafnaði skömmu fyrir leikhlé svo staðan var 1-1 þegar liðin gengu til búningsklefa.

Seinni hálfleikurinn var jafn og tíðindalítill og tókst hvorugu liði að skora þar til seint í uppbótartíma, þegar N'Koudou og Stanciu endurtóku leikinn frá því í fyrri hálfleik til að gera sigurmarkið.

Þetta tap hefði verið mikill skellur fyrir Al-Ittihad, sem er í harðri titilbaráttu við Al-Hilal, hefði Al-Hilal ekki einnig tapað sínum leik í dag.

Tapleikur Al-Hilal gegn Al-Qadisiya var keimlíkur tapleik Al-Ittihad, þar sem Pierre-Emerick Aubameyang skoraði bæði mörk Al-Qadisiya.

Aubameyang skoraði snemma leiks en Marcos Leonardo jafnaði fyrir Al-Hilal í upphafi síðari hálfleiks. Það var svo í uppbótartíma sem Aubameyang gerði sigurmarkið.

Í byrjunarliði Al-Ittihad mátti finna menn á borð við Danilo Pereira, N'Golo Kanté, Fabinho og Steven Bergwijn á meðan Moussa Diaby kom inn af bekknum.

Til samanburðar voru Kalidou Koulibaly, Joao Cancelo, Rúben Neves, Sergej Milinkovic-Savic, Renan Lodi, Malcom og Yassine Bounou í tapliði Al-Hilal.

Al-Ittihad og Al-Hilal deila því áfram toppsæti deildarinnar, með 43 stig eftir 17 umferðir. Al-Qadisiya er í þriðja sæti með 37 stig eftir sigurinn í dag, á meðan Damac er um miðja deild.

Al-Shabab lagði þá Al-Feiha að velli í dag þar sem markavélin Abderrazak Hamdallah, fyrrum liðsfélagi Benzema og félaga hjá Al-Ittihad, skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri.

Damac 2 - 1 Al-Ittihad
1-0 Georges-Kévin N'Koudou ('17)
1-1 Karim Benzema ('45+4)
2-1 Georges-Kévin N'Koudou ('94)

Al-Qadisiya 2 - 1 Al-Hilal
1-0 Pierre-Emerick Aubameyang ('2)
1-1 Marcos Leonardo ('50)
2-1 Pierre-Emerick Aubameyang ('93)

Al-Shabab 2 - 1 Al-Feiha
1-0 Abderrazak Hamdallah ('34)
1-1 Renzo Lopez ('57)
2-1 Abderrazak Hamdallah ('96, víti)
Athugasemdir
banner
banner
banner