Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 28. ágúst 2022 18:04
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Birnir Snær hetjan í spennuleik á Akureyri
Birnir Snær Ingason gerði sigurmarkið undir lok leiks
Birnir Snær Ingason gerði sigurmarkið undir lok leiks
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nökkvi Þeyr Þórisson átti góðan leik hjá KA en það dugði ekki til í dag
Nökkvi Þeyr Þórisson átti góðan leik hjá KA en það dugði ekki til í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristijan Jajalo átti að gera betur í sigurmarki Víkinga
Kristijan Jajalo átti að gera betur í sigurmarki Víkinga
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
KA 2 - 3 Víkingur R.
0-1 Erlingur Agnarsson ('19 )
1-1 Sveinn Margeir Hauksson ('38 )
2-1 Nökkvi Þeyr Þórisson ('67 )
2-2 Júlíus Magnússon ('76 )
2-3 Birnir Snær Ingason ('90 )
Lestu um leikinn

Víkingur vann mikilvægan, 3-2, sigur á KA er liðin áttust við á Greifavelli í Bestu deild karla í dag. Sigurmarkið kom undir lok leiks.

Þessi lið eru í harðri baráttu um annað sæti deildarinnar eins og staðan er í dag. KA var fjórum stigum á undan Víkingum fyrir leikinn í dag og því mikið undir.

Helgi Guðjónsson fékk dauðafæri strax á 5. mínútu leiksins eftir að Ari Sigurpálsson sendi boltann í gegn. Helgi skaut yfir úr ákjósanlegu færi.

Víkingar náðu forystunni fjórtán mínútum síðar í gegnum Erling Agnarsson. Pablo Punyed fékk boltann vinstra megin og kom með glæsilega fyrirgjöf og þar var Erlingur mættur til að stanga boltann í netið.

Strax á eftir komust Víkingar í dauðafæri en Ari þrumaði boltanum í slá. Heimamenn keyrðu fram völlinn þar sem Nökkvi Þeyr Þórisson kom boltanum fyrir á Svein Margeir Hauksson sem skilaði boltanum í netið en markið dæmt af. Bakhrinding í aðdraganda marksins.

Sveinn Margeir kom boltanum aftur í netið á 38. mínútu og stóð markið í þetta sinn. Boltinn var á leið útaf og ætlaði Logi Tómasson að skýla boltanum, en Steinþór Freyr Þorsteinsson vann hann af harðfylgi áður en hann kom honum á Svein sem skaut í Kyle McLagan og framhjá Ingvari í markinu.

Birnir hetja Víkinga

Í upphafi síðari hálfleiks vildu KA-menn fá vítaspyrnu er Hallgrímur Mar Steingrímsson féll í teignum eftir viðskipti sín við Oliver Ekroth en dómarinn sá ekkert athugavert við það. Stuðningsmenn KA voru brjálaðir yfir dómgæslunni í þessu atvik og var Hallgrímur sömuleiðis ósáttur.

KA komst yfir á 67. mínútu er Nökkvi Þeyr, heitasti leikmaður deildarinnar, skoraði. Nökkvi vann boltann af Helga á miðjunni og keyrði í átt að teignum áður en hann lét vaða af 20 metra færi og söng boltinn í netinu.

Víkingar jöfnuðu níu mínútum síðar. Logi tók hornspyrnu sem var svona hárnákvæm á Júlíus Magnússon sem stangaði boltann í netið og staðan 2-2.

Nökkvi gat komið KA aftur í forystu tíu mínútum fyrir leikslok en skot hans hafnaði í stönginni. Það reyndist dýrkeypt fyrir KA því undir lok leiks sameinuðu varamennirnir krafta sína og gerðu sigurmark Víkinga.

Arnór Borg Guðjohnsen og Birnir Snær Ingason höfðu báðir komið inn á sem varamenn. Arnór lék inn á teig og fann Birni sem átti fremur laust skot sem lak undir Kristijan Jajalo og í netið. Það má setja stórt spurningamerki við Jajalo í markinu.

Þetta reyndist sigurmarkið og Víkinga fagna góðum sigri á KA í stórskemmtilegum leik. Víkingur áfram í 3. sæti með 35 stig en KA í öðru sæti með 36 stig. Þetta eru frábær úrslit fyrir Breiðablik sem getur nú aukið forystu sína á toppnum.
Athugasemdir
banner
banner