Haaland verður með riftunarákvæði - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Antony til Newcastle?
banner
   mán 29. júlí 2024 16:38
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Stjörnumenn mjög ósáttir með mark ÍA - Jökull segir tvennt í stöðunni
Hinrik Harðarson spilaði stórt hlutverk í marki ÍA.
Hinrik Harðarson spilaði stórt hlutverk í marki ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni Snær uppskar spjald fyrir mótmæli sín í gær.
Árni Snær uppskar spjald fyrir mótmæli sín í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull sást ræða við dómarana í hálfleik í leiknum í gær.
Jökull sást ræða við dómarana í hálfleik í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjörnumenn voru sýnilega mjög ósáttir með að mark ÍA hefði fengið að standa þegar liðin mættust í gær. ÍA skoraði undir lok fyrri hálfleiks með marki sem kom eftir aukaspyrnu. Johannes Vall tók spyrnuna og á fjærstönginni var Viktor Jónsson mættur og skoraði af stuttu færi.

Árni Snær Ólafsson í marki Stjörnunnar, og fleiri leikmenn, létu í sér heyra en markið fékk að standa. Stjörnumenn vilja meina að Hinrik Harðarson hafi verið rangstæður og hafi haft áhrif á því hvernig Stjörnuliðið varðist þessu fasta leikatriði. Eins og sést í spilaranum hér neðst þá færir Hinrik sig frá boltanum þegar hann nálgast hann og leyfir honum með því að halda áfram ferð sinni í átt að fjærsvæðinu áfram.

Lestu um leikinn: ÍA 1 -  3 Stjarnan

„Hinrik er rangstæður. Aðstoðardómarinn er sammála og segir að hann sé rangstæður, hann sé of langt frá markinu til að hafa áhrif. Þetta er viljandi gert hjá þeim og þeir gerðu þetta oftar í leiknum og þetta hefur auðvitað áhrif. Við erum alveg til í að nýta okkur þetta ef þetta má, þá kvörtum við ekki neitt," sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar við Vísi eftir leikinn.

Alveg galið
Hann ræddi þetta nánar í samtali við Fótbolta.net í dag. Jökull segir að Hinrik hafi áhrif á Árna Snæ í markinu með því að standa þar sem hann stóð.

„ÍA gerir þetta alltaf og við vorum alveg undir það búnir að Hinrik yrði fyrir innan línuna. Í síðasta leik, á móti FH, þá skorar hann eftir skalla frá Hlyni, var þá búinn að vera fyrir innan. En það er allt öðruvísi. Þarna er boltanum neglt með jörðinni og Hinrik stekkur frá á síðustu stundu. Árni þarf að vera undir það búinn að Hinrik flikki boltanum í nærhornið, en þegar Hinrik hoppar frá þá er Árni í ómögulegri stöðu og á ekki séns á að vera mættur á fjærstöngina. Hann er í skotlínunni á markið og hefur áhrif á það hvað gerist með boltann í kjölfarið. ÍA er öflugt í þessu, eru stundum með 3-4 fyrir innan sem blokka menn út, sem er náttúrulega kolólöglegt."

„Skilaboðin frá dómurunum er að þetta megi, sem er alveg galið. Núna er tvennt í stöðunni: Annað hvort segja þeir að aðstoðardómarinn hafi haft rangt fyrir sér og þetta megi ekki, eða þá að við förum af fullum krafti í að æfa akkúrat svona atriði og reynum að nýta okkur þau. Ég sagði í viðtali eftir leik að við munum æfa þetta og munum nýta okkur þetta. Svörin eru á þá leið að þarna sé hann of langt frá markinu til þess að hafa áhrif á markmanninn. Sem mér finnst mjög skrítið því maðurinn hefur áhrif á markmanninn. Við reiknum með því að þetta fái að standa þegar við förum að æfa þetta."


Næsti leikur Stjörnunnar er í forkeppni Sambandsdeildarinnar og segist Jökull meðvitaður um að svona mark fengi ekki að standa í Evrópuleik. Það er því spurning hvenær hann fer með sitt lið í að æfa þessa uppsetningu á föstu leikatriði.

ÍA leiddi með einu marki í leikhléi en Stjarnan kom til baka og skoraði þrjú mörk í seinni hálfleiknum.

Jökull: Stjörnumenn sem horfðu á geta verið stoltir
Athugasemdir
banner
banner
banner