Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 22. apríl 2011 11:30
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Slakur, slakari, enskur?
Gunnar Birnir Jónsson skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.
Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.
Mynd: Sammarinn.com
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Er enska deildin veikari en áður? Miðað við sumar umræður í vetur mætti halda að hún væri með holdsveiki á lokastigi! En er deildin í raun eitthvað lakari en hún hefur verið?

Arsenal, Chelsea og co. eru að gefa United titilinn! United er bara að vinna því hinir eru svo lélegir! Er það rétt? Eða réttara sagt er það ekki alltaf svo? Mætti ekki alltaf segja að það lið sem vinnur vinni af því hin liðin voru ekki nógu góð? Og er United svona mikið lélegra en það hefur verið?

Hvað þarf til að vinna?

Afhverju er talað um að deildin sé veikari en áður? Jú, “stóru” liðin hafa tapað fleiri stigum en áður og deildin mun vinnast á færri stigum. Manchester United er í góðri stöðu sem stendur, án þess að hafa farið neitt á flug en er það ekki bara því hin liðin gáfu eftir?

Skoðum aðeins hvað hefur þurft í gegnum tíðina til að vinna deildina. Meðfylgjandi súlurit (til hliðar) sýnir stigafjölda þriggja efstu liða í deildinni síðan 3 stiga reglan var tekin upp árið 1982. Þar sem ekki voru alltaf leiknar 38 umferðir (og yfirstandandi tímabili ekki lokið) er þetta sett fram sem stig per leik svo hægt sé að bera þetta saman.

Það fyrsta sem sést er að í nær öllum tilvikum hafa liðin í 2. og 3. sæti gefið eftir á einhverjum tímapunkti, ekki fengið nógu mörg stig og gefið sigurvegaranum titilinn með því að vera ekki nógu góðir og vinna ekki nógu marga leiki! (Undantekningin er 1989 þegar Arsenal og Liverpool voru faktískt jöfn).

Að öllu gamni slepptu þá er stigaskorið augljóslega minna núna en síðustu ár. Það þarf samt ekki að fara lengra aftur en til 2003 til að finna sambærilegt stigaskor og árið 2001 vann United deildina nokkuð örugglega á 80 stigum (Arsenal var í 2. Sæti með 70). Sé munur á fyrsta og öðru sæti skoðaður hefur hann vissulega stundum verið minni en er samt alls ekkert óeðlilegur.

En hvað segir þetta um styrk deildarinnar? Í sjálfu sér ekki neitt en gefur frekar til kynna að deildin sé jöfn (stigin dreifast á fleiri hendur). Sé deildin hinsvegar jöfn og bestu liðin í henni góð, hlýtur deildin að vera sterk. Til dæmis um það má benda á fyrstu árin á grafinu (árin á undan myndu líta svipað út) á þessum árum var deildin að vinnast á mun færri stigum en vaninn er í dag og var hún jafnari almennt. Deildin hlýtur samt að hafa verið mjög sterk á þessum tíma því ensku liðin áttu Evrópukeppnirnar (ekki bara Liverpool þótt þeir hafi að sjálfsögðu átt þar stærstan hlut).

United mikið lélegra en áður?

Sé lið Manchester United borið saman við lið fyrri ára þá er erfitt að sjá annað en að nokkuð vanti uppá liðið núna. Í stórum dráttum er þetta sama liðið og vann Meistaradeildina 2008, með nokkrum undantekningum. Þær eru stórar!

Síðan 2008 hafa bæði Cristiano Ronaldo og Carlos Tévez horfið á braut en saman skoruðu þeir 61 mark það árið. Auðvitað mætti nefna fleiri svo sem Silvestre, Saha, Neville og Piqué en allir tóku þeir lítinn þátt og því munar kannski ekki mikið um þá (Piqué hefði hinsvegar að öllum líkindum orðið frábær viðbót hefði hann haldið áfram). Þess utan eru lykil leikmenn svo sem Giggs, Scholes og van der Sar allir 3 árum eldri og munar um minna þegar húmar að ævikvöldi!

En hverjir hafa komið í staðinn? Berbatov var keyptur fyrir haug af peningum, Antonio Valencia fyrir aðeins minni haug. Berbatov átti að sjálfsögðu að vera +20 marka maður og koma í stað Tévez, Valencia að leysa vænghlutverk Ronaldo. Valencia stóð vel undir að einhverju leiti takmörkuðum væntingum, Berbatov; not so much. Þá hefur hópur yngri leikmanna verið fenginn til liðsins fyrir misháar upphæðir og með misjöfnum árangri má þar nefna Frakka með vatnshöfuð og heimilislausan Portúgala. Engin “stór” kaup hafa verið gerð síðan Berbatov kom til liðsins og var tilkoma tveggja ungra “framtíðar” leikmanna til viðbótar það sem stóð hæst í leikmanna kaupum liðsins síðasta sumar, þeirra Chris Smalling og Javier Hernández. Báðir hafa þeir hinsvegar leikið stærra hlutverk en búist var við.

Auk þess að fá nýja leikmenn var alltaf vitað að brotthvarf Ronaldo myndi þýða aukna ábyrgð annarra leikmanna, einkum Rooney og Nani. Rooney var að skila sínu vel lengst af síðasta tímabili en hvarf svo alveg eftir meiðsli síðasta vor. Nani var ekki alveg að ná þessu og kominn á síðasta séns. Það var því ekki búist við neinu glans tímabili frá þeim rauðklæddu. Annað er þó að koma í ljós. Vissulega hefur liðið ekki unnið neitt ennþá og ekki þýðir að tala neitt um þrennu lengur en liðið er í dauðafæri í deildinni og komið í undanúrslit í Meistaradeild. Hugsa ég að flestum liðum þætti það þokkalegt!

United mikið leiðinlegra en áður?

Einnig hefur heyrst að United spili leiðinlegri bolta en áður, voru sókndjarfir en eru nú varnarsinnaðir. Það má vera, en liðið hlýtur þá að skora færri mörk nú en áður, ekki satt? Eins og staðan er í dag hefur United skorað 70 mörk í deildinni, 7 mörkum meira en næsta lið og 2 mörkum meira en en þeir gerðu sjálfir á heilu tímabili síðast þegar þeir urðu meistarar. Þar sem 6 leikir eru eftir má búast við því að liðið muni enda tímabilið með um 80 mörk, það sama og þeir skoruðu 2008. Þeir eru hinsvegar að fá á sig fleiri mörk en áður!

Hvort þeir spili leiðinlegri bolta en áður er hinsvegar erfiðara að færa rök með eða á móti. Vissulega er leikstíllinn nokkuð annar en hann var t.d. 2008 en hann var þá öðruvísi en 2005 sem var ekki eins og 2001 eða 1999 eða 1993 os.frv. Kannski eru þeir leiðinlegri, það er að sjálfsögðu smekksatriði og ekki það sem þetta snýst um; að vinna!

En hvernig stendur á þessum árangri United í ár? Það er ekki auðvelt að henda reiður á því? Kannski er deildin veikari? Kannski eru leikmenn að sýna meira en búist var við? Berbatov er mærkahæstur í deildinni og Hernandez hefur komið öllum á óvart einnig. Saman eru þeir með 40 mörk í vetur. Nani er loksins farinn að sýna hvað í honum býr og þrátt fyrir að það loði alltaf við hann orðspor um að vera einspilari er hann sá leikmaður sem gefur flestar stoðsendingar í liðinu og í deildinni, með 10 mörk sjálfur að auki. Þá eru t.d. da Silva klónarnir að koma sterkir inn. Eilífðarvélarnar Giggs og van der Sar hafa svo verið að spila betur en oft áður og mun betur en aldur þeirra myndi gefa til kynna.

Kannski má líka segja að United sem lið spili betur ætla mætti þegar litið er á einstaklingana innanborðs. “The sum is greater than the parts” eins og þeir segja á útlensku. Líklega ætti Ferguson sjálfur meira í þessum tiltli en flestum hinna fyrri takist þeim að halda deildina út!

Ensk deild með flensu?

En kannski er deildin bara veikari en áður og kannski er það bara málið? Lélegra United lið að vinna lélegri deild? Það ætti þá að koma fram í lakari árangri United og annarra enskra liða í Evrópu.

Á sama hátt og FIFA tekur saman styrkleikalista fyrir landslið, tekur UEFA saman styrkleikalista yfir landslið, deildir og félagslið í Evrópu þar sem tekið er mið af árangri undanfarinna 5 ára. Síðustu ár hefur enska deildin toppað þann lista eftir að hafa velt þeirri spænsku (sem nú er í 2. sæti) úr sessi.

Inni í þessu eru að sjálfsögðu ennþá “árin sem deildin var góð”. Árin 2007-9 voru 9 af 12 undanúrslitaliðum í Meistaradeild frá Englandi auk 4 af 6 liðum í úrslitum. (Hefðu verið 5 af 6 ef ekki fyrir Tom Henning Øvrebø nokkurn og frammistöðu hans í undanúrslitaleik Chelsea og Barcelona 2009, umræðan í dag væri þá kannski aðeins önnur? Frænkurnar Ef og Hefði voru þó ekki á Stamord Bridge það kvöld.)

Leiktíðin í fyrra virtist hinsvegar benda til þess að enska deildin væri á niðurleið þar sem aðeins tvö lið náðu í áttaliðaúrslit og ekkert lengra en það. Var það í fyrsta sinn síðan 2004 sem ekkert enskt lið náði í undanúrslit en kannski merkilegra en það, í fyrsta sinn síðan 2005 sem ekkert enskt lið var í úrslitum!

Það segir ýmislegt um ensku deildina að í þessa 5 úrslitaleiki komust 4 ensk lið, þ.e. þetta var ekki eitt mjög got lið sem komst alltaf áfram heldur voru mörg lið mjög góð. Það gefur til kynna sterka deild en þarf ekki endilega að þýða að besta liðið komi þaðan.

Það sama má segja um árið í ár. Flestir eru á því að Real Madrid og Barcelona sé bestu liðin í dag (ekki endilega í þessari röð). Enska deildin átti samt 4 lið í 16 liða úrslitum og 3 í áttaliða úrslitum. Tottenham komu óvænt inn sem nýliðar og voru taldir veikari fyrir vikið. Það var samt ekki að sjá að þeir ættu ekki heima þarna en virðast engu að síður ekki ætla að ná að halda sæti sínu í deildinni!

Það er því ekki þannig að enska deildin sé að gefa eftir á fyrrnefndum lista heldur er hún sú deild sem fengið hefur flest stig það sem af er þessari leiktíð (ensk lið eru með fleiri sigra en t.d. spænsk lið). Forskot þeirra ensku á listanum er nokkuð og mun hún nær örugglega halda sæti sínu a.m.k. næstu tvö árin (þ.e. út tímabilið 2008-13).

Bestu liðin?

Óháð styrkleika deildanna þá eru nú allir sammála um að spænsku stórveldin séu bestu liðin í dag og að Barcelona hafi verið besta lið undanfarinna ára! Barcelona hefur enda toppað UEFA listann yfir félagslið síðustu tvö ár.

Liðið er samt sem áður nú að gefa það sæti eftir. Þótt einhver stig séu eftir í pottinum þetta árið mun Manchester United verða á toppi þess lista í vor, sama hvað gerist (í fyrsta skipti í sögunni merkilegt nokk). Barcelona gæti mögulega náð toppsætinu aftur á næstu leiktíð verði árangur þeirra umtalsvert betri en hjá United, aðrir eiga varla raunhæfa möguleika.

En hvernig stendur á því að “lang besta lið” síðustu ára sé ekki efst á þessum lista?

Það verður náttúrulega að byrja á því að taka það fram að þar sem síðustu 5 ár eru tekin með dettur sigur Barcelona árið 2006 nú út (tímabil sem var vægast sagt lélegt hjá United).

Á síðustu 5 árum hafa bæði lið hinsvegar 4 sinnum komist í undanúrslit, United hefur tvisvar komist í úrslit og bæði lið hafa unnið keppnina einu sinni. Séu leikir liðanna skoðaðir sést að United hefur leikið 58 leiki; unnið 38 gert 14 jafntefli og tapað 6. Barcelona hefur spilað 55 leiki á sama tíma; unnið 32 gert 16 jafntefli og tapað 7.

Á þessum lista er náttúrulega aðeins tekið tillit til árangurs í Evrópukeppnum en hvað með allt hitt?

Barcelona vann náttúrulega allt sem hægt er að vinna árið 2009, þar á meðal einmitt United í úrslitum Meistaradeildarinnar, verðskuldað, og þeir eru nær öruggir með að vinna deildina 3 árið í röð (þrátt fyrir að Real Madrid fari líklega yfir 90 stig!) Á sama tíma hefur United hinsvegar líka unnið Meistaradeild (þar sem þeir lögðu einmitt Barcelona), heimsmeistarakeppni félagsliða og, haldi þeir rétt á spilunum, 4 deildartitilinn á 5 árum nú í vor!

Þannig ef litið er til árangurs er þetta nú kannski ekki eins klippt og skorið og margir vilja meina. Að sjálfsögðu er það svo alltaf persónulegt mat þegar kemur að því að velja “besta” eitthvað út frá öðrum sjónarmiðum.

Sterk deild eða sterk lið?

Það að Real Madrid hafi ekki orðið meistari í fyrra með 96 stig er í besta falli furðulegt. Í versta falli er það hinsvegar ömurlegt, ekki af því að Real hefði eitthvað endilega átt að vinna heldur af því hversu mikill getumunur er á efstu liðunum og öllum öðrum. Það má vel vera að þessi tvö lið væru efst í hvaða deild sem er (þótt Meistaradeildin hafi nú ekki endilega gefið það