
„Ég er svekkt að við fengum ekkert út úr þessu. Mér fannst við spila ágætlega. Sérstaklega fyrri hálfleikinn og fannst þetta vera jafnt hvorn veginn sem var og miðað við frammistöðu fannst mér við eiga skilið stig í þessum leik,“ sagði varnarjaxlinn Guðrún Arnardóttir í samtali við Fótbolta.net eftir 1-0 tap gegn Danmörku í Þjóðadeildinni.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 1 Danmörk
Úrslitin í leiknum voru vissulega svekkjandi en frammistaðan mun jákvæðari en í síðasta leik.
„Við vorum ekkert líkar sjálfum okkur í síðasta leik. Við vorum ekki að ná að klukka þær. Við vorum ekki að vinna einvígin, sem er okkar identidy. Við náðum því í lag og fórum svo bara vel í gegnum Danina, hvernig þær spiluðu og hvernig við ætluðum að spila á móti þeim. Hausinn var betur skrúfaður á og við ætluðum ekki að eiga tvo leiki í röð eins og leikinn á móti Þýskalandi,“ sagði Guðrún sem var heilt yfir nokkuð sátt með frammistöðu íslenska liðsins.
Næsti leikur er strax á þriðjudaginn en þá mætir öflugt lið Þýskalands í Laugardalinn. Guðrún og félagar eru staðráðnar í að mæta þýska stálinu af krafti og gera betur en síðast.
„Við ætlum að taka á móti þeim með hörku. Það er nokkuð ljóst eftir síðasta leik að við þurfum að vera harðari. Við þurfum að vinna einvígin. Það eru þessi grunnatriði sem við þurfum að vinna til þess að geta spilað fótbolta.“
Nánar er rætt við Guðrúnu í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir