Aston Villa horfir til Sunderland - Real Madrid ætlar að fá Konate - Anderson ekki til sölu
   lau 27. september 2025 17:06
Brynjar Ingi Erluson
Jason Daði sneri aftur í stórsigri Grimsby - Bjarki Steinn lagði upp
Jason Daði er mættur aftur á völlinn
Jason Daði er mættur aftur á völlinn
Mynd: Grimsby
Bjarki Steinn lagði upp annað mark Venezia
Bjarki Steinn lagði upp annað mark Venezia
Mynd: Venezia FC
Jason Daði Svanþórsson sneri aftur á völlinn með Grimsby Town er liðið slátraði Cheltenham, 7-1, í ensku D-deildinni í dag.

Mosfellingurinn fór í aðgerð eftir síðasta tímabil og missti hann því af byrjun þessa tímabils.

Hann var á bekknum í dag og kom inn á þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir.

Frábær dagur fyrir hann og Grimsby sem situr í 5. sæti með 18 stig.

Benoný Breki Andrésson byrjaði hjá Stockport County sem gerði 1-1 jafntefli við Reading í C-deildinni. Stockport er í 7. sæti með 16 stig.

Tómas Bent Magnússon kom inn á sem varamaður í 3-0 sigri Hearts á Falkirk í skosku úrvalsdeildinni. Hearts er á toppnum með 16 stig eftir sex leiki.

Logi Tómasson var í byrjunarliði Samsunspor sem gerði 2-2 jafntefli við Gaziantep í tyrknesku úrvalsdeildinni. Logi hefur fagnað góðum árangri á sínu fyrsta tímabili og var á dögunum valinn í lið vikunnar í deildinni.

Samsunspor er í 4. sæti með 12 stig.

Ísak Snær Þorvaldsson hafði betur gegn Nóel Atla Arnórssyni er Lyngby lagði Álaborg að velli, 2-1, í dönsku B-deildinni. Nóel var í byrjunarliði Álaborgar á meðan Ísak Snær kom inn af bekknum hjá Lyngby.

Lyngby er á toppnum í B-deildinni með 21 stig en Álaborg í 7. sæti með 14 stig.

Guðlaugur Victor Pálsson var í hjarta varnarinnar hjá Horsens sem tapaði óvænt fyrir Hilleröd, 2-1, á útivelli. Horsens, sem var á toppnum er nú í 4. sæti með 18 stig.

Bjarki Steinn Bjarkason lagði upp annað mark Venezia í 2-0 sigri á Spezia í B-deildinni á Ítalíu.

Bakvörðurinn hefur verið öflugur hjá Venezia í byrjun leiktíðar en liðið er í 7. sæti með 8 stig eftir fimm leiki.

Logi Hrafn Róbertsson kom inn af bekknum hjá Istra 1961 í markalausu jafntefli gegn Rijeka. Daníel Dejan Djuric var ónotaður varamaður hjá Istra sem er í 7. sæti króatísku deildarinnar með 9 stig.

Júlíus Magnússon byrjaði hjá Elfsborg sem tapaði fyrir Degerfors, 2-1, á heimavelli. Ari Sigurpálsson kom inn af bekknum í seinni hálfleik. Það gengur ekkert hjá Elfsborg sem hefur ekki unnið deildarleik síðan í byrjun ágúst en liðið er í 8. sæti með 37 stig.
Athugasemdir
banner
banner