Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mán 29. júlí 2024 15:48
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þórarinn Ingi orðaður í burtu frá Stjörnunni - Jökull hrósar honum í hástert
Þórarinn Ingi er 34 ára. Hann kom til Stjörnunnar frá FH vorið 2018.
Þórarinn Ingi er 34 ára. Hann kom til Stjörnunnar frá FH vorið 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann hefur að mestu spilað sem vinstri bakvörður að undanförnu og rennur samningur hans við Stjörnuna út eftir næsta tímabil.
Hann hefur að mestu spilað sem vinstri bakvörður að undanförnu og rennur samningur hans við Stjörnuna út eftir næsta tímabil.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Þórarinn Ingi Valdimarsson var fyrr í þessum mánuði sagður, í frétt á 433, vera að skoða stöðuna og íhuga að fara annað. Í útvarpsþættinum Fótbolti.net um liðna helgi kom fram að hann hefði verið nálægt því að fara til Njarðvíkur fyrir lok félagaskiptagluggans í vor og Selfoss væri spennt fyrir því að fá hann í sínar raðir í dag.

Þórarinn var í byrjunarliðinu gegn ÍA í gær og lék sem miðvörður í fjarveru þeirra Daníels Laxdals og Guðmundar Kristjánssonar.

Lestu um leikinn: ÍA 1 -  3 Stjarnan

Fótbolti.net ræddi við þjálfara Stjörnunnar í dag og var hann spurður út í Þórarin.

„Það er frábært að fá svona öfluga frammistöðu frá honum. Um síðustu helgi spilaði hann hálfleik á móti Fylki og spilaði frábærlega. Það kom rosalegur kraftur með honum," segir Jökull.

„Auðvitað er hann búinn að vera ósáttur með sinn spiltíma, og bara eðlilega verandi keppnismaður, en hann á mikið hrós skilið fyrir sína skapgerð í þeim aðstæðum. Ég ætla ekki að segja að hann hafi sætt sig við stöðuna, en hann hefur samt tekið henni þannig að hann hefur verið tilbúinn að koma inn með alvöru 'aggression' og það sem liðið þarf þegar hann hefur komið inn. Það var geggjað að horfa á hann í hafsentinum. Hann lenti einu sinni í því að vera horfa á boltann og gleymdi manninum sínum þegar Hinrik fékk skallafærið í 2-1, en að öðru leyti stóð hann sig frábærlega."

Eru einhverjar líkur á því að Þórarinn fari í glugganum?

„Það er ekkert óhugsandi. Ég held það fari mest eftir honum sjálfum, hvað það er sem hann vill gera og hvernig hann sér þetta. Við ákváðum að setja fullan fókus á leikina sem eru fram yfir þetta Evrópueinvígi og svo meta stöðuna. Honum líður vel hérna, hann er stór hluti af þessum hóp og er búinn að vera hérna lengi. Hvað verður á bara eftir að koma í ljós. Hann er þannig karakter og leikmaður sem við viljum ekki missa. En stundum þurfa menn meira en kannski er hægt að veita þeim og það verður þá bara samtal sem við munum eiga," segir Jökull.

Nánar var rætt við þjálfarann um leikinn í gær og útskýrði hann betur hvernig liðið nálgaðist leikinn verandi einungis tvo eiginlega varnarmenn í byrjunarliðinu. Sá hluti viðtalsins verður birtur seinna í dag.
Útvarpsþátturinn - Gluggaslúður, Evrópa og þeir bestu í 2. deild
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner