mið 28. september 2022 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Jon Obi Mikel leggur skóna á hilluna
Jon Obi Mikel er hættur
Jon Obi Mikel er hættur
Mynd: Getty Images
Nígeríski miðjumaðurinn Jon Obi Mikel hefur lagt skóna á hilluna, 35 ára að aldri.

Mikel hóf atvinnumannaferil sinn í Noregi og spilaði með Lyn frá 2004 til 2006.

Nígeríumaðurinn samdi við Manchester United árið 2005 í einum umdeildustu félagaskiptum allra tíma. Chelsea taldi sig hafa klófest hann eftir að hafa rætt við umboðsmenn leikmannsins og eftir löng málaferli komust allir aðilar að samkomulagi um að hann myndi ganga í raðir Chelsea.

Mikel átti frábæran feril hjá Lundúnarliðinu og spilaði 372 leiki og skoraði 6 mörk. Hann vann allt sem hægt er að vinna með liðinu, þar á meðal ensku úrvalsdeildina tvisvar og Meistaradeild Evrópu.

Árið 2017 yfirgaf hann Chelsea og fór til Kína en hann spilaði einnig fyrir Middlesbrough, Stoke City, Trabzonspor og nú síðast.Kuwait SC en hefur tekið ákvörðun um að leggja skóna á hilluna.

Mikel spilaði 91 landsleik fyrir Nígeríu og skoraði 8 mörk. Hann var fyrirliði liðsins er það vann Afríkumótið árið 2013 auk þess sem hann fór tvisvar á HM með Nígeríu.

„Ég er ekki að kveðja. Þetta er byrjunin á annarri vegferð, öðrum kafla í mínu lífi. Ég get ekki beðið eftir því hvað framtíðin ber í skauti sér og vona ég að þið komið með mér í þessa vegferð. Takk, " sagði Mikel í yfirlýsingu sinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner