mið 23. febrúar 2011 16:30
Þorsteinn Gunnarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þegar kappið ber fegurðina ofurliði
Þorsteinn Gunnarsson
Þorsteinn Gunnarsson
Nigel de Jong í leik með Manchester City.
Nigel de Jong í leik með Manchester City.
Mynd: Getty Images
De Jong var heppinn að fá ekki rauða spjaldið í úrslitaleik HM.
De Jong var heppinn að fá ekki rauða spjaldið í úrslitaleik HM.
Mynd: Getty Images
Hatem Ben Arfa tvífótbrotnaði eftir tæklingu frá De Jong.
Hatem Ben Arfa tvífótbrotnaði eftir tæklingu frá De Jong.
Mynd: Getty Images
Karl Henry fékk rauða spjaldið fyrir ljótt brot á Jordi Gomez fyrr á tímabilinu.
Karl Henry fékk rauða spjaldið fyrir ljótt brot á Jordi Gomez fyrr á tímabilinu.
Mynd: Getty Images
Eduardo fótbrotnaði gegn Birmingham árið 2008.
Eduardo fótbrotnaði gegn Birmingham árið 2008.
Mynd: Getty Images
Ingvi Rafn fótbrotnaði mjög illa árið 2005 og hefur lítið spilað fótbolta síðan þá.
Ingvi Rafn fótbrotnaði mjög illa árið 2005 og hefur lítið spilað fótbolta síðan þá.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leggjabrjóturinn Nigel de Jong hjá Manchester City er svarti sauðurinn í hollenskum fótbolta. Fegurð hefur einkennt hollenskan fótbolta í gegnum tíðina en Jong lætur kappið sífellt bera fegurðina ofurliði og tæklar ofurfast. Þessi hollenska sláttuvél hefur nú á rúmu hálfu ári fótbrotið tvo andstæðinga með glórulausum tæklingum og átti jafnframt ljótustu tæklinguna á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku í sumar. Hollenska landsliðsþjálfaranum Bert van Marwijk var nóg boðið í haust og henti Jong út úr landsliðinu fyrir tvo mikilvæga leiki gegn Moldavíu og Svíþjóð í undankeppni EM. Í öðrum menningarsamfélögum fótboltans þar sem kappið er æðra fegurðinni þætti þessi ákvörðun óskiljanleg. Dytti einhverjum í hug að Ólafur Jóhannesson tæki Brynjar Björn Gunnarsson út úr landsliðshópnum fyrir gera það eitt sem hann fær borgað fyrir; að strauja andstæðingana? Hefði Nobby Stiles verið tekinn út úr enska landsliðinu í sínum tíma? Graeme Souness var ekki rekinn úr skoska landsliðinu fyrir fólskulega brotið á Sigurði Jónssyni um árið. Nú hefur Marwijk reyndar tekið Jong aftur í sátt og valið hann í landsliðið á ný eftir smá kælingu.

Það skiptir Nigel de Jong engu máli hvort fótboltaleikir eru rétt að byrja og menn að hitna eða hvort þeim sé að ljúka og allt undir. Eftir aðeins fjögurra mínútna leik fótbraut hann franska framherjann Hatem Ben Arfa, leikmann Newcastle eins og mörgum er enn í fersku minni. Ben Arfa tvíbrotnaði og heimsbyggðin fylgdist með þar sem hann engist af kvöldum á sjúkrabörunum með súrefnisgrímu yfir andlitinu. Sérstaka athygli vakti að Jong fékk ekki einu sinni að líta gula spjaldið fyrir tæklinguna. Líklega hafði dómarinn ekki hitað nægilega vel upp fyrir leikinn.

Þann 3. mars sl. mættust Holland og Bandaríkin í vináttulandsleik í Amsterdam. Nigel de Jong var í hátíðarskapi og tæklaði Stuart Holden svo hressilega að hann braut bein í kappanum. Í úrslitaleik HM í sumar vann Nigel de Jong sér helst til frægðar að tækla Xabi Alonso í brjóstkassann með karatasparki sem sjálfur Jackie Chan hefði orðið stoltur af.

Í samanburði við léttleikandi kollega sína í hollenska landsliðinu eru Nigel de Jong og Marc Van Bommel eins og listdansmeyjar á tréklossum. Johan Cruijff, snillingurinn sjálfur, var ekki par hrifinn eftir HM í sumar af framgöngu landa sinna og skrifaði m.a. í pistli í spænska blaðið El Periodico:

,,Þeir hefðu fljótlega átt að vera níu inni á vellinum, við sáum strax tvær tæklingar sem voru svo grófar að meira að segja mér varð illt. Þessi fúli, grófi, harði, óaðlaðandi og ekki-fótboltalegi stíll... jú, hann hjálpaði Hollandi að trufla Spán. Ef þeir voru ánægðir þá mega þeir vera það, en þeir töpuðu leiknum. Þetta var anti-fótbolti,“ sagði sjálfur skemmtikraftur allra skemmtikrafta.

Alinn upp í gettóinu
Nigel de Jong skrifaði undir atvinnumannasamning við hollenska stórliðið Ajax 18 ára. Hann lét eiga sig að kaup sér sportbíl heldur hélt áfram að nota almenningssamgöngur til þess að komast á æfingar. Til hvers átti ég að kaupa mér Ferrari þegar ég hafði ekki afrekað nokkurn skapaðan hlut, sagði Nigel de Jong í viðtali við hollenskt blað á sínum tíma.

Nigel de Jong ólst upp við þröngan kost. Móðir hans var ein með þrjú börn þar sem hún bjó í fátækari hluta Amsterdam, Guezenveld. Móðir hans var mikið veik og því þurfti Jong að sjá um sig sjálfur. Hann lék fótbolta á götum úti með vinunum, meira að segja eftir að hafa slegið í gegn með Ajax.

„Ég er göturotta," sagði Jong sem fékk í heimanmund þau orð frá móður sinni að aldrei að gleyma uppruna sínum.

Faðir hans var reyndar atvinnumaður á sínum tíma sem bakvörður í PSV Eindhoven og Maastricht og var í landsliðshóp Hollands sem varð Evrópumeistari 1988. En Jerry de Jong féll fljótt í gleymskunnar dá, ekki síst þegar hann varð uppvís að því að stela frá liðsfélögum sínum í búningsklefanum að því að sögusagnir herma.
Uppvöxturinn hafði að sjálfsögðu mikil áhrif á Nigel de Jong. Hann var hörku duglegur, gekk ágætlega í skóla og lærði að slást.

Sem ungur og efnilegur leikmaður þótti Jong liðtækur sóknarmiðjumaður með fína tækni og útsjónasemi í góðu meðallagi. Þýska stórliðið Hamburg koma augastað á piltinn og keypti hann árið 2006. Þjálfari liðsins var landi Jong, Huub Stevens nokkur sem ætlaði honum nýtt hlutverk í boltanum. Hann barði úr honum Cruijff fínheitin og laðaði fram villidýrið í honum og gerði hann að varnarsinnuðum miðjumanni sem átti að tækla allt sem hreyfðist.

Innsæi Stevens reyndist hárrétt. Jong fékk fljótlega viðurnafnið das Rasenmäher eða sláttuvélin og um leið opnaðist leið hans inn í hollenska landsliðið. Jong var harðjaxlinn á miðjunni sem sá um að vernda liðsfélagana og eigið mark og sá til þess að sláttuvélin hlífði engum og hélst alltaf heit.

