
„Svekktur. Ég skammast mín bara fyrir hönd liðsins. Ég bið bara Fjölnisfólki afsökunar á þessum leik. Þetta er til skammar og þetta er bara aumingjaskapur hjá okkur. Algjör aumingjaskapur og ekkert annað. Það er bara til skammar að tapa þessum leik.“ sagði Úlfur Arnar, þjálfari Fjölnis, eftir fyrsta tap liðsins á heimavelli gegn Selfossi 4-2.
Lestu um leikinn: Fjölnir 2 - 4 Selfoss
Dekkningin var ekki góð í föstu leikatriðunum hjá ykkar mönum í dag. Fannst þér ekki þínir menn verjast fyrstu tveimur mörkunum illa?
„Ef við myndum verjast föstum leikatriðum eins og menn held ég að við værum efstir í deildinni. Við getum ekki varist föstum leikatriðum. Þetta er ekkert leyndarmál, fólk getur séð þetta á vídeóum. 70% af mörkunum sem við fáum á okkur eru úr föstum leikatriðum. Þetta er gjörsamlega óásættanlegt.“
Fannst þér 4-2 vera sanngjörn úrslit?
„Ég veit það ekki. Hann (dómarinn) gefur þeim víti, hann fer beint í boltann það sjá það allir. Það kóronaði frammistöðuna hans í dag. Hún skipti samt engu máli. Ég held að við hefðum getað spilað í 105 mínútur og ekki getað náð að skora. Ég er ekkert viss um að þeir hefðu átt skilið að vinna frekar en við. Við fáum miklu fleiri færi og góðar stöður til þess að skora. Við erum að taka rangar ákvarðanir og flækja hlutina svakalega. Síðan erum við ekki að vinna grunnatriðin nægilega vel sem er til dæmis að verjast föstum leikatriðum. Það er bara að drepa okkur leik eftir leik eftir leik. Þessi lið í neðri hluta deildarinnar eru að hirða af okkur stig hægri vinstri með föstum leikatriðum.“
Var ekki sérstaklega svekkjandi að tapa í dag í ljósi þess að Afturelding tapaði og Skaginn vann í gær sem ætti að gefa ykkur von í toppbaráttunni?
„Við erum ekki að hugsa um neina toppbaráttu. Ekki með svona frammistöðu. Við erum að tapa á heimavelli gegn Selfossi með fullri virðingu fyrir þeim. Við töpum stigum fyrir nýliðum hægri vinstri. Við getum ekki talað um neina toppbaráttu. Við skulum bara vona það besta að við náum inn í þetta umspil. Það er bara verkefnið núna, að tryggja okkur þar inn. Það er ekki einu sinni öruggt, menn skulu átta sig á því.“
Það er langt síðan þið náðuð að tengja saman tvo sigra er það ekki orðið áhyggjuefni?
„Það er mjög svekkjandi að við náum því ekki. Maður sá tækifæri í undanförnum leikjum til þess að ná 4-5 sigrum í röð. Gríðarleg vonbrigði að horfa yfir seinustu leiki og leikinn í dag. Bara mjög mikil vonbrigði.“
Hvernig lýst þér á framhaldið, þið eigið Þór næst fyrir Norðan, hvernig lýst þér á hann?
„Ekki vel ef þetta heldur svona áfram. Við þurfum bara að gjöra svo vel og girða okkur í brók og gera þetta eins og menn. Það er bara þannig.“