Færist nær því að yfirgefa Man Utd - Barca ætlar að kaupa Rashford - Newcastle hefur áhuga á Ederson
   þri 04. nóvember 2025 11:20
Kári Snorrason
Stuðningsmenn Vals um Hemma - „Einhver annar sem hefur unnið þann elsta og virtasta?“
Mikil jákvæðni er í garð Hermanns Hreiðarssonar frá stuðningsmönnum Vals.
Mikil jákvæðni er í garð Hermanns Hreiðarssonar frá stuðningsmönnum Vals.
Mynd: Valur
Mikið hefur gengið á á Hlíðarenda síðustu misseri.
Mikið hefur gengið á á Hlíðarenda síðustu misseri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Sveinn er fyrrum leikmaður Vals.
Arnar Sveinn er fyrrum leikmaður Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur endaði í 2. sæti í Bestu-deildinni í sumar.
Valur endaði í 2. sæti í Bestu-deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Sveinn Geirsson og Jóhann Skúli Jónsson.
Arnar Sveinn Geirsson og Jóhann Skúli Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jóhann Alfreð, skemmtikraftur, lögfræðingur og síðast en ekki síst Valsari.
Jóhann Alfreð, skemmtikraftur, lögfræðingur og síðast en ekki síst Valsari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikil umræða hefur verið síðustu daga um breytta stefnu Vals og markmiðið sett á að yngja liðið.
Mikil umræða hefur verið síðustu daga um breytta stefnu Vals og markmiðið sett á að yngja liðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Viðar er spenntur fyrir Hermanni á Hlíðarenda.
Atli Viðar er spenntur fyrir Hermanni á Hlíðarenda.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Chris Brazell er nýr aðstoðarþjálfari Vals.
Chris Brazell er nýr aðstoðarþjálfari Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölskyldan ánægð á Hlíðarenda.
Fjölskyldan ánægð á Hlíðarenda.
Mynd: Valur

Valur tilkynnti Hermann Hreiðarsson sem nýjan þjálfara liðsins í fyrradag en liðið sagði Srdjan Tufegdzic upp störfum eftir að tímabilinu lauk. Hermann kemur til Vals frá HK en hann hafði fyrir það stýrt ÍBV, Þrótti Vogum, karla- og kvennaliði Fylkis og verið aðstoðarþjálfari hjá Southend og Kerala Blasters á þjálfaraferli sínum.

Við hjá Fótbolti.net ræddum við þrjá stuðningsmenn Vals og einn sérfræðing og lögðum fyrir þá eftirfarandi fjórar spurningar:

1. Ertu ánægður með ráðninguna?

2. Hverju vilt þú sjá hann breyta hjá Val?

3. Er það áhyggjuefni að hann hafi litla sem enga reynslu í að þjálfa topplið?

4. Hefurðu trú á að Hermann komi með titla á Hlíðarenda?


Arnar Sveinn Geirsson

Ertu ánægður með ráðninguna?

Ég held við séum að fá algjöran topp mann inn í félagið sem kemur með mikið presence og góða orku sem er eitthvað sem klúbburinn þarf klárlega á að halda. Nú þarf að leyfa honum, ásamt teyminu í kringum hann, að koma með sínar áherslur inn í hópinn og styðja hann í því. Ég skal alveg viðurkenna að ég var hikandi fyrst þegar ég heyrði orðrómana - en þetta hefur vaxið á mig, alveg klárlega og í dag er ég spenntur fyrir þessu.

Hverju vilt þú sjá hann breyta hjá Val?

Túfa og Haukur gerðu margt gott fyrir Val og ég held að það þurfi bara að byggja ofan á þá góðu vinnu. Það er ekkert grín að vera þjálfari hjá Val - það er mikil pressa úr öllum áttum. Hemmi þarf að ná að síta út hávaðann og gera þetta eins og hann og teymið vilja gera þetta, í takti við áttina sem Valur vill fara í. Auðvitað vill maður alltaf sjá fleiri unga leikmenn, uppalda leikmenn, og svo framvegis - en það þarf að gera þetta allt skynsamlega. Við erum með frábæran hóp sem þarf bara að ná að stilla örlítið betur saman - svipað og Tufa og Haukur náðu á tímabili í sumar. Þetta snýst mun meira um andlega þáttinn heldur en gæði í fótbolta af því þau eru svo sannarlega til staðar.

Er það áhyggjuefni að hann hafi litla sem enga reynslu í að þjálfa topplið?

Bæði og. Einhvern tímann þarftu að taka við fyrsta toppliðinu og Hemmi á þannig feril sem leikmaður og er bara þannig karakter að ég held að svona verkefni efli hann frekar en nokkuð annað. Að sama skapi er það auðvitað alltaf kostur að hafa reynslu af því - en í þessu tilfelli held ég að það skipti ekki allt of miklu máli.

Hefurðu trú á að hann komi með titla á Hlíðarenda?

Alveg klárlega. Ég hef alltaf trú á þjálfurum Vals, þangað til ég hef hana ekki. Það byrja allir í blússandi plús hjá mér og Hemmi er þar engin undantekning. Ef hann nær að koma með þessa miklu orku sína inn í félagið allt, koma hinum almenna stuðningsmanni á sitt band og hrista leikmannahópinn saman þannig menn séu að gera þetta frá hjartanu og fyrir hvern annan að þá eru frábær ár framundan hjá Val.

Jóhann Skúli Jónsson

Ertu ánægður með ráðninguna?

Já, ég er mjög ánægður.

Hverju vilt þú sjá hann breyta hjá Val?

Ég vona að hann komi með stemningu, gleði og baráttu. Það vantar ekki mikið meira þarna. Svo væri gaman að sjá fleiri unga leikmenn fá mínútur heldur en í fyrra. Það voru mörg tækifæri í leikjum til að gefa efnilegum leikmönnum félagsins a.m.k. korter til tuttugu mínútur í sumar sem mér fannst vannýtt. 

Er það áhyggjuefni að hann hafi litla sem enga reynslu í að þjálfa topplið?

Er einhver annar þjálfari í deildinni sem hefur unnið þann elsta og virtasta?

Hefurðu trú á að hann komi með titla á Hlíðarenda?

Já, ekki spurning.

Jóhann Alfreð Kristinsson

Ertu ánægður með ráðninguna?

Já, ég er það. Ég held að hann komi með ákveðinn kraft, eins og hann er þekktur fyrir og tekst vonandi kveikja í nýrri orku og stemmningu hjá okkur á Hlíðarenda. Maður mun auðvitað sjá á eftir Túfa sem gerði margt vel fyrir okkur og ekki síður Hauki Pál, enda einstaklega vel liðnir báðir tveir meðal stuðningsmanna. Eftir að ljóst varð að spilin yrðu stokkuð upp á nýtt heyrðust nokkur nöfn og mér fannst Hemmi strax áhugaverður, ekki endilega svo augljós kostur en klárlega einhver sem getur komið með eitthvað nýtt og ferskt að borðinu. Ég er líka spenntur fyrir Chris Brazell sem verður honum til aðstoðar, það fer af honum gott orð niður á Hlíðarenda og saman geta þeir vonandi myndað mjög öflugt teymi. 

Hverju vilt þú sjá hann breyta hjá Val?

Það verða eflaust einhverjar breytingar á leikmannahópnum en kannski engar yfirhalningar enda hópurinn í grunninn sterkur. Það er talað um að það eigi að yngja upp, við þurfum inn smá aukaorku, við misstum mikið með brotthvarfi Tómasar Bent sem kom með mikla vél inn á miðsvæðið. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því sem gerist í vetur. Annars fannst mér Hemmi eiginlega svara því best þegar hann lofaði að það yrði ekki þægilegt að spila gegn Val undir hans stjórn. Við áttum marga fantagóða leiki í sumar, sérstaklega framan af, en það hefur vantað meira bit og upp á stöðugleikann. Ef hann stendur við þetta þá er engin ástæða til annars en að vera spenntur. 

Er áhyggjuefni að hann hafi litla sem enga reynslu í að þjálfa topplið?

Valur hefur undanfarin ár helst horft í þjálfara sem hafa verið með toppliðin eða menn sem hafa áður sótt titla í félagsliðaþjálfun og að því leitinu til er þetta vissulega öðruvísi ráðning. En Hemmi er gríðarlega stór prófíll með mikla reynslu á bakinu og með margt með sér. Okkar leikjahæsti leikmaður í PL frá upphafi og maður sem hefur lyft FA-bikar. Og leikið undir stjórn manna eins og Alan Curbishley og Harry Redknapp sem er í guðatölu hjá mér. Þetta eru klassískir breskir managerar og maður sér Hemma koma inn í svolítið sama hlutverk á Hlíðarenda. Svona reynsla er ekki auðsótt á Íslandi. Það er pressa að þjálfa Val en hann er nógu stór í það hlutverk og ég held að allir sem fylgist með íslenska boltanum séu spenntir að sjá hann fá tækifæri með topplið á Íslandi. 

Hefurðu trú á að hann komi með titla á Hlíðarenda?

Ég held að það þurfi ekki mikið til. Við vorum líklegir á köflum í sumar og maður fann neistann kvikna undir mitt mót og maður fann stemmninguna koma upp. Tapið í bikarúrslitunum var súrt, því það er komið mikið hungur í stuðningsmenn Vals eftir titli. Það eru viss forréttindi að styðja félagið því við erum alltaf nálægt þessu, en kröfurnar eru líka miklar. Ég efast ekki um að við blöndum okkur í baráttu um alla titla á næstunni.

Atli Viðar Björnsson 

Hvernig líst þér á Hermann sem nýjan þjálfara Vals?

Mér líst bara ljómandi vel á hann sem þjálfara Vals, alveg eins og mér hefur litist vel á flest alla ef ekki alla þjálfara sem þeir hafa kynnt undanfarin ár. 

Ég er sérstaklega spenntur fyrir því að sjá hvernig honum muni ganga í félagi sem gerir augljóslega miklar kröfur og væntingastuðullinn er hár, í því sem undanfarin ár hefur virkað á mig sem krefjandi umhverfi.

Hverju myndir þú vilja sjá hann breyta?

Undanfarna daga hefur verið í umræðunni að breyta um stefnu og/eða kúltur í félaginu og ég held að það sé það sem ég væri lang spenntastur fyrir fyrir hönd stuðningsmanna Vals.

Er áhyggjuefni fyrir Valsara að hann hafi litla sem enga reynslu í að þjálfa topplið?

Nei, það held ég ekki. Hann er sterkur persónuleiki með reynslu sem leikmaður og þjálfari þannig að ég hef ekki áhyggjur af því. Undanfarin tvö tímabil hafa þjálfarar Íslandsmeistaranna í Bestu deild karla verið á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfarar með sín lið þannig að þeir sýndu að það er alveg hægt að vinna titla þó þú sért óreyndur sem aðalþjálfari

Hefurðu trú á að hann komi með titla á Hlíðarenda?

Mér finnst eins og meistaraflokkur karla í fótbolta í Val sé á leið inn í einhverskonar endurmörkun og ef ef hún gengur vel þá sé ég ekki af hverju þeir ættu ekki að geta haldið áfram að keppa um þá titla sem í boði eru.


Athugasemdir
banner
banner