Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mán 28. apríl 2014 12:15
Elvar Geir Magnússon
Óli Kristjáns: Ætla að skila liðinu vel af mér
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég tel að við séum með lið til að berjast í toppnum og á ekki von á öðru en við verðum á þeim slóðum," segir Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks. Kópavogsliðinu er spáð öðru sæti í Pepsi-deildinni.

„Markmiðið er algjörlega að vera að berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Við komum vel undan jólum en svo kom smá niðursveifla eftir Portúgalsferðina. Það er eitthvað sem maður átti alveg von á enda margir leikir á stuttum tíma og mikið um að vera. Nú snýst þetta um að fá menn ferska fyrir næstu viku."

Ólafur þurfti að smíða saman nýja varnarlínu eftir síðasta tímabil og er ánægður með hvernig það hefur tekist.

„Ég held að það hafi tekist bara ágætlega. Það eru ýmsir hlutir sem maður þarf að vinna í. Stefán (Gíslason) hefur komið vel inn og Elfar (Freyr Helgason) og Damir (Muminovic) hafa staðið sig vel. Í bakvarðastöðunum hafa menn komið ferskir inn. Þegar varnar-prinsippin eru í lagi og allir skila þau er þetta nokkuð gott."

Breiðablik á FH í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar og mætir svo KR í umferð tvö.

„Það eru frábærir leikir og verður bara skemmtilegt. Það er skemmtileg byrjun á mótinu að fá FH í heimsókn og svo KR nokkrum dögum seinna. Það gæti ekki verið betra."

Ólafur tekur við þjálfun Nordsjælland í upphafi júnímánaðar og Guðmundur Benediktsson tekur þá við þjálfun liðsins. Við spurðum Ólaf hvort það væri ekki furðuleg tilfinning að vita að hann sé bara að fara að taka þátt í mánuði af mótinu?

„Það er öðruvísi. Ég hef aldrei áður prófað þetta. En verkefnið er fyrsti leikur gegn FH og ég ætla að skila liðinu af mér eins vel og ég get. Ég er þvílíkt mótiveraður í það," segir Ólafur.
Athugasemdir
banner
banner