Portúgalski blaðamaður Filip Baleira telur að Ruben Amorim sé að taka mikla áhættu með því að taka við Manchester United. Þetta sagði hann í viðtali við Sky Sports í gær.
Man Utd lét Erik ten Hag taka poka sinn á dögunum og er þegar búið að finna arftaka hans.
Amorim, sem hefur gert Sporting tvisvar að deildarmeistara, er efstur á blaði og hefur Sporting þegar sent frá sér yfirlýsingu að United ætli að virkja riftunarákvæði í samningi hans.
United er að ganga frá smáatriðum í samningnum en félagið vonast til að tilkynna hann á næstu dögum. Baleira, sem starfar sem blaðamaður hjá Record, telur þetta mikla áhættu fyrir landa sinn.
„Ég held klárlega að hann sé að taka mikla áhættu, alveg eins og þegar hann kom til Sporting, því akkúrat núna er hann með tvo deildartitla með Sporting.
„Hann hefur gert vel í Evrópukeppnum og hefði fengið tækifærið til að mæta Manchester City á þriðjudag. Það var líka áhætta fyrir hann að taka við Sporting, en áhættan þess virði þar sem hann vann titla.“
„Ég held að hann vilji vera eins og Jose Mourinho, sem er átrúnaðargoðið hans. Hann vill vinna titla með Manchester United,“ sagði Baleira.
Athugasemdir