Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mán 29. nóvember 2021 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Kvennabolti almennt hefur verið alltof mörg ár í bakgrunni"
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla Viggósdóttir, leikmaður kvennalandsliðsins, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag. Hún var spurð út í stormasamt ár hjá KSÍ og á sama tíma velgengni kvennalandsliðsins.

Sjá einnig:
Ekki sátt með UEFA - „Vanvirðing við kvennaboltann og alveg galið"

Loksins að fá athygli fyrir gott gengi
Nú líður að lokum þessa árs, þetta hefur verið stormasamt ár hjá KSÍ og íslenska karlalandsliðinu. Á meðan eruð þið að standa ykkur vel og má segja að þið séuð ákveðið flaggskip. Finnið þið í kvennalandsiðinu fyrir aukinni pressu? Hvernig hefur verið að fylgjast með því sem hefur verið í gangi?

„Við erum ekkert alltof mikið að velta okkur upp úr þessu af því þetta kemur okkur svo sem ekkert við og tengist okkur alveg ótrúlega lítið. Við finnum ekki fyrir neinni aukinni pressu," sagði Glódís.

„Við höfum verið að standa okkur vel í mörg ár og gaman að það sé ennþá meiri athygli að við séum, loksins, að standa okkur vel. Við reynum eins og í öllu öðru að einbeita okkur að því sem við erum að gera. Við fylgjum okkar gildum sem eru að standa okkur vel innan og utan vallar, það skiptir okkur miklu máli."

Lyftir kvennaboltanum upp á hærra stig
Þú segir loksins að standa ykkur vel. Finnst þér þið ekki hafa fengið þá athygli sem þið hafið átt skilið undanfarin ár?

„Já, bara kvennabolti almennt hefur verið alltof mörg ár í bakgrunni og er loksins að koma smá svona bylgja inn sem er að lyfta kvennaboltanum upp á hærra stig, bæði í fjölmiðlum og í samfélaginu öllu. Það er ógeðslega gaman að fá að upplifa það en á sama tíma er neikvæð umfjöllun um KSÍ og karlalandsliðið, við viljum það alls ekki. Það er gaman að fá að vera partur af þessu „hype-i" sem verður vonandi í kringum EM," sagði Glódís.

Kvennalandsliðið fer næsta sumar á sitt fjórða Evrópumót í röð og hefur farið vel af stað í undankeppni HM.
Athugasemdir
banner
banner