Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 30. október 2020 20:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Binni Skúla: Reglugerð KSÍ stendur alveg sama hvað öllum finnst
Lengjudeildin
Mynd: Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er grautfúlt, fyrir okkur allavega. Örugglega margir glaðir með þetta og að mörgu leyti er þetta kannski gott fyrir marga en maður er grautfúll að falla þegar það eru tveir leikir ókláraðir," sagði Brynjar Skúlason, þjálfari Leiknis Fáskrúðsfirði, spurður út í sína tilfinningar eftir að Íslandsmótið var blásið af í dag.

KSÍ sendi tilkynningu frá sér rétt fyrir klukkan sex í kvöld og með henni var ljóst að Leiknir F. endar í neðsta sæti í Lengjudeildinni árið 2020. Binni var spurður hvort honum fyndist sanngjarnt ef Leiknir yrði í 2. deild á komandi tímabili.

„Nei, mér finnst það ekki. Mér finnst við vera með betra lið en Magni og Þróttur Reykjavík en taflan segir annað. Við erum á þessum stað af einhverri ástæðu og erum þar aðallega af því við skitum upp á bak á móti Leikni Reykjavík."

Gerir Binni ráð fyrir því að Leiknir F. verði í 2. deild eða býst hann við að reynt verði að fjölga í Lengjudeildinni?

„Ég hef ekki neinar forsendur til að svara því. KSÍ er búið að gera einhverja reglugerð og hún stendur bara alveg sama hvað öllum finnst. Ég veit það ekki. Ég væri til í að fá annan séns í þessari deild en menn verða líka að eiga það skilið."

Finnst Binna að KSÍ hefði átt að reyna vera meira sveigjanlegt varðandi dagsetninguna? Knattspyrnusambandið hafði ákveðið að mótinu yrði að vera lokið þann 1. desember.

„Nei ég held að þetta sé orðið gott bara. Auðvitað er ég svekktur vegna stöðu míns liðs þá skil ég fullkomlega að þessi ákvörðun sé tekin og hefði jafnvel mátt vera tekin fyrr. Mörg lið sem eru búin að vera með erlenda leikmenn eins og við. Þetta er dýrt fyrir félögin og svo er fílingurinn í mannskapnum þannig að þetta sé bara komið gott."

Ekki-vítið gegn Keflavík svíður
Í lokaspurningunni var Binna stillt upp við vegg. Var eitthvað eitt atriði í sumar sem hann er svekktari með en annað þegar kemur að því að ná í þetta eina stig sem Leiknir hefði þurft til að halda sér uppi?

„Ég get bent á alveg fullt af hlutum. Eins og vítið sem ég hefði viljað fá á móti Keflavík. Við töpum 2-1 á útivelli. Dómarinn sagði að Keflvíkingurinn hefði ekki fengið boltann viljandi í höndina, eins og enginn væntanlega gerir nema markvörður. Það er fullt af augnablikum sem mér fannst ekki falla með okkur og höfðu á endanum áhrif myndi ég segja," sagði Binni að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner