Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
   fim 30. maí 2024 15:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Stuðningsmenn Utrecht héldu Willum og félögum föstum í klefanum
,,Gerði þetta eiginlega bara skemmtilegra"
Fagnað eftir leik. 'Menn voru í sjokki yfir þessu, risastórt fyrir klúbbinn. Geggjuð tilfinning'
Fagnað eftir leik. 'Menn voru í sjokki yfir þessu, risastórt fyrir klúbbinn. Geggjuð tilfinning'
Mynd: Go Ahead Eagles
Góð stemning inni í klefa.
Góð stemning inni í klefa.
Mynd: Go Ahead Eagles
'Inn með ykkur, inn með ykkur'
'Inn með ykkur, inn með ykkur'
Mynd: Go Ahead Eagles
Willum gat ekki spilað vegna meiðsla.
Willum gat ekki spilað vegna meiðsla.
Mynd: EPA
'Maður gat lifað sig alveg inn í þetta, en alltaf leiðinlegt að geta ekki spilað'
'Maður gat lifað sig alveg inn í þetta, en alltaf leiðinlegt að geta ekki spilað'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég var ekki með neina ræðu, meira að tala við einn og einn'
'Ég var ekki með neina ræðu, meira að tala við einn og einn'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta er ekkert nýtt, en þetta fór kannski aðeins of langt'
'Þetta er ekkert nýtt, en þetta fór kannski aðeins of langt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Markmiðið fyrir tímabilið var að komast í umspilið, en að vinna það var langsótt'
'Markmiðið fyrir tímabilið var að komast í umspilið, en að vinna það var langsótt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Go Ahead Eagles tryggði sér á sunnudag sæti í Sambandsdeildinni á næsta tímabili þegar liðið lagði Utrecht í úrslitaleik. Willum Þór Willumsson er lykilmaður í liði Go Ahead en gat ekki leikið með vegna meiðsla.

Liðin sem enda í 6.- 9. sæti í hollensku úrvalsdeildinni spila um eitt laust sæti í Sambandsdeildinni. Go Ahead endaði í 9. sæti.

Hjálpaði að leikurinn var stöðvaður
Það var mikill hiti í leiknum innan vallar, en enn meiri utan vallar. Willum og liðsfélagar hans fengu að finna fyrir því að stuðningsmenn eru ansi blóðheitir og var langt frá því skemmt með úrslit leiksins.

„Þetta var bara geðveikt að klára þetta, líka bara hvernig leikurinn var, þetta var rosalegt. Menn voru í sjokki yfir þessu, risastórt fyrir klúbbinn. Geggjuð tilfinning," sagði Willum.

„Markmiðið fyrir tímabilið var að komast í umspilið, en að vinna það var langsótt."

„Í fyrri hálfleik spiluðum við ágætlega en Utrecht var betra liðið og fékk öll færin, við vorum heppnir að vera bara 1-0 undir. Í seinni hálfleik snýst þetta bara við, þeir fara að bíða og við erum mun betri. Þeir fá rautt spjald þegar skammt er eftir. Eftir það liggjum við á þeim og skorum smá grísamark, sjálfsmark á lokamínútunum."

„Rétt áður en við skoruðum var leikurinn stöðvaður, það voru einhver slagsmál í stúkunni, blysum kastað. Við fórum inn í klefa. Þá voru 90 mínútur á klukkunni. Við vissum að það voru fimm mínútur eftir og fengum þarna smá tíma inni í klefa til að fara yfir hlutina. Við förum út og skorum strax í kjölfarið, 1-1. Leikurinn var framlengdur, vorum þar einum fleiri og þeir voru bara að reyna halda út, reyna komast í vító. Við náðum að setja mark í lokin, geðveik tilfinning. Það hlupu allir inn á, ég hljóp líka inn á."


Þurfti að bruna inn í klefa
Eftir leik voru gestirnir í Go Ahead Eagles fastir inni í klefa í um tvö klukkutíma þar sem mikil læti voru fyrir utan völlinn.

„Það var mikill hiti í leiknum sjálfum og eftir leik hlupum við allir inn á, fórum út í horn þar sem okkar stuðningsmenn voru. Við vorum að fagna með heim, svo heyrðum við allt í einu öskrað: „Inn með ykkur, inn með ykkur". Þá snéri ég mér við og sá ultras (harðkjarnastuðningsmenn) hjá Utrecht, sem voru hinu megin á vellinum en voru allir mættir inn á völlinn og voru að koma hlaupandi yfir til okkar. Þá var bara brunað inn í klefa. Við vorum inni í klefa og fögnuðum þar."

Ógeðslega gaman
Voruð þið eitthvað að ögra þeim?

„Hörðustu stuðningsmennirnir í Hollandi eru yfir höfuð mjög bilaðir. Það voru búin að vera slagsmál á milli stuðningsmannanna, leikurinn var þá stoppaður og eftir það myndaðist hiti. Við vorum 3-4 utan hóps í leiknum og sátum hliðina á varamannabekknum. Okkur var hent inn í varamannaskýlið eftir að við jöfnuðum í 1-1. Þá var byrjað að kasta hlutum í okkur. Það var búin að myndast spenna allan leikinn og svo sauð bara upp úr þegar við skoruðum sigurmarkið í lokin."

„Við fengum einhver bjórglös í okkur þarna þar sem við sátum og fengum einhverjar hótanir. Þá var okkur bara sagt að fara inn í varamannaskýli. Þetta var bara ógeðslega gaman."


Fór kannski aðeins of langt
Það heyrðist á Willum að hann var nokkuð rólegur yfir þessu. Var þetta alveg viðbúið?

„Við vissum að það yrði hiti. Fyrir leik var búið að segja við okkur sem voru utan hóps að við mættum ekki vera í stúkunni út af öryggisástæðum. Það var kannski ekki búist við alveg svona, en svona hiti kemur alveg fyrir í Hollandi. Það er oft verið að stoppa leiki eða slagsmál fyrir eða eftir leik. Þetta er ekkert nýtt, en þetta fór kannski aðeins of langt."

Þegar þið fóruð inn í klefa í lok venjulegs leiktíma, varst þú eitthvað að segja mönnum til?

„Ég labbaði kannski hringinn og sagði einhver orð, ég var ekki með neina ræðu, meira að tala við einn og einn."

Gerði þetta eiginlega bara skemmtilegra
Willum segir að hann og samherjar hans hafi þurft að vera í klefanum í rúmar tvær klukkustundir þar sem læti voru fyrir utan leikvanginn.

„Við sátum fastir á vellinum inni í klefa í meira en tvo tíma. Ultras hjá Utrecht voru að slást við lögregluna og að bíða eftir okkur. Okkur var sagt að við fengjum ekkert að fara út, en á endanum fengum við að fara."

Voruð þið alveg rólegir, voruði alveg öruggir inni í klefa?

„Við vorum bara að fagna, gerði þetta eiginlega bara skemmtilegra. Allt í allt bara skemmtileg upplifun."

Gaman að vera með á bekknum
En hvernig var að geta ekki spilað leikinn? Mikið stress?

„Það var leiðinlegt að geta ekki spilað, en það var gaman að vera á bekknum, ekki uppi í stúku. Maður gat lifað sig alveg inn í þetta, en alltaf leiðinlegt að geta ekki spilað," sagði Willum.
Athugasemdir
banner
banner