Hvar liggja mörkin?
Bert van Marwijk, landsliðsþjálfari Hollands, var hrifinn af vinnusemi og eljusemi Nigel de Jong á vellinum og ákvað að hafa tvö vinnudýr á miðju hollenska liðsins, Jong og Bommel. En þann 3. mars í fyrra ári runnu tvær grímur á landsliðseinvaldinn þegar Jong tæklaði Stuart Holden, leikmann Bolton og bandaríska landsliðsins, svo glórulaust í tilgangslausum vináttulandsleik að sá bandaríski fótbrotnaði. Marwijk segir að hann hafi tekið Jong á teppið og skipað honum að hætta svona vitleysu því svona framkoma myndi annars sverta ímynd hans og knattspyrnuferil. En skilaboðin náðu ekki í gegnum hnausþykka hauskúpu Nigel de Jong sem tók næsta skref úr sláttuvél og upp slagsmálahund í anda Jackie Chan.

„Ég fór beint í boltann en var svo óheppinn að fara í andstæðinginn í leiðinni. Það var ekki ætlunin. Ef boltinn er á milli þín og andstæðingsins verður þú að fara af fullum krafti í tæklinguna. Ef þú gerir það ekki færðu sjálfur höggið, ef þú gefur eftir á vellinum þá er það þú sem meiðist,“ sagði Jong við fjölmiðla eftir tæklinguna frægu á Holden.

Jong skildi ekki alvöruna á bak við orð landsliðsþjálfarans og í sjálfum úrslitaleik heimsmeistaramótsins í sumar tók hann sig til og tæklaði Xabi Alonso, leikmann spænska landsliðsins, í brjóstkassann með ævintýralegu karatesparki og heimsbyggðin stóð á öndinni. Enski dómarinn Howard Webb hafði hins vegar ekki í kjark í sér að veifa rauða spjaldinu á sjálfu stóra sviðinu.

Heima í Hollandi voru stuðningsmenn liðsins glaðir að liðið kæmist í sjálfan úrslitaleikinn en að sama skapi voru ýmsir sem settu spurningamerki við framgöngu Nigel de Jong. Eru engin takmörk fyrir því hversu langt þessi leikmaður getur gengið? Hvar liggja mörkin?

Þegar Nigel de Jong tæklaði svo Hatem Ben Arfa í vinstri fótinn í haust var ljóst að hann hafði farið yfir mörkin að mati Bert van Marwijks landsliðsþjálfara sem tók þá ákvörðun að henda honum út úr landsliðinu.

„Ég sá engan annan möguleika í stöðunni,“ sagði þjálfarinn sem fékk góðar undirtektir í Hollandi en í Englandi var hlegið að honum enda elska enskir stuðningsmenn leikmenn á borð við sláttuvélina Jong. Forráðamenn Manchester City sáu sér leik á borði og buðu honum nýjan samning af þessu tilefni. Kappinn fær hátt í 20 milljónir á viku fyrir að tækla mann og annan.

Jose Enrique, liðsfélagi Ben Arfa hjá Newcastle, lýsti því yfir að Nigel de Jong ætti að fá jafn langt keppnisbann fyrir tæklinguna og Ben Arfa verður frá æfingum og keppni. Hann benti á að ef það hefði verið Wayne Rooney sem hefði lent í sláttuvélinni hefðu viðbrögðu enska knattspyrnusambandsins eflaust verið mun harkalegri, sem má til sanns vegar færa. Enrique segir að Nigel De Jong sé leikmaður sem ávallt spilar á mörkum þess leyfilega og hann hefði ekki haft manndóm í sér til þess að biðja Ben Arfa afsökunar.

Fyrstu viðbrögð úr herbúðum hollenska landsliðsins eftir þá ákvörðun að sparka Jong úr landsliðinu tímabundið voru blendin. Landsliðsfyrirliðinn Mark van Bommel gagnrýndi þessa ákvörðun landsliðsþjálfarans og tengdaföður síns. Hann sagði að Jong væri drengur góður sem hefði aldrei spilað eins vel og um þessar mundir en þyrfti reyndar að fara varlega í svona tæklingar.

Graham Poll fyrrverandi dómari hrósaði hins vegar hollenska landsliðsþjálfaranum í grein á Mailonline fyrir að hafa kjark til að taka þessa umdeildu ákvörðun. Kevin Keegan og Nicky Butt sem tóku þátt í sjónvarpsumræðum um atvikið sáu ekkert athugavert við tæklingu Jongs.

Í netkosningu í stærsta dagblaði Hollands, De Telegraafs, sögðu 90% lesenda að rétt hefði verið af landsliðsþjálfara Hollands að sparka Jong úr landsliðinu. Um 60 þúsund manns tóku þátt í kosningunni.

Tækling er listgrein
Nigel de Jong var ekki eini leggjabrjóturinn í enska boltanum sem var í sviðsljósinu í haust. Karl Henry leikmaður Úlfanna fótbraut Jordi Gomez leikmann Wigan með hrottafenginni tæklingu sem venjulegt fólk treystir sér ekki til þess að horfa á í endursýningu í sjónvarpi. Henry fékk að líta rauða spjaldið eftir aðeins 11 mínútur og fékk sannarlega skömm í hattinn enda raðtæklari í anda Nigel de Jong. Mánuðinn þar á undan fótbraut hann Bobby Zamora leikmann Fulham með grófri tæklingu.

Þegar Henry tókst á við annan harðhaus, hin eina og sanna Joey Barton í leik Wolves og Newcastle í byrjun september, hitti skrattinn ömmu sína. Þeir félagar tókust hressilega og þótti ganga kraftaverki næst að ekki stór sá á þeim félögum eftir átökin. Þeir læstu saman hornum og sættust á skiptan hlut. Eftir leikinn lét Karl Henry þau orð falla að góðar tæklingar séu listgrein í sínum huga.

„Við leyfum ekki fólki koma á Molineux til þess að spila einhvern drauma fótbolta. Við verðum að stöðva þá með öllum ráðum,“ sagði Henry við Daily Mail sem lauk lofsorði yfir aðra harðhausa í boltanum.

Karl Henry braut odd af oflæti sínu og bað félagið sitt og stuðningsmenn afsökunar á tæklingunni eftir að hafa séð hana í sjónvarpi. Strax eftir atvikið mótmælti hann hins vegar rauða spjaldinu. En bað hann Gomez afsökunar? Það kemur hins vegar hvergi fram.

Mick McCarthy, stjóri Úlfanna, fordæmdi tæklingu lærisveins síns opinberlega. Í blaðinu Guardian var Henry og Jong líkt við mannlegar eldflaugar sem þarf að taka úr sambandi í þágu fótboltans. Mörgum er í fersku minni þegar Ryan Shawcross hjá Stoke fótbraut Aaaron Ramsey leikmann Arsenal fyrir ári síðan. Shawcross var verðlaunaður daginn eftir með sæti í enska landsliðinu! Leikmenn þurftu á áfallahjálp að halda eftir brotið líkt og eftir tæklingu Martin Taylors, fyrirliða Birmingham, á Eduardo da Silva, leikmanni Arsenal, í febrúar 2008. Silva hefur aldrei náð sér á strik síðan og var seldur frá félaginu í sumar. Það er að margra mati ljótasta tækling knattspyrnusögunnar.

Ljótasta íslenska tæklingin
Í íslenska boltanum hafa á stundum sést ljótar tæklingar í hita leiksins. Sú sem fyrst kemur upp í hugann er þegar varnarmaður ÍBV braut á Ingva Guðmundssyni leikmanni Keflavíkur með tveggja fóta tæklingu á Hásteinsvelli í maí 2005. Þar var bundinn endi á feril Ingva sem var einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins. Ingvi hefur varla snert fótbolta síðan þrátt fyrir að leggja ómælda vinnu í endurhæfingu.

Þrátt fyrir umræðu um að dómarar eigi að vernda góðu leikmennina sem halda uppi skemmtanagildi fótboltans virðist alvarlegum brotum fara fjölgandi. Það verður að finnast leið til þess að vernda skemmtikraftana til þess að fækka leggjabrjótum sem líta á tæklingar sem listgrein. Þar ríður á að félögin taki til í sínum ranni. Annars er fótboltinn sem listgrein í hættu

Með fótboltakveðju
Þorsteinn Gunnarsson
banner
banner
banner