Onana orðaður við Sádí-Arabíu - Wharton til Liverpool - Barcelona búið að finna eftirmann Lewandowski
   sun 27. apríl 2025 20:14
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeild kvenna: Arsenal mætir Barcelona í úrslitum
Kvenaboltinn
Barcelona spilar til úrslita í ár
Barcelona spilar til úrslita í ár
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Arsenal mætir ríkjandi meisturum Barcelona
Arsenal mætir ríkjandi meisturum Barcelona
Mynd: EPA
Arsenal og Barcelona mætast í úrslitum Meistaradeildar Evrópu kvennamegin en þetta verður í fyrsta sinn sem liðin munu eigast við á þessu stigi keppninnar.

Börsungar voru í engum vandræðum með að tryggja sæti sitt áfram og koma sér þannig í úrslit í fimmta sinn í röð með því að vinna 4-1 sigur á Chelsea í dag.

Spænska liðið vann fyrri leikinn með sömu markatölu og það var sami bragur á þeim í dag.

Aitana Bonmatí kom Barcelona yfir eftir hraða sókn. Hún keyrði fram völlinn og alla leið inn í teig áður en hún skoraði með laglegu skoti. Ewa Pajor bætti við öðru eftir sendingu Caroline Graham Hansen undir lok hálfleiks og þá var þetta svo gott sem komið, en Barcelona var ekki hætt.

Claudia Pina skoraði stórbrotið mark við vítateigslinuna stuttu síðar og boltinn alveg upp við stöng og inn.

Salma Paralluelo gerði fjórða og síðasta mark Börsunga í leiknum í síðari hálfleik. Hún fékk boltann inn fyrir, lyfti honum yfir varnarmann Chelsea sem náði ekki að hreinsa frá og komst Paralluelo í boltann og potaði honum í netið.

Chelsea gerði eitt sárabótarmark mínútu síðar eftir að Börsungar misstu boltann fyrir utan eigin teig. Wieke Kaptein fékk boltann og hamraði honum í nærhornið.

Barcelona vann samanlagðan 8-2 sigur og mun mæta Arsenal í úrslitum eftir frábæran viðsnúning gegn Lyon í Frakklandi í kvöld.

Lyon vann fyrri leikinn í Lundúnum með tveimur mörkum gegn einu, en Arsenal kom brjálað inn í seinni leikinn og með öll völd.

Christiane Endler, markvörður Lyon, átti hörkuvörslu á 4. mínútu og aftur fyrir endamörk. Liðsfélagarnir fögnuðu henni gríðarlega, en í hornspyrnunni klikkaði hún svakalega og fékk boltann í sig og í eigið net.

Mariona Caldentey skoraði annað markið og var það líklega það fallegasta í undanúrslitum og mögulega í keppninni á þessu tímabili er hún skrúfaði boltann fyrir utan teig og í samskeytin fjær. Stórbrotið mark hjá spænsku landsliðskonunni.

Arsenal-konur mættu leiftrandi inn í síðari hálfleikinn og skoraði Alessia Russo þriðja markið þegar tæp mínúta var liðin af honum er hún komst inn vinstra megin og setti boltann í gegnum Endler og í markið.

Það kom smá meðbyr með Lyon þegar leið á síðari hálfleikinn en það kom annað högg þegar varnarmaður liðsins rann til í eigin teig og missti boltann. Caitlin Foord tók boltann og hamraði honum efst í nærhornið. Ótrúleg endurkoma í einvíginu.

Kadidiatou Diani setti eitt fyrir Lyon þegar tíu mínútur voru eftir lengra komst sigursælasta lið Meistaradeildarinnar ekki.

Arsenal mætir Barcelona í úrslitum og er nú ágætis möguleiki á því að karlaliðin mætist einmitt einnig í úrslitaleiknum. Það væri sögulegt, en karlaliðin eru bæði komin í undanúrslit.

Þetta verður þá í annað sinn í sögunni sem kvennalið Arsenal kemst í úrslitaleikinn, en það vann keppnina árið 2007 eftir sigur á Umeå í úrslitum.

Lyon 1 - 4 Arsenal (Samanlagt 3-5)
0-1 Christiane Endler (5, sjálfsmark )
0-2 Mariona Caldentey ('45 )
0-3 Alessia Russo ('46 )
0-4 Caitlin Foord ('63 )
1-4 Kadidiatou Diani ('81 )

Chelsea 1 - 4 Barcelona (Samanlagt 2-8)
0-1 Aitana Bonmatí ('25 )
0-2 Ewa Pajor ('41 )
0-3 Claudia Pina ('43 )
0-4 Salma Paralluelo ('90 )
1-4 Wieke Kaptein ('90 )
Athugasemdir
banner