Joao Pedro í forgangi hjá Liverpool - Man Utd setur verðmiða á Rashford - Real Madrid missir vonina gagnvart Davies
banner
   mán 27. mars 2023 08:10
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Svekkelsi og suðupunktur
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Guðlaugur Victor Pálsson talaði beint frá hjartanu.
Guðlaugur Victor Pálsson talaði beint frá hjartanu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson eftir leikinn í gær.
Arnar Þór Viðarsson eftir leikinn í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur Victor Pálsson landsliðsmaður talaði beint frá hjartanu í viðtölum eftir 7-0 sigurinn gegn Liechtenstein í gær. Hann vildi lítið ræða skyldusigurinn gegn dvergríkinu, þó miskunnarlaust íslenska liðið hafi svo sannarlega keyrt rækilega á andstæðinga sína.

Þegar talið verður upp úr pokanum í lokin eru allar líkur á því að þessi 7-0 sigur skipti í raun engu máli, þó hann hafi nært sálina í gær. Liechtenstein er það hrikalega lélegt lið að allir keppinautar okkar munu sækja fullt hús gegn því.

Í þessari undankeppni eru innbyrðis viðureignir sem ráða úrslitum ef lið eru jöfn, frekar en heildarmarkatala. Leikurinn sem skipti máli í þessum glugga var leikurinn gegn Bosníu og Hersegóvínu sem tapaðist 3-0.

Það voru ekki bara töpuð stigin sem sviðu heldur einnig hrikalega slök frammistaða íslenska liðsins. Barnaleg frammistaða eins og Guðlaugur Victor orðaði það.

„Ef þú vilt komast á stórmót er það ekki í boði og mig langar að komast á stórmót," sagði Guðlaugur Victor sem talaði af ástríðu og innlifun. Hann sagði hlutina eins og þeir eru og keppnisskapið geislaði af honum.

Við komumst nefnilega ekki á stórmót með því að vinna bara Liechtenstein, eins og allar aðrar þjóðir gera líka, en undir stjórn Arnars Þórs Viðarsssonar hafa komið þrír sigrar í keppnisleikjum; gegn Liechtenstein, Liechtenstein og Liechtenstein.

Óboðleg frammistaða
Það er allt á suðupunkti í riðli Íslands. 89% íslenskra fótboltaáhugamanna vilja þjálfaraskipti, það var hraunað yfir þjálfara Slóvaka eftir fyrstu umferðina og í gær lenti þjálfari Bosníu í heitu rifrildi við stuðningsmenn.

Það er allt á suðupunkti því þessi þrjú lönd líta á þetta sem dauðafæri til að komast á EM, sem þetta er. Í núverandi kerfi er erfitt að ímynda sér að hægt sé að dragast í auðveldari riðil ef svo má að orði komast.

Einhverjir vildu meina að lið Bosníu, sem hefur aldrei komist á lokakeppni EM og var án sinna þriggja þekktustu leikmanna gegn Íslandi, væri bara á einu augabragði orðið svona ógnarsterkt og það væri skýringin á tapinu. Þeir aðilar hafa væntanlega þurft að endurskoða það mat sitt eftir leikina í gær.

Frammistaða Íslands gegn Bosníu var einfaldlega óboðleg og má ekki endurtaka sig í sumar þegar fyrstu heimaleikirnir okkar fara fram. Það var gaman í gær en sá leikur verður því miður ómarktækur og tilgangslaus þegar heildin er skoðuð.
Athugasemdir
banner
banner
banner