Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   þri 15. nóvember 2022 07:30
Elvar Geir Magnússon
5 dagar í HM - HM í Suður-Kóreu og Japan 2002
Stjarna Ronaldo skein skært
Rivaldo og Ronaldo kyssa styttuna.
Rivaldo og Ronaldo kyssa styttuna.
Mynd: Getty Images
Oliver Kahn var valinn maður mótsins.
Oliver Kahn var valinn maður mótsins.
Mynd: Getty Images
Það þýðir ekki að deila við Heróín-dómara.
Það þýðir ekki að deila við Heróín-dómara.
Mynd: Getty Images
Ronaldinho í besta skapi.
Ronaldinho í besta skapi.
Mynd: Getty Images
Brasilía fagnar fyrra marki sínu í úrslitaleiknum.
Brasilía fagnar fyrra marki sínu í úrslitaleiknum.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður á sunnudag milli Katar og Ekvador.HM í Suður-Kóreu og Japan 2002
Upphaflega sóttu Suður-Kórea og Japan um í sitthvoru lagi en sameinuðu svo umsókn sína. Þetta var í fyrsta sinn sem HM var í Asíu og í fyrsta sinn sem tvær þjóðir héldu mótið saman. Sjö þjóðir sem höfðu áður unnið keppnina voru mættar til leiks. Hér á Íslandi gat fólk horft á leiki yfir morgunmatnum. Tíu leikvangar voru notaðir í keppninni, nær allir voru sérstaklega byggðir fyrir hana.

Heimsmeistararnir heim með skömm
Frakkar voru fullir sjálfstrausts fyrir mótið enda lið þeirra Heims- og Evrópumeistari. Í opnunarleiknum 2002 tapaði Frakkland fyrir Senegal 1-0. Tapið þótti sérstaklega vandræðalegt fyrir þær sakir að Senegal er gömul frönsk nýlenda.

„Opnunarleikurinn gegn Senegal var stórslys. Þessi leikur sannar að gæðin ein eru ekki nóg. Þú verður að leggja þig fram og vera með fæturna á jörðinni," segir Patrick Vieira, landsliðsmaður Frakka, sem fæddist í Senegal.

Frakkar skoruðu ekki mark á mótinu, enduð í neðsta sæti A-riðils án þess að skora mark. Það voru frændur okkar Danir sem unnu riðilinn og komust áfram sem Senegal.

Roy Keane rekinn heim
Markvörðurinn Santiago Canizares spilaði ekki með Spáni á mótinu þar sem hann meiddist þegar hann missti rakspíraflösku yfir fótinn á sér. Spánn vann þó alla leiki sína í riðlinum og mætti Írlandi í 16-liða úrslitum. Írar komust upp úr riðli sínum þrátt fyrir mikla ólgu í leikmannahópnum.

Rétt fyrir HM var fyrirliðinn Roy Keane sendur heim þar sem hann reifst við þjálfarann Mick McCarthy en írska þjóðin var klofin í afstöðu til málsins. Leikur Spánar og Írlands endaði með 1-1 jafntefli en Spánn komst áfram eftir vítaspyrnukeppni.

Heróín-dómari og leikmaður rekinn fyrir mark
Leikur Ítalíu og Suður Kóreu í 16-liða úrslitum er einn sá allra verst dæmdi í sögu stórmóts en grunsamlega mikið hallaði á Ítalíu í leiknum. Kóreumenn unnu leikinn 2-1 með gullmarki í framlengingu.

Umdeildustu atvikin voru vítaspyrna sem Kórea fékk snemma leik, gullmark Damiano Tommasi sem var dæmt af og seinna gula spjald Francesco Totti fyrir meintan leikaraskap. Þá var brotið í sífellu á leikmönnum Ítalíu án þess að dæmt var.

Dómari leiksins var Byron Moreno frá Ekvador sem átti eftir að lenda í fleiri umdeildum atvikum á ferlinum og var handtekinn 2010 fyrir að reyna að smygla heróíni til New York. Með því að smella hér má lesa pistil um dómarann.

Ahn Jung-Hwan skoraði gullmarkið sem skaut Suður-Kóreu áfram en á þessum tíma var hann samningsbundinn Perugia á Ítalíu. Eftir markið fékk hann símtal frá forseta Perugia sem sagði honum að samningnum hefði verið rift og hann ætti að finna sér annað lið í Evrópu.

Ronaldinho skoraði yfir Seaman
Brasilía vann alla leiki sína í riðlakeppninni, lagði Belga 2-0 í 8-liða úrslitum og Ronaldinho skoraði eftirminnilegt mark yfir David Seaman sem tryggði liðinu 2-1 sigur gegn Englandi í 8-liða úrslitunum. Í undanúrslitum vann Brasilía svo Tyrkland með marki sem Ronaldo skoraði.

Myndband: Mark Ronaldinho sem sendi England heim

Michael Ballack var allt í öllu hjá Þjóðverjum. Hann skoraði í 1-0 sigri gegn Bandaríkjunum í 8-liða úrslitum og í 1-0 sigri gegn Suður-Kóreu í undanúrslitum. Gult spjald í síðarnefnda leiknum gerði það að verkum að hann var í banni í úrslitaleiknum. Suður-Kórea gat borið höfuðið hátt, komst lengra en nokkru sinni áður og sló út Spánverja í 8-liða úrslitum.

Úrslitaleikur: Þýskaland 0 - 2 Brasilía
0-1 Ronaldo ('67)
0-2 Ronaldo ('79)

Ítalinn Pierluigi Collina, besti dómari sögunnar, dæmdi úrslitaleik Þýskalands og Brasilíu þar sem Brassarnir urðu heimsmeistarar í fimmta sinn. Stjarna keppninnar var sjálfur Ronaldo sem skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri Brasilíu.

Eftir markalausan fyrri hálfleik náði Ronaldo að finna leiðina í netið á 67. mínútu. Rivaldo átti skot sem Oliver Kahn náði ekki að halda, boltinn skaust til Ronaldo sem þakkaði fyrir sig og skoraði. Seinna markið kom tólf mínútum síðar. Eftir fyrirgjöf frá Klebersen steig Rivaldo yfir boltann og Ronaldo átti ekki í vandræðum með að setja knöttinn snyrtilega í netið.

Leikmaðurinn: Oliver Kahn
Þrátt fyrir að hafa átt að gera betur í fyrra marki Brasilíu í úrslitaleiknum var það markvörður Þýskalands, Oliver Kahn, sem fékk gullknöttinn sem besti leikmaður mótsins. Hann er fyrsti og enn sem komið er eini markvörðurinn sem hefur fengið þessi verðlaun. Þessi mikli nagli átti farsælan feril með Bayern München en hann er oft nefndur sem einn besti markvörður sögunnar.

Markahrókurinn: Ronaldo
Ronaldo varð heimsmeistari í annað sinn og tók gullskóinn fyrir að skora átta mörk í keppninni. Hann hafði verið valinn besti maður HM 2002. Ronaldo var hluti af hinu fræga R-tríói sem fór á kosti á mótinu en hinir leikmennirnir eru Ronaldinho og Rivaldo. Ronaldo skoraði gegn öllum mótherjum á mótinu nema Englandi. Hann jafnaði met Pele yfir flest mörk fyrir Brasilíu á HM, 12 talsins.

Leikvangurinn: Alþjóðaleikvangurinn í Yokohama
Einnig þekktur sem Nissan-völlurinn. Leikvangurinn opnaði 1998 og en fjórir leikir á HM fjórum árum síðar fóru fram í honum. Þá hefur úrslitaleikurinn á HM félagsliða farið þar fram í sex skipti. 69.000 áhorfendur fylltu leikvanginn í úrslitaleik Þýskalands og Brasilíu.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970
HM í Vestur-Þýskalandi 1974
HM í Argentínu 1978
HM á Spáni 1982
HM í Mexíkó 1986
HM á Ítalíu 1990
HM í Bandaríkjunum 1994
HM í Frakklandi 1998
HM í Suður-Kóreu og Japan 2002

Markaregn frá mótinu:

Athugasemdir
banner
banner
banner