Willum Þór Willumsson, leikmaður BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi, er mættur aftur í íslenska A-landsliðshópinn eftir rúmlega eins árs fjarveru en hann ræddi aðeins við Fótbolta.net í undirbúningi fyrir leikina í Þjóðadeildinni í Danmörku í dag.
Willum, sem er 23 ára, á einn A-landsleik að baki en það var í markalausu jafntefli gegn Eistlandi í janúar fyrir þremur árum.
Hann var lykilmaður í U21 árs landsliðinu og var því ekki mikið í hóp með A-landsliðinu en var kallaður inn í hópinn bæði í nóvember 2020 og líka í marsverkefninu á síðasta ári.
Nú er hann mættur aftur en hann gat ekki æft í dag vegna meiðsla í hásin. Hann vonast til að geta æft á morgun eða síðar í vikunni.
„Ég er búinn að vera eitthvað tæpur í hásininni og ég finn neðst til í henni, þannig ég og teymið töldum best að ég myndi hvíla í dag."
„Ég vona það. Ég sé hvernig ég verð á morgun og kannski næ ég að æfa á morgun, ef ekki þá kannski bara seinna í vikunni," sagði Willum við Fótbolta.net.
Willum segir það ánægjulegt að vera kominn aftur í hópinn en liðið á fjóra leiki í júní. Tveir leikir gegn Ísrael, einn leikur við Albaníu og svo vináttuleikur við San Marínó.
„Það er mjög gaman að vera kominn aftur og ég var náttúrlega síðast alltaf í U21 árs verkefnunum og svo var ég búinn að vera mikið meiddur þannig það er mjög gaman að vera kominn aftur," sagði Willum ennfremur.
Athugasemdir