Mohamed Salah, besti leikmaður Liverpool á tímabilinu, var hæstánægður með að hafa landað Englandsmeistaratitlinum með liðinu í dag, en hann segir að þessi titill hafi meiri þýðingu en fyrsti titill hans með liðinu.
Salah skoraði eitt mark í 5-1 sigrinum á Tottenham sem tryggði 20. deildartitil félagsins.
Egyptinn hefur verið aðalmaðurinn í liði Liverpool síðan hann kom frá Roma fyrir átta árum og gat varla lýst því með orðum hvernig tilfinningin var að landa titlinum.
„Ótrúlegt. Það er sérstakt að vinna titilinn á Anfield og mjög erfitt að lýsa því. Allir vildu að Palace myndi klára þetta gegn Arsenal, en ég veit hvernig Anfield er, þannig ég er ánægður að við kláruðum þetta hér.“
„Þetta er allt öðruvísi (en titillinn sem Liverpool vann árið 2020). Tilfinningin er ótrúleg. Við unnum fyrsta titilinn þegar það var útgöngubann í miðjum heimsfaraldri, en að vera hér fimm árum síðar er bara ótrúleg tilfinning,“ sagði Salah.
Salah segist hafa verið sama hvort hann skoraði eða ekki og það mikilvægasta hafi verið að vinna leikinn.
„Það skiptir engu máli. Að vinna á Anfield er magnað.“
Titillinn í ár er sérstakari en sá sem hann vann árið 2020 og það af margvíslegum ástæðum.
„Hún hefur verið ótrúleg. Að vinna ensku úrvalsdeildina og að hafa þau áhrif sem ég hef haft á tímabilinu er bara magnað. Þessi titill hefur meiri þýðingu fyrir mig. Jürgen og hinir leikmennirnir sem ég virði mikið eru ekki hér, en að gera þetta undir nýjum stjóra og með nýju liði sýnir hvað ég er fær um að gera.“
Hann talaði einnig um áhrif hollenska stjórans Arne Slot en varaði hann við því að næsta tímabil verið enn erfiðara.
„Fólk heldur að þetta verði auðveldara, en núna verður þetta erfiðara því önnur lið munu ná okkur og því verður þetta enn erfiðara fyrir hann. Þannig var annað tímabil mitt eða frá því ég kom hingað.“
Að lokum sagðist hann ánægður með að hafa skrifað undir nýjan tveggja ára samning við LIverpool og segist viss um að hann og liðsfélagar hans geti haldið áfram að gleðja stuðningsmenn félagsins.
„Ég er mjög ánægður með það. Ég er viss um að næsta tímabil og árið eftir það verði frábært,“ sagði Salah í lokin.
Athugasemdir