Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 21. febrúar 2011 09:00
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Vinsamlegast fallið, Wigan
Atli Ísleifsson skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Mynd: Getty Images
Það er oftast tómlegt á DW leikvanginum.
Það er oftast tómlegt á DW leikvanginum.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Getty Images
Vel innan við átta þúsund manns lögðu leið sína á DW-völlinn í síðustu viku til að fylgjast með bikarleik Wigan og Bolton. Tilfinningar mínar í garð þessa Wigan-klúbbs eiga sér tvær hliðar. Annars vegar er það viss virðing fyrir þeirri ótrúlegu uppbyggingu sem hefur átt sér stað síðustu árin. Hins vegar er það sú tilfinning – sem vegur þyngra – að ég myndi ekkert sakna klúbbsins ef hann myndi falla um deild í vor. Með fullri virðingu vona ég að svo verði.

Wigan virðist vera klúbbur sem gegnir einungis því hlutverki að fylla sæti tuttugasta liðsins í úrvalsdeildinni. Öllum virðist vera skítsama um liðið og eru leikir liðsins jafnan teknir fyrir síðastir allra í Match of the Day, Sunnudagsmessunni eða hvaða nafni slíkir þættir kunna að nefnast. Mæting stuðningsmanna liðsins á völlinn líkist líka frekar sæmilega góðri mætingu á landsleik á Laugardalsvellinum en leik milli tveggja liða í bestu deild í heimi. Stemningin er líka mjög sambærileg – og samt er engin hlaupabraut á DW-vellinum! Ég hugsa að flestum væri sama þó Wigan félli, en líkt og með Icesave þarf enn að díla við þá.

Tími Wigan í úrvalsdeildinni hefur, eins og með svo margt annað, verið líkt við rússíbanareið. Fyrstu mánuðina voru þeir í toppbaráttu undir stjórn Paul Jewell og gældi liðið við Evrópusæti og jafnvel væntumþykju almennra knattspyrnuunnenda. Komust þeir einnig í úrslit deildarbikarsins þar sem þeir mættu ofjörlum sínum frá Manchester. Þegar leið á tímabilið tók botninn úr og hrapaði liðið niður töfluna en þunnur leikmannahópurinn tókst að bjarga liðinu frá falli. Tími Steve Bruce með liðið var skammur en fínn. Þó var ætíð ljóst að helstu stjörnum liðsins – þeim Antonio Valencia og Amr Zaki – var ætlað stærra hlutverk annars staðar. Ekki í þessum 80 þúsund manna nágrannabæ Manchesterborgar þar sem rubgy hefur lengst af verið vinsælasta sportið. Enda varð sú raunin. Valencia hélt til Manchester United og örlög idíótsins Zaki urðu að fá morðhótanir frá heittrúuðum Ísraelum og fleirum.

Wigan undir stjórn Martinez er eins og Dr Jekyll og Hyde þar sem liðið vinnur Chelsea 3-1 á DW og Tottenham 1-0 á White Hart Lane. Nokkrum mánuðum áður hafði liðið tapað 8-0 og 9-1 fyrir þessum sömu liðum. Svo var það náttúrulega 3-2 sigurinn á Arsenal undir lok síðasta tímabils þar sem Wigan skoraði mörkin sín þrjú á síðustu tíu mínútum leiksins.

Ólíkar tilfinningar togast á meðal hlutlausra í garð þessa sérstaka liðs. Annars vegar getur liðið verið dæmi um dökkar hliðar nútímafótboltans. Þeir eru eitt allra skýrasta dæmi um að peningarnir einir geta skilað árangri. Hægt er að benda á Chelsea og Man City og segja að þeir hafi hagnast mikið á gríðarlegri innspýtingu fjármagns. Það er alveg rétt en þeir klúbbar hafa þó ekki orðið fyrir álíka byltingu og á við í tilfelli Wigan. Liðið samanstendur að mjög stórum hluta af útlendingum og ekki er fyrir að finna einhverjar lókal hetjur – uppvaxnir leikmenn sem stuðningsmenn tengjast sérstökum böndum. Eldri stuðningsmenn geta heldur ekki minnst gamalla bikarævintýra yfir köldum þegar þeir rifja upp gullaldarárin. Þetta eru gullaldarár Wigan. Menn mega ekki gleyma því.

Umbreytingin frá því að vera jójólið í norðurdeildarkeppninni í að verða úrvalsdeildarlið hefur tekið innan við tíu ár. Það verður að teljast ótrúlegt. Allt byrjaði þetta á því að Dave Whelan átti sér draum. Sjálfsagt er gott að sjá lókal mann sem þekkir boltann og fer með klúbbinn sinn af botninum og upp í “hæstu” hæðir. Þannig vilja menn hafa það og þannig hafa Wigan-menn gert það. Klúbburinn hefur gefið óþekktum leikmönnum í neðrideildum og frá Mið- og Suður-Ameríku færi á að spila og sanna sig í ensku úrvalsdeildinni. Það er ekki beinlínis sveipað einhverjum dýrðarljóma að spila á móti Stoke fyrir hálftómum velli eða sérlega gaman á að horfa, en þeir hafa reynt að spila sóknarbolta. Við fögnum og berum virðingu fyrir því.

Sem sagt: Þetta er lið í eigu lókal viðskiptajöfurs. Stjórinn er fyrrum leikmaður liðsins. Þeir gefa ungum og óþekktum leikmönnum tækifæri. Miðaverðið er eitthvert það lægsta á Bretlandseyjum og úrslit leikja liðsins geta oft á tíðum verið kómísk. Markmiðið sérhvers tímabils er svo að berjast fyrir 17. sætinu.

Framan af voru erkifjendur Wigan nágrannarnir í Chorley F.C. Þessi lið eru hins vegar á sitthvorum staðnum þessa stundina og mætast aldrei í “alvöru” leikjum. Því hefur reynt að koma á einhverju “rívalítet” meðal annars milli Wigan og Bolton. 7.500 manns mættu í síðustu viku til að sjá hinn mikla “grannaslag”. Nei takk. Má ég þá heldur biðja um Leeds, Forest eða Wednesday til að skipa þetta tuttugasta sæti úrvalsdeildarinnar. Wigan getur alveg haldið þróuninni og uppbyggingunni áfram. Það fer hins vegar betur á því að það gerist í B-deildinni.

Heimildir: Wikipedia, Who ate all the pies?

Smelltu hér til að taka þátt í umræða um greinina á Sammarinn.com
banner
banner