FH er aðeins með eitt stig og situr eitt á botni Bestu deildarinnar eftir 3-2 tap gegn KA á Akureyri í dag. Heimir Guðjónsson er allt annað en sáttur við það hvernig lið sitt hefur verið í upphafi móts.
Lestu um leikinn: KA 3 - 2 FH
„Við vorum ekki nægilega góðir í fyrri hálfleik, þetta var leikur áhlaupa en við vorum sjálfum okkur verstir. Við jöfnum á 83. mínútu og eftir það hlaupum við af stað í einhverja vitleysu og það er komið mark í andlitið strax. Í stað þess að halda haus, vera klókir og halda skipulaginu," segir Heimir.
„Við höfum spilað fjóra leiki í deildinni og virðumst ekki geta spilað fótbolta nema við lendum undir. Byrjum alla leikina skelfilega, bæði varnar- og sóknarlega. Við getum ekki alltaf mætt á fótboltavelli og beðið eftir því að fá á okkur mark og ætla þá að spila. Við þurfum að hugsa okkar gang í þessu. Það þýðir ekki að mæta hingað á Akureyri og vera pínulitlir og ætla svo að gera eitthvað þegar við erum komnir með bakið upp við vegg. Við þurfum að gjöra svo vel að spila einhvern fótbolta og verjast eins og lið."
Heimir segir að strax á morgun þurfi menn að fara yfir málin á æfingasvæðinu og laga hlutina fyrir næsta leik, sem er gegn Val. Viðtalið er í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir