Breiðablik vann öruggan 7-1 sigur á Tre Penne frá San Marínó í umspili um sæti í forkeppni Meistaradeildarinnar á Kópavogsvelli í kvöld.
Fótbolti.net ræddi við Damir Muminovic varnarmann Blika eftir leikinn.
„Mér fannst við geta skorað fleiri mörk, geta verið aðeins betri fyrir framan markið og það er ekkert eðlilega pirrandi að fá þetta mark á sig. Þetta má ekki í svona keppni, betri andstæðingur myndi refsa okkur oftar," sagði Damir.
„Menn þurfa að vera í betri fókus varnarlega, ekki bara þeir sem voru þarna heldur allir. Það er ekkert erfitt að díla við þetta en við þurfum að læra af þessu."
Damir var ekki með liðinu þegar Blikar töpuðu 5-2 í Kópavogsslagnum gegn HK á dögunum. það var erfitt fyrir hann að horfa upp á það.
„Það var mjög stressandi, ég held ég hafi misst svona þrjú kíló. Þetta var einn af þessum dögum, þetta kemur fyrir öll lið, við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu, þetta er búið," sagði Damir.