„Ég er þreyttur. Þetta var erfitt enda mikið álag á báðum liðum. Það sást á mönnum í lokin," sagði Brynjar Hlöðversson, leikmaður Leiknis, eftir 2-1 tap gegn Breiðabliki í kvöld.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 1 - 2 Breiðablik
"Ég er löngu orðinn þreyttur á að segja þetta en við erum að skila ágætis tölfræði eins og ef þú ferð tölfræðina í þessum fyrstu leikjum saman við seinasta tímabil þá erum við betri í allri tölfræði. Samt erum við með færri stig. Það er kominn tími til að þetta fari að detta hjá okkur."
Eins og oftast var mikill hiti í kringum Brynjar á vellinum í dag og athygli vakti þegar Omar Sowe gaf honum vænt olnbogaskot í andlitið. Dómarar leiksins sáu ekki atvikið og fékk Omar því ekki refsingu.
„Hann var svolítið blóðheitur. Hann gaf mér olnbogaskot tvisvar. Það var sérstaklega vont í seinna skiptið. Auðvitað er ég að djöflast í mönnum og reyna að fá þá til að missa hausinn, sem hann gerði. Þá verður maður líka að treysta á dómarar sjái þetta. Maðurinn átti að fara út af."
Nú tekur við landsleikjafrí sem Brynjar segir að Leiknismenn verði að nýta vel. „Við þurfum að nýta fríið vel. Sjálfur ætla ég að kíkja til Færeyja og heilsa upp á gamla vini. Svo mætum við í næsta leik til að vinna."
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir