Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   þri 30. mars 2021 15:01
Elvar Geir Magnússon
Sævar Atli í Breiðablik eftir tímabilið (Staðfest)
Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis.
Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Sævar gengur í raðir Blika eftir tímabilið.
Sævar gengur í raðir Blika eftir tímabilið.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Leiknir og Breiðablik hafa komist að samkomulagi um félagaskipti Sævars Atla Magnússonar frá Leikni til Breiðabliks. Félagaskiptin munu ganga í gegn eftir að keppnistímabilinu 2021 lýkur og mun Sævar því leika með Leikni út tímabilið.

Þetta hafa bæði félögin tilkynnt á heimasíðum sínum.

Sævar Atli er fyrirliði Leiknis og var í lykilhlutverki í fyrra þegar Leiknir tryggði sér sæti í Pepsi Max-deildinni. Hann hefur þegar leikið 129 leiki fyrir Leikni og skorað í þeim 61 mark.

„Áhuginn á Sævari Atla var mikill og eru Blikar afar ánægður með það að hann hafi valið Breiðablik. Blikar þakkar Leikni fyrir góð samskipti vegna fyrirhugaðra félagaskipta. Við óskum Sævari Atla og Leiknismönnum góðs gengis í Pepsi Max deildinni í sumar," segir blikar.is.

Skrítnar vikur sem reyndu á andlega
Í viðtali við heimasíðu Leiknis segir Sævar að góð tilfinning sé að búið sé að ganga frá málum.

„Hún er góð. Þetta kom óvænt upp, fljótt upp. Svo fór boltinn að rúlla og mörg lið höfðu áhuga. Gaman að því, ég lít á það sem hrós. En já það er gott að þetta sé búinn og ég er mjög spenntur fyrir komandi tíma og tímabilinu framundan líka," segir Sævar.

Var þetta erfið ákvörðun?

„Já og nei. Ég skoðaði alla möguleika sem komu upp. Ég tók góða fundi og skoðaði bara allt. Að lokum leist mér best á Breiðablik, hvernig fótbolta þeir spila og hvernig blandan er í klefanum af ungum og eldri leikmönnum. Ég er mjög sáttur við þessa ákvörðun."

Hann viðurkennir að undanfarnar vikur og allt umtalið um hans mál hafi tekið á.

„Já heldur betur. Maður hafði kannski lúmskt gaman að þessari athygli í tvo daga en svo var þetta bara orðið þreytt. Þetta voru skrítnar vikur og reyndu á andlega en þetta styrkir mig bara. Góð reynsla."

Eins og áður segir þá mun Sævar spila með Leikni í sumar en síðan ganga í raðir Breiðabliks.

„Nú er þetta búið. Nú er bara fókusinn á að bæta minn leik og spila með Leikni í sumar, uppeldisfélaginu mínu. Annað tímabil í efstu deild og þetta verður ógeðslega spennandi og krefjandi verkefni. Ég hef mikla trú á því að við gerum vel í sumar." segir Sævar.

„Það er mjög mikil spenna, við höfum æft vel í vetur. Við höfum spilað ágætlega á undirbúningstímabilinu og nú eru komnir nýir leikmenn inn í þetta. Menn eru að koma úr meiðslum, mikil samkeppni og ég held að þetta verði geðveikt sumar."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner