banner
   fim 28. janúar 2021 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mourinho fór mikinn eftir síðasta leik við Liverpool
Mourinho og Klopp eigast við í kvöld.
Mourinho og Klopp eigast við í kvöld.
Mynd: Getty Images
Það verður athyglisverð viðureign í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar Tottenham og Liverpool eigast við í London.

Það hefur gengið afar illa hjá Englandsmeisturum Liverpool að undanförnu og datt liðið úr enska bikarnum gegn Manchester United um síðustu helgi. Liverpool hefur aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum og kom sá sigur gegn krakkaliði Aston Villa í FA-bikarnum. Liverpool er í fimmta sæti og Tottenham er stigi á eftir með leik til góða.

Þegar þessi lið mættust fyrir rúmum mánuði síðan þá hafði Liverpool betur með dramatísku sigurmarki Roberto Firmino.

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, fór mikinn í viðtali eftir leikinn.

„Liðið var stórkostlegt. Liverpool litu ekki út eins og meistarar, Evrópumeistarar, Heimsmeistarar, sá munur var ekki á liðunum. Ég sagði við Klopp að betra liðið hefði tapað og hann var ósammála. En það er hans skoðun," sagði Mourinho en það voru ekki allir sammála þessum ummælum hans.

Hann gagnrýndi einnig Jurgen Klopp, stjóra Liverpool. „Dómarar leyfa honum (Klopp) að haga sér svona. Það er ekki mitt vandamál. Ég er leiður út af því að ég fæ ekki að haga mér svona," sagði Mourinho án þess að útskýra nánar hvað hann væri að tala um.

Í fyrri leik þessara liða á tímabilinu var Liverpool 76 prósent með boltann og átti 17 marktilraunir gegn átta hjá Tottenham. Liverpool átti átta skot á markið og Tottenham tvö. Tottenham var hins vegar með hærra xG í leiknum og í fótbolta hefur hver rétt á sinni skoðun.

Til að skýra xG á einfaldan hátt, þá mælir það hversu líklegt það er að lið skori miðað við gæði marktækifæris. Skot af 30 metrum skilar ekki miklu xG en dauðafæri við opið mark mun skila mjög háu xG. Samkvæmt tölfræðinni í fyrri leik liðanna í deildinni, þá fékk Tottenham betri færi til að vinna leikinn.

Það verður spennandi að sjá hvað gerist í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:00


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner