Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 31. júlí 2024 17:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Tjáir sig um gagnrýni í garð Emils - „Ákváðum að fara öfuga leið"
Átti frábært tímabil í fyrra.
Átti frábært tímabil í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Blómstrar í Evrópu.
Blómstrar í Evrópu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er mjög auðvelt að setja hann á meðal bestu leikmanna deildarinnar."

Emil Atlason varð markakóngur Bestu deildarinnar í fyrra og jafnvel þó að hann hafi ekki skorað gegn ÍA hafði hann mikil áhrif á leikinn eftir að hann kom inn á. Hann átti þátt í marki Örvars Eggertssonar sem kom Stjörnunni yfir í leiknum og lagði svo upp fyrir Jón Hrafn Barkarson sem innsiglaði 1-3 endurkomusigur Stjörnunnar á Skaganum.

Þetta var í annað skiptið í röð sem Emil byrjar á bekknum í deildinni en hann kom einnig með framlag, þá mark, í sigrinum gegn Fylki fyrir rúmri viku síðan.

Stjarnan er í forkeppni Sambandsdeildarinnar og þar hefur Emil skorað fimm af sex mörkum liðsins í leikjunum þremur til þessa. Emil er sem stendur þriðji markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar með átta mörk skoruð, fimm mörkum minna en Viktor Jónsson sem er markahæstur.

Emil var talsvert gagnrýndur í byrjun móts fyrir að skora ekki og einnig efuðust einhverjir um að hann væri í nægilega góðu standi. Fótbolti.net ræddi við Jökull Elísabetarson, þjálfara Stjörnunnar, og var hann spurður út í framherjann sinn.

Er hann besti leikmaðurinn í deildinni?

„Ég hef mjög mikið álit á okkar leikmönnum og á mjög auðvelt með að setja hann á meðal bestu manna. Hann fékk að mínu mati ósanngjarna gagnrýni í byrjun móts. Menn voru ekki að horfa í hvað hann var að gefa liðinu framan af móti. Pressan í byrjun móts á að hann væri bara að skora mörkin var svo mikil að við ákváðum að fara öfuga leið. Við drógum hann neðar á völlinn og hann var meira að hjálpa öðrum að finna pláss sem mér fannst ganga mjög vel. Leikmenn eins og Helgi Fróði (Ingason) og Róbert Frosti (Þorkelsson) litu mjög vel út vegna þess að andstæðingurinn hafði svo miklar áhyggjur af Emil. Emil var kannski ekki mikið í miðjum atganginum og þ.a.l. fékk hann lítið kredit."

„Hann er búinn að hjálpa liðinu rosalega mikið þó svo að mönnum finnist hann eiga vera búinn að skora miklu fleiri mörk. Það er mjög auðvelt að setja hann á meðal bestu leikmanna deildarinnar, ég held að það sé alveg ljóst,"
segir Jökull.

Emil og aðrir leikmenn Stjörnunnar undirbúa sig núna fyrir seinni leikinn gegn Paide í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Sá leikur fer fram í Eistlandi á morgun og leiðir Stjarnan með einu marki eftir fyrri leikinn. Leikurinn hefst klukkan 16:30 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolti.net.
Athugasemdir
banner