fös 11. mars 2011 09:00
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Gaddafi og fótboltinn
Atli Ísleifsson skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Marcelo Bielsa og Juan Pablo Sorin ásamt mynd af Muammar Gaddafi.  Myndin er frá heimsókn Argentínu til Líbíu árið 2003.
Marcelo Bielsa og Juan Pablo Sorin ásamt mynd af Muammar Gaddafi. Myndin er frá heimsókn Argentínu til Líbíu árið 2003.
Mynd: Getty Images
Saadi Gaddafi.
Saadi Gaddafi.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það er til saga af Gaddafi-fjölskyldunni og fótboltanum. Það er þó ekki hún sem hefur beinlínis gegnsýrt heimspressuna síðustu vikurnar. Í fréttunum er greint frá því að ekkert lát virðist vera á óöldinni í Líbíu og baráttunni gegn Gaddafi. Ekki nóg með að Gaddafi þurfi að fást við óeirðirnar, heldur datt uppáhaldsfélag hans, Everton, óvænt út fyrir Reading í bikarnum fyrir skemmstu. Þessi saga af Gaddafi og Everton skiptir þó litlu máli og er heldur ekki alveg sannleikanum samkvæm.

Múammar Gaddafi gæti ekki verið meira sama um Everton. Í rauninni býður honum við fótbolta. Þegar undir lok áttunda áratugarins lagði hann blátt bann við fótbolta í efstu deildum landsins. Afstaða hans var sú að fótboltinn gerði fólkið óvirkt. – Fótboltaklúbbarnir eru gráðugar, félagslegar stofnanir. Þær umbreyta stuðningsmönnum í flokk hálfvita, predikaði Gaddafi.

Á sama tíma varð litli sonur hans allt hrifnari af fótbolta. Að sögn breska þingmannsins Daniel Kawczynski, sem skrifaði bókina Seeking Gaddafi, var það hinn níu ára gamli Saadi Gaddafi sem að lokum fékk föður sinn til að aflétta fótboltabanninu árið 1982.

Um miðjan tíunda áratuginn var Saadi Gaddafi orðinn alráður innan líbíska fótboltaheimsins. Það hafði að sjálfsögðu sína kosti að vera sonur einræðisherra. Án þess að eiga það skilið gerði Saadi sjálfan sig að fyrirliða líbíska landsliðsins, auk þess að vinna margoft til verðlauna sem “Knattspyrnumann ársins í Líbíu”. Hann gerði sjálfan sig að forseta líbíska knattspyrnusambandsins og tók að því loknu völdin í stærsta knattspyrnufélagi landsins, Al-Ahly.

Saadi hafði þar með náð svipuðum völdum innan líbíska fótboltans og faðir hans í stjórnmálalífi Líbíu. Innan knattspyrnunnar varð hins vegar vart við andóf almennings nokkuð fyrr en á götum borga líkt og hefur verið að gerast síðustu vikur. Snemmsumars 1996 áttust Al-Ahly og erkifjendurnir úr höfuðborginni, Al-Ittihad, við í hreinum úrslitaleik í deildinni á 11. júní-vellinum í Trípolí. Al-Ahly vann að sjálfsögðu leikinn og að sjálfsögðu gerðist það með vægast sagt vafasömu marki á lokasekúndum leiksins. Saadi Gaddafi spilaði reyndar ekki leikinn, en sat uppi í skúku þar sem hann stýrði þróun leiksins með handahreyfingum og leit út fyrir að vera sáttur með gang mála og ekki síst útkomuna.

Illskan hafði betur gegn hræðslunni þennan dag. Ósáttir áhorfendur stormuðu inn á völlinn og hrópuðu “Niður með Gaddafi” og “Niður með leiðtogann”. Þetta voru spontan mótmæli gegn einræðinu – bæði innan fótboltans og utan – og þetta var andóf sem Líbía hafði ekki orðið vitni af í fleiri áratugi.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Og þau voru miskunnarlaus. Lífvarðasveit Saadi Gaddafi lét byssukúlum rigna yfir skarann. Tala látinna í árásinni á vellinum þennan dag er enn á reiki, en er áætluð vera á milli átta og fimmtíu manns. Eftir viku langa þögn neyddist einræðisherrann til að lýsa yfir þjóðarsorg vegna hinna látnu. Í þetta eina skipti hafði hann misst stjórnina.

-Menn eru þreyttir á með hvaða hætti stjórnin stýrir öllu, m.a.s. fótboltanum. Saman í hóp geta menn þó safnað nægum kjarki til að gera hluti sem þeir myndu aldrei þora hver fyrir sig, sagði nafnlaus andófsmaður við Reuters.

Leiðtoginn Gaddafi fylgdist að sjálfsögðu með gangi mála. Hann gerði sér grein fyrir því að fótboltinn var enn öflugri kraftur en hann hafði áður gert sér grein fyrir. Hann dró nokkrar real-pólitískar ályktanir um með hvaða hætti væri hægt að nýta sér þennan kraft í eigin þágu, en gerði sér ekki grein fyrir þeim þeim mun sterkari vísbendingum um hve hratt reiði almennings getur magnast og þróast yfir í mótmælaöldu.

Skömmu eftir aldamót sat lögfræðingurinn Gianluca DiCarlo á ítalskri verönd og ræddi stjórnmál við félaga sína yfir kaffibolla. –Líbía er ekki lengur sama land og á áttunda áratugnum. Þeir hafa opnað sig fyrir umheiminum. Það er ekki bara Saadi Gaddafi sem stýrir þessari þróun. Það eru menn bæði fyrir ofan hann og aftan sem hafa með þetta að gera.

Refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna gegn Líbíu var nýlokið og DiCarlo hafði fengið óvenjulegt verkefni í hendur frá líbísku stjórninni. Hann ætti að halda utan um líbíska sókn inn í ítalska boltann – nokkurs konar alþjóðlegri auglýsingaherferð með Saadi Gaddafi sem “frontmann”.

Ítalía var í raun eðlilegur staður til að byrja. Líbía var ítölsk nýlenda milli 1911 og 1947 og á bakvið tjöldin hafði Silvio Berlusconi verið einn af fáum þjóðarleiðtogum sem hafði viðhaldið sambandi við Gaddafi-klanið á meðan á refsiaðgerðunum stóð.

Nú var ítalski forsætisráðherrann búinn að taka að sér hlutverk umboðsmanns. Hann hafði milligöngu um að koma Saadi Gaddafi til liðsins Perugia, sem spilaði þá í Serie A. –Berlusconi hringdi í mig hvatti mig til að taka við honum. Hann sagði að það myndi hafa jákvæð áhrif á samskipti Ítalíu og Líbíu að vera með Gaddafi í liðinu, burtséð frá því hvort hann væri góður leikmaður eða lélegur, sagði þáverandi Perugia-stjórinn Serse Cosmi.

Út frá knattspyrnulegu sjónarhorni gekk lógíkin hins vegar ekkert upp. Gaddafi var vissulega með nokkrar útnefningar sem leikmaður ársins í Líbíu á bakinu, en í þeim fáu myndskeiðum sem fundust af honum á vellinum virtust andstæðingarnir jafnan færa fótinn sinn um leið og hann nálgaðist þannig að hlaupaleiðin væri nú örugglega greið.

Þegar erlendur þjálfari tók við líbíska landsliðinu, Ítalinn Francesco Scoglio, náði hann rétt að koma Saadi Gaddafi úr liðinu áður en hann var rekinn. – Þeir losuðu sig við mig þar sem ég lét það ekki eftir honum að spila. Ekki eina mínútu. Sem knattspyrnumaður var hann vonlaus. Með hann í liðinu þá töpuðum við. Um leið og hann hvarf úr liðinu þá sigruðum við.

Í apríl 2004 fór Múammar Gaddafi í sína fyrstu heimsókn til Evrópu í einhver 15 ár þegar hann hélt ræðu fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þá var hann á ný orðinn hluti af alþjóðasamfélaginu. Í það minnsta um stund. Fjórum dögum síðar spilaði Saadi Gaddafi sinn eina leik á ferlinum í búningi Perugia. Það “vildi svo til” að það var leikur gegn uppáhaldsliði hans – Juventus. Hann kom inn á sem varamaður, spilaði 15 mínútur, og snerti boltann í tvígang.

Þetta var líklegast hápunkturinn á ansi viðburðaríku fótboltaverkefni. Á fimm ára tímabili fékk Gaddafi samning hjá þremur Serie-A klúbbum; Perugia, Udinese og Sampdoria. Allt í allt kom hann inn á sem varamaður í tveimur leikjum.

