fim 27. október 2022 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Búinn að verja þrjár vítaspyrnur í röð
Diogo Costa
Diogo Costa
Mynd: EPA
Portúgalski markvörðurinn Diogo Costa var enn og aftur í essinu sínu með Porto í gær er liðið gjörsigraði Club Brugge, 4-0, í Meistaradeild Evrópu en þetta var þriðja vítið sem hann ver í riðlakeppninni.

Þessi 23 ára gamli markvörður er að eiga sitt besta tímabil með Porto en sá hefur verið heitur í rammanum og sérstaklega þegar það kemur að vítaspyrnum.

Hann varði tvívegis í sigrinum í gær. Fyrst varði hann frá Hans Vanaken en það þurfti að endurtaka vítið þar sem Costa steig af línunni áður en spyrnan var tekin. Brugge skipti um vítaskyttu og var það Noa Lang sem fór á punktinn í seinna vítinu og aftur varði Costa.

Þetta er þriðji Meistaradeildarleikurinn í röð sem Costa ver vítaspyrnu en hann varði víti í báðum leikjunum gegn Bayer Leverkusen áður en hann varði frá Lang í gær.

Enginn markvörður hafði afrekað það að verja þrjár vítaspyrnu í einni og sömu riðlakeppninni áður en Costa gerði það í gær og hvað þá í þremur leikjum í röð.

Costa hefur verið orðaður við Manchester United síðustu vikur en Erik ten Hag, stjóri United, sér hann sem arftaka David De Gea.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner