Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 27. október 2020 12:00
Elvar Geir Magnússon
Carragher: Mun aldrei virka að vera með Pogba og Bruno
Paul Pogba.
Paul Pogba.
Mynd: Getty Images
Jamie Carragher.
Jamie Carragher.
Mynd: Getty Images
Jamie Carragher, sérfræðingur Sky Sports, hrósar Ole Gunnar Solskjær fyrir að hafa verið með Paul Pogba á bekknum.

Pogba, sem er dýrasti leikmaður Manchester United í sögunni, byrjaði á bekknum í sigurleiknum gegn Paris Saint-Germain og jafnteflinu gegn Chelsea um helgina.

Carragher segir að miðja sem er bæði skipuð Pogba og Bruno Fernandes muni „aldrei virka" og hrósar Solskjær hvernig hann hafi tekist á við málið.

„Ég virði Solskjær fyrir að láta Pogba á bekkinn. Ég sagði fyrir nokkrum vikum að Bruno og Pogba gætu ekki myndað miðju saman. Þeir geta ekki spilað saman og munu aldrei geta það," segir Carragher.

Carragher segist ekki skilja kaup Manchester United á hollenska miðjumanninum Donny van de Beek.

„Í hreinskilni sagt þá botna ég ekki í þessum kaupum. Ég skil ekki hvar hann á að spila eða hvar hann mun passa inn. Hans besta staða er í 'tíunni' og Bruno Fernandes spilar þar. Pogba getur spilað þar og í augnablikinu hentar liðinu best að hafa Fred og Scott McTominay á miðjunni."

Hann segir þó að til lengri tíma séu Fred og McTominay ekki nægilega góðir fyrir United ef félagið ætlar að berjast um að verða Englandsmeistari.

„Stóra vandamálið er samt Paul Pogba. Bruno er maðurinn í þessari 'tíu' en ég veit ekki hvort Ole geti haldið áfram að vera með 90 milljóna punda mann á bekknum. Hann kemur örugglega aftur inn í liðið en hann og Bruno saman mun aldrei virka," segir Carragher.
Athugasemdir
banner
banner
banner