Saadi Gaddafi bauð Diego Maradona í brúðkaup sitt og fékk Carlos Bilardo, þjálfara heimsmeistaraliðs Argentínu 1986, til að fínpússa tæknina á vellinum. Þá fékk hann Ben Johnson til að vinna með hraðann. Skömmu eftir samstarf þeirra Johnson var Gaddafi dæmdur í keppnisbann eftir að hafa greinst með stera í líkamanum. Þurfti kannski ekki að koma á óvart sé litið til forsögu lærimeistarans…

Gaddafi var þó hvergi nærri hættur. Hann fékk lið Middlesbrough til Líbíu þar sem hann var mikill aðdáandi Paul Gascoigne og sá til þess að ítalski SuperCup-leikurinn milli Juventus og Parma yrði spilaður í Trípolí. Með aðstoð félaga sinna keypti Gaddafi 7,5% hlut í Juventus og fékk þá til að spila með merki líbíska olíufélagsins Tamoil á búningnum í Evrópuleikjum liðsins.

Síðast en ekki síst fór Gaddafi fyrir metnaðarfullri tilraun til að koma Líbíu örugglega á kortið á ný. Ætlunin var að fá HM 2010 haldið í Norður-Afríkuríkinu. –Við höfum eyrnamerkt sex milljarða dollara í þetta verkefni, alvöru boð sem á skilið að vinna, vildi Gaddafi meina.

Það varð hins vegar ekkert HM í Líbíu. Líbía stóð andspænis Nelson Mandela og Suður-Afríku og átti aldrei séns. Ekki þarf að koma á óvart að Múammar Gaddafi trompaðist þegar ljóst var að FIFA hafnað Líbíu. Hann var búinn að fjárfesta fyrir milljarða og málin æxluðust ekki eins og hann hafði hugsað sér.

Viðhorf Gaddafis til íþróttarinnar sneri því aftur til þess sem það var á áttunda áratugnum. Á glænýrri bloggsíðu sinni boðaði hann aftur endalok efstu deildanna í landi sínu. –Varið ykkur á hatrinu, óvildinni og rasismanum sem leiðir af fótboltanum. Ef maðurinn sem kom fyrstur með hugmyndina um heimsmeistaramót væri enn á lífi væri hann fyrstur til að leggja til að mótið yrði lagt af. Hann hafði vonast til að skapa sátt milli manna. Íþróttin hefur hins vegar dreift og aukið hatur.

“Byltingarleiðtoginn”hélt áfram. “FIFA styður þrælahald og siðferðilega rotnun. Þeir vinna gegn fátækustu ríkjum heims og það ætti að banna þá. Þar að auki hafa læknisrannsóknir sýnt fram á að þeir sem eru vitlausir í fótbolta eru þeir sem eiga á mestri hættu að þjást af kvíða og andlegum sjúkdómum.”

Mikið dró úr fjármunum til íþróttarinnar í Líbíu og Saadi Gaddafi lét af embætti forseta innan knattspyrnusambandsins. Í bakgrunni hélt hann þó áfram að vinna að því að fá stóra keppni haldna í Líbíu.

Eftir rúma viku átti að vera komið að því. Þá átti að setja Afríkukeppni U-20 ára landsliða í Trípolí, sem átti að vera nokkurs konar upphitun fyrir Afríkukeppni landsliða sem halda á í Líbíu 2013. Saadi Gaddafi átti að halda setningarræðuna. Í síðustu viku var hann fullviss um að það myndi ganga vel að halda U-20 ára keppnina í landinu þrátt fyrir þessi “litlu mótmæli”. –Ástandið er rólegt í svo gott sem öllu landinu. Mjög öruggt allt saman. Hér í Trípolí er þögn og rólegt. Flestir mæta til vinnu líkt og vanalega.

Daginn eftir þetta viðtal ákvað Knattspyrnusamband Afríku að færa keppnina frá Líbíu. Hún mun þess í stað fara fram í Suður-Afríku. Saadi Gaddafi verður því að bíða enn lengur eftir að fá mót til Líbíu og verður að teljast ólíklegt að það gerist yfirhöfuð svo lengi sem Gaddafi-fjölskyldan er við völd.

Heimild: Aftonbladet o.fl

Smelltu hér til að taka þátt í umræða um greinina á Sammarinn.com
banner
banner
banner