Newcastle hefur áhuga á Jóni Degi - Brighton reynir við Summerville - Tilboði Tottenha í Toney hafnað
   mán 27. maí 2024 18:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Stoltur af syninum - „Löngu orðinn betri en ég var nokkurn tímann"
Mynd: Fótbolti.net
Alexander Máni og annar Stjörnumaður, Gunnar Orri Olsen, á æfingu með FCK.
Alexander Máni og annar Stjörnumaður, Gunnar Orri Olsen, á æfingu með FCK.
Mynd: Aðsend
Alexander Máni fór á reynslu til Benfica. Hann skoraði í æfingaleik með unglingaliðinu.
Alexander Máni fór á reynslu til Benfica. Hann skoraði í æfingaleik með unglingaliðinu.
Mynd: Aðsend
Guðjón varð bikarmeistari með Stjörnunni 2018. Alexander Máni er þarna skælbrosandi.
Guðjón varð bikarmeistari með Stjörnunni 2018. Alexander Máni er þarna skælbrosandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var frábært augnablik, bæði fyrir hann og okkur. Hann er búinn að leggja mikið á sig frá því hann var lítill pjakkur og ótrúlega gaman að sjá hann fá fyrstu mínúturnar. Það er búið að vera draumur hjá honum," sagði Guðjón Baldvinsson við Fótbolta.net í dag.

Unglingalandsliðsmaðurinn Alexander Máni Guðjónsson lék sinn fyrsta leik með Stjörnunni í gær þegar hann kom inn á undir lok leiks gegn KA í Bestu deildinni í gær. Alexander Máni er sonur Guðjóns. Guðjón er fyrrum framherji Stjörnunnar. Hann lék á sínum ferli sem atvinnumaður í Svíþjóð, í Danmörku og á Indlandi. Hann lék á sínum tíma fjóra A-landsleiki.

Lestu um leikinn: Stjarnan 5 -  0 KA

„Þetta voru náttúrulega fimm mínútur og kannski erfitt fyrir hann að gera mikið á þeim mínútum, en það sem hann gerði, gerði hann vel. Hann sýndi enga miskunn þegar hann var að pressa og vann boltann. Aðdáunarvert fyrir mig að sjá 14 ára strák gera þetta."

Fyrir löngu orðinn betri en Gaui var nokkurn tímann
Varst þú svona góður þegar þú varst 14 ára?

„Nei, hann er löngu orðinn betri en ég var nokkurn tímann, ég get lofað þér því. Maður var viðriðinn meistaraflokk á þessum aldri, enda var standardinn á meistaraflokki Stjörnunnar þá ekki sá sami og hann er í dag. Við vorum í 1. og 2. deild þegar ég var að byrja. Þetta er ótrúlega flott afrek hjá honum og bara vel gert hjá Jökli og Stjörnunni að þora og treysta svona ungum leikmanni, það er ekki sjálfgefið."

Þá þurfti að færa sig annað
Guðjón lék á sínum ferli einnig með KR. Var einhvern tímann spurning með Alexander Mána hvort hann myndi æfa með Stjörnunni eða KR?

„Nei, það var nú aldrei spurning. Við erum Garðbæingar, búum þar og hann elst upp í Stjörnunni. Það voru aðrar aðstæður þegar ég var ungur, þá dreymdi mann um að spila í efstu deild og þá þurfti maður að færa sig annað."

Gaman að sjá Alexander spila með Danna
Hvernig leið þér að sjá Alexander fara inn á?

„Mér fannst þetta ótrúlega venjulegt. Hann hefur sýnt það undanfarið að hann getur þetta. Ég er auðvitað stoltur af honum. Hann skoraði mark í síðasta æfingaleik fyrir mót með meistaraflokki. Þetta var rosalega eðlilegt einhvern veginn. Danni Lax er að spila með honum, ég náði því ekki. Við Danni erum vinir og gaman að sjá hann upplifa að spila með honum."

Verið mjög fallegt ferðalag
Var eitthvað í þér sem hugsaði að þú hefðir átt að þrauka lengur í boltanum til að ná að spila með stráknum?

„Ég meiddist í lok ferilsins og þurfti að hætta. Maður var svona búinn að sætta sig við það. Eitt af því sem fékk mann til að sætta sig við þetta var meiri tími til að aðstoða hann. Það hefur verið mjög fallegt ferðalag undanfarin ár að fylgjast með honum spila, fara erlendis að horfa á hann, búið að vera mjög gaman."

Mjög góð blanda
Er hann svipuð týpa og þú varst á velli?

„Nei, ég myndi ekki segja það. Mig skorti það sem hann hefur, tækni, móttaka og þessi yfirvegun sem hann hefur. Á sama tíma hefur hann keppnisskapið og áræðnina frá pabba sínum. Þetta er mjög góð blanda."

Aldrei áhugi á neinu öðru en fótbolta
Var hann í fleiri íþróttum þegar hann var yngri?

„Hann prófaði ýmislegt en fótboltinn hefur verið það eina sem hefur átt hans hug frá því hann var lítill. Það var aldrei neinn áhugi á neinu öðru."

Þarf að vilja og biðja um hjálpina
Þegar þú fylgist með honum, ertu mikið að ráðleggja honum hvað hann gæti gert betur?

„Aldrei nema hann biðji mig um það, það var regla frá því hann var lítill að hann kæmi til mín ef hann vildi fá ráð. Hann hefur verið duglegur við það undanfarin ár. Þessi mörgu smáatriði sem er hægt að gera betur og andlega hliðin, ég hef verið mjög duglegur að hjálpa honum þegar hann hefur leitað til mín."

Óska þess að hann njóti þess og hafi gaman af
Hvað er það sem þig langar að sjá hann gera í sumar og kannski næstu 2-3 ár?

„Það er ekki sjálfgefið að 14 ára leikmenn fái mínútur, ef þær verða fleiri þá er það bara frábært fyrir hann og frábært fyrir Stjörnuna að eiga svona ungan leikmann. Ég óska þess að hann nái að sýna sitt rétta andlit, njóti þess og hafi gaman af þessu. Það er sérstakt að vera svona ungur, það er erfitt að vera ungur að brjóta sig í gegn. Það er æðislegt að fylgjast með því ferli," sagði Guðjón að lokum.

Við leit að nafni Alexanders má sjá að fyrst komst nafn hans á Fótbolta.net árið 2019 þegar hann var í liði mótsins á Orkumótinu í Vestmannayejum. Hann verður 15 ára seinna á þessu ári. Hann hefur þegar spilað þrjá U15 landsleiki og æfði í vetur með unglingaliðum FCK og Benfica.
Jökull: Við vildum koma inn af krafti
Athugasemdir
banner
banner