Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 17. nóvember 2022 09:05
Elvar Geir Magnússon
3 dagar í HM - HM í Suður-Afríku 2010
Spánn vann HM í fyrsta sinn
Spánverjar í sigurvímu.
Spánverjar í sigurvímu.
Mynd: Getty Images
Leikmenn Hollands heimta rangstöðu.
Leikmenn Hollands heimta rangstöðu.
Mynd: Getty Images
Iker Casillas, fyrirliði Spánar, með styttuna.
Iker Casillas, fyrirliði Spánar, með styttuna.
Mynd: Getty Images
Diego Forlan var valinn maður mótsins.
Diego Forlan var valinn maður mótsins.
Mynd: Getty Images
Thomas Müller hlaut gullskóinn.
Thomas Müller hlaut gullskóinn.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður á sunnudag milli Katar og Ekvador.



HM í Suður-Afríku 2010
FIFA ákvað að nítjánda Heimsmeistarakeppnin yrði haldin í Afríku en aldrei hafði HM farið fram í álfunni. Egyptaland, Marokkó og Suður-Afríka sóttu um en síðastnefnda þjóðin bar sigur úr býtum. Hópur verkamanna sem unnu að byggingu leikvanga fyrir mótið fór í verkfall vegna lágra launa en þrátt fyrir það voru allar framkvæmdir klárar í tæka tíð.

Ítalía á botninum
Ítalska landsliðið reið ekki feitum hesti frá þátttöku sinni á mótinu. Aldurinn var farinn að segja til sín hjá ríkjandi Heimsmeisturum sem ekki komust upp úr riðli sínum sem fyrirfram var talinn auðveldur. Ítalska liðið gerði jafntefli í leikjum gegn Nýja-Sjálandi og Paragvæ og laut svo í lægra haldi fyrir ungu og spræku liði Slóvakíu. Tvö stig og neðsta sætið niðurstaðan.

Evrópumeistararnir í Spáni töpuðu óvænt fyrir Sviss í fyrsta leik sínum á mótinu. Spænska liðið reif sig upp úr því, vann Hondúras og Síle og komst áfram. Þrír 1-0 sigrar fleyttu liðinu alla leið í úrslitin. Portúgal, Paragvæ og Þýskaland voru fórnarlömbin á leiðinni í úrslitaleikinn.

Maradona lofaði að hlaupa nakinn
Umræðan um marklínutækni náði miklum hæðum eftir leik Englands og Þýskalands í 16-liða úrslitum. England hefði átt að jafna í 2-2 þegar skot Frank Lampard fór í slánna og inn. Dómararnir tóku ekki eftir því og markið stóð ekki. Pirraðir Englendingar lögðu árar í bát og Þýskaland vann á endanum 4-1 sigur.

Sjáðu markið hjá Lampard sem átti að standa

Diego Maradona var mættur á HM sem þjálfari argentínska landsliðsins. Fyrir mótið lofaði hann því að hlaupa nakinn um götur Buenos Aires ef liðið myndi standa uppi sem sigurvegari. Argentína vann riðil sinn sannfærandi og lagði Mexíkó í 16-liða úrslitum. Eftir það var talað um liðið sem það sigurstranglegasta í keppninni. Þjóðverjar slógu Argentínumenn niður á jörðina með 4-0 sigri í 8-liða úrslitum þar sem Miroslav Klose skoraði tvö mörk.

Suarez fékk rautt spjald en varð hetja
Úrúgvæ var eina þjóðin frá Suður-Ameríku sem komst í undanúrslit þar sem Brasilía tapaði fyrir Hollandi í 8-liða úrslitum. Úrúgvæ vann Gana í eftirminnilegum leik þar sem Luis Suarez reyndist hetjan á óvenjulegan hátt.

Staðan var 1-1 og framlengingu að ljúka þegar knötturinn stefndi í mark Úrúgvæ. Suarez brást við með því að verja með hendi á marklinu. Hann fékk rautt spjald og Asamoah Gyan, leikmaður Ganverja, klúðraði vítaspyrnunni. Leikurinn fór því í vítaspyrnukeppni þar sem Úrúgvæ stóð uppi sem sigurvegari.

Smelltu hér til að sjá Suarez fá rautt og verða hetja Úrúgvæ

Óþolandi lúður
Hollendingar unnu alla leiki sína í riðlakeppninni og í útsláttarkeppninni lögðu þeir Slóvaka, Brasilíumenn og Úrúgvæja alla með eins marks mun. Wesley Sneijder var gulls ígildi. Hann skoraði sigurmark gegn Slóvakíu, bæði mörkin í 2-1 sigri gegn Brasilíu og eitt í 3-2 sigri gegn Úrúgvæ. Holland komst í úrslitaleikinn í þriðja sinn og átti möguleika á sínum fyrsta Heimsmeistaratitli.

Áður en það kemur að umfjöllun um úrslitaleikinn verður að minnast á eftirminnilegasta hlut keppninnar. Það er vuvuzela-lúðurinn sem var ofnotaður meðal áhorfenda. Lúðurinn hefur orðið að einkennismerki fótbolta í Suður-Afríku en hann gefur frá sér hljóð sem flestum finnst óþolandi. Ljóður á keppninni að margra mati.

Úrslitaleikur: Holland 0 - 1 Spánn
0-1 Andrés Iniesta ('116)

Það var hart barist í úrslitaleiknum og Englendingurinn Howard Webb sem hélt um flautuna hafði í nógu að snúast. Holland komst nálægt því að komast yfir á 60. mínútu þegar Arjen Robben slapp einn í gegn á móti Iker Casillas sem varði stórkostlega. Þeir appelsínugulu gátu reyndar talist stálheppnir að ljúka fyrri hálfleik með fullskipað lið því Nigel de Jong braut gróflega á Xabi Alonso á 29. mínútu. Webb dómari viðurkenndi eftir að hafa séð atvikið í sjónvarpi að hann hefði átt að lyfta rauða spjaldinu.

Í framlengingu þegar staðan var markalaus missti Holland svo mann af velli. John Heitinga fékk sitt annað gula spjald á 109. mínútu. Sjö mínútum síðar skoraði Spánn markið sem réði úrslitum en það gerði Börsungurinn Iniesta eftir sendingu Cesc Fabregas.

Þegar leikurinn var flautaður af báru tilfinningarnar fyrirliðann og markvörðinn Casillas ofurliði. Hann brast í grát og margir Spánverjar deildu sömu tilfinningum. Spánn vann HM í fyrsta sinn.

Leikmaðurinn: Diego Forlan
Úrúgvæski sóknarmaðurinn Diego Forlan var valinn besti leikmaður mótsins. Hann skoraði fimm mörk fyrir Úrúgvæ sem komst í undanúrslit og endaði í fjórða sæti eftir tap gegn Þýskalandi í bronsleiknum. Þessi hárprúði leikmaður var aðhlátursefni margra þegar hann lék fyrir Manchester United 2001-2004 en þaðan fór hann til Villarreal þar sem hann raðaði inn mörkum. Honum gekk einnig frábærlega hjá Atletico Madrid þar sem hann var samningsbundinn þegar HM í Suður-Afríku fór fram. Í dag leikur Forlan fyrir Internacional í Argentínu.

Markahrókurinn: Thomas Müller
Müller, Wesley Sneijder, David Villa og Diego Forlan skoruðu allir fimm mörk hver en Müller hirti gullskóinn því hann átti flestar stoðsendingar eða þrjár. Müller er fæddur 1989 og er uppalinn hjá Bayern München þar sem hann hefur leikið allan sinn feril. Með Bæjurum hefur hann unnið allt sem hægt er að vinna í evrópskum fótbolta. Sóknarmiðjumaður sem gerir hlutina einfalt og það skilar árangri.

Leikvangurinn: Soccer City
Jóhannesarborg er fjölmennasta borg Suður-Afríku. Þar fór úrslitaleikurinn 2010 fram fyrir framan 84.500 manns. Soccer City leikvangurinn var opnaður 1989 en endurnýjaður fyrir HM 2010. Um er að ræða heimavöll Kaizer Chiefs F.C. og landsliðs Suður-Afríku. Meðal hljómsveita sem troðið hafa upp á leikvangnum eru U2, Coldplay og Metallica.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970
HM í Vestur-Þýskalandi 1974
HM í Argentínu 1978
HM á Spáni 1982
HM í Mexíkó 1986
HM á Ítalíu 1990
HM í Bandaríkjunum 1994
HM í Frakklandi 1998
HM í Suður-Kóreu og Japan 2002
HM í Þýskalandi 2006
HM í Suður-Afríku 2014

Markaregn frá mótinu:

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner