Aston Villa horfir til Sunderland - Real Madrid ætlar að fá Konate - Anderson ekki til sölu
   lau 27. september 2025 12:13
Brynjar Ingi Erluson
Man Utd undir í Lundúnum - Sesko kominn á blað
Igor Thiago skoraði tvö á nokkrum mínútum
Igor Thiago skoraði tvö á nokkrum mínútum
Mynd: Brentford
Benjamin Sesko opnaði markareikninginn með United
Benjamin Sesko opnaði markareikninginn með United
Mynd: EPA
Leikur Brentford og Manchester United hefur farið nokkuð fjörlega af stað í Lundúnum en staðan er 2-1 fyrir heimamenn þegar lítið er eftir af hálfleiknum. Benjamin Sesko opnaði markareikninginn með United.

Brasilíski framherjinn Igor Thiago skoraði tvö mörk með stuttu millibili fyrir Brentford.

Fyrra markið gerði hann eftir langa sendingu Jordan Henderson fram völlinn. Harry Maguire reyndi að gera Thiago rangstæðan, en það heppnaðist illa. Thiago var réttstæður og komst einn í gegn á móti Altay Bayindir.

Afgreiðslan frá Thiago var hins vegar í heimsklassa, en hann skaut föstum bolta upp í nærskeytin og algerlega óverjandi fyrir Bayindir í markinu.

Sjáðu glæsilega afgreiðslu Thiago

Seinna markið kom eftir hálfgert skot frá Kevin Schade. Bayindir varði boltann út í teiginn á Thiago sem kom Brentford í 2-0.

Sjáðu annað mark Thiago hér

Heimamenn sköpuðu sér fullt af sénsum þar á milli, en United tókst að bíta frá sér með fyrsta marki slóvenska framherjans Benjamin Sesko.

Sesko fékk að vísu þrjár tilraunir til þess að skora. Hann átti skalla sem Caoimhin Kelleher varði, fékk frákastið sem Írinn varði líka, en á einhvern ótrúlegan hátt fékk Sesko annað frákast og þá kom hann boltanum í netið. Vafasamur varnarleikur hjá Brentford að leyfa Sesko að fá þrjú færi á nokkrum sekúndum.

Sjáðu fyrsta mark Sesko fyrir United

Annars var þungu fargi létt af Sesko sem hafði spilað sex leiki með United án þess að skora.
Athugasemdir
banner