Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 29. september 2021 23:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Yfirgaf FCK en var ekki tilbúinn - Fann sig loksins hjá Leikni
Máni er ánægður með spilamennskuna en hefði viljað skora fleiri mörk í sumar.
Máni er ánægður með spilamennskuna en hefði viljað skora fleiri mörk í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Samningur Mána er að renna út.
Samningur Mána er að renna út.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Smá svipur með bræðrunum. Hér er Dagur með boltann.
Smá svipur með bræðrunum. Hér er Dagur með boltann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bræðurnir könnuðust við Sigga áður en þeir fóru í Leikni
Bræðurnir könnuðust við Sigga áður en þeir fóru í Leikni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Máni Austmann Hilmarsson tók ekki þátt í síðustu tveimur leikjum Leiknis í Pepsi Max-deildinni þar sem hann lenti í bílslysi á dögunum.

Sjá einnig:
„Ég var stopp og svo er dúndrað hraustlega aftan á bílinn"

„Sjúkraþjálfari er búinn að skoða þetta, Hlynur [aðstoðarþjálfari Leiknis] og hann sagði mér að ég ætti að taka öllu rólega í svona tvo mánuði, sjá hvort að ég sé geti farið að æfa aftur þá eða ekki. Það er bara að vona það besta," sagði Máni við Fótbolta.net í síðustu viku.

Samningslaus og ekki búinn að taka neina ákvörðun
Nánar var rætt við Mána en hann er að renna út á samningi hjá Leikni og möguleiki á því að hann spili fyrir annað félag á næsta tímabili.

„Nei, ég er ekki búinn að taka neina ákvörðun um framhaldið," sagði Máni sem var á þeim tímapunkti ekki búinn að heyra í Leikni varðandi mögulega framlengingu á samningi.

Máni er uppalinn hjá Stjörnunni og hefur einnig leikið með ÍR og HK á Íslandi. Á árunum 2013-2017 var hann á mála hjá FC Kaupmannahöfn og þá hefur hann leikið í háskólaboltanum í Bandaríkjunum.

Er eitthvað sem þig langar helst að gera? „Það verður bara að koma í ljós. Ég ætlaði að klára tímabilið en svo lendi ég í þessum meiðslum. Ég verð að bíða og sjá."

Vildi fá traust og leist vel á Sigga Höskulds
Það vekur athygli að tvíburarnir, þeir Máni og Dagur, spila báðir með Leikni. Þeir gengu báðir í raðir félagsins fyrir tímabilið í fyrra. Hvernig kom það til?

„Við þekktum báðir til Sigga Höskulds eftir tímann hjá Stjörnunni. Mér leist mjög vel á Sigga sem þjálfara og það hefur gengið mjög vel. Þegar ég valdi Leikni var ég í þeirri stöðu að vera samningslaus hjá HK og var í námi í Bandaríkjunum. Mig langaði að komast í lið þar sem ég fengi að spila á sumrin og fengi traust. Planið var svo að fara aftur til Bandaríkjanna en þá kom covid."

Var ekki tilbúinn en fann sig loksins hjá Leikni
Förum aðeins til baka til unglingsáranna. Hvernig var hjá FC Kaupmannahöfn?

„Við Dagur förum báðir til FCK og ég er þarna í fjögur ár minnir mig. Ég fékk samning og stend mig vel. Ég ákvað að flytja heim þegar ég er nítján ára af því mig langaði að fara í fullorðinsbolta sem svo gekk eins og það gekk."

„Ég hélt það myndi ganga betur, þessi ákvörðun að fara í fullorðinsbolta. Síðan þá hef ég þurft að finna mig og loksins gerði ég það hjá Leikni."


Voruð þið Dagur samstíga í ykkar skrefum hjá FCK?

„Hann fór í annað lið í Kaupmannahöfn sem heitir AB þegar við erum sextán eða sautján ára. Þannig það eru um það bil tvö ár sem við erum ekki hjá sama félaginu."

Varstu ánægður með tímann hjá FCK?

„Ég er mjög sáttur með það sem ég gerði hjá FCK. Ég stóð mig mjög vel en vildi koma heim og spila í fullorðinsbolta. Þá átti ég eitt ár eftir af samningi. Í staðinn fyrir að bíða og vera þolinmóður ákvað ég að kýla á þetta og fara í meistaraflokksbolta. Ég var greinilega ekki eins tilbúinn og ég hélt ég var."

Máni spilaði sjö leiki með Stjörnunni í deild og bikar árið 2017 en fór svo á láni til ÍR fyrri hluta tímabilsins 2018 áður en hann gekk í raðir HK.

Spilaði vel en skoraði ekki nóg
Leiknir náði markmiði sínu í sumar að halda sér uppi í deildinni. Hvernig fannst þér þetta tímabil persónulega?

„Persónulega fannst mér ég spila vel, það eina kannski sem er hægt að setja út á er að ég skoraði bara eitt mark. Það er ekkert sérstakt fyrir sóknarmann, maður er oftast metinn út frá mörkum og stoðsendingum. Ég þarf að skora meira en spilalega fannst mér þetta gott."

„Þetta var smá bras hjá okkur að skora eftir að Sævar Atli fór út. Veturinn hjá Leikni fer væntanlega í það að búa til eitthvað nýtt fram á við."


Verður að spyrja Dag
Þú spilaðir oftast á vinstri kantinum, líður þér best þar?

„Mér líður best á kantinum eða framarlega á miðjunni. Þar sem Siggi setur mig, þar spila ég."

Síðasta spurning, hvor er betri, þú eða Dagur? „Þú verður að spyrja hann," sagði Máni og hló.
Athugasemdir
banner
banner
banner