Orri Sigurður Ómarsson lék sinn fyrsta leik í byrjunarliði Vals í dágóðan tíma í gær þegar liðið sigraði Breiðablik í Bestu deildinni. Orri sleit krossband fyrir síðasta tímabil og hefur verið að koma hægt og rólega til baka í undanförnum leikjum.
Þetta var fimmti leikurinn hans í sumar en hann lék allan leikinn í 4-2 sigri.
Hólmar Örn Eyjólfsson fyrirliði Vals þekkir það að lenda í krossbandaslitum en hann tjáði sig um Orra Sigurð í viðtali við Vísi eftir leikinn.
„Veistu það, ég hef farið í gegnum krossbandameiðsli sjálfur og mér fannst hann algjörlega frábær í dag. Mér fannst hann öruggur í öllum sínum aðgerðum hvort sem það var varnarlega eða sóknarlega og hann var bara virkilega flottur í dag og getur verið mjög stoltur af fyrsta byrjunarliðsleiknum sínum til baka,“ sagði Hólmar Örn að lokum.
Orri Sigurður er 28 ára gamall varnarmaður. Hann er uppalinn hjá HK en hann gekk til liðs við Val árið 2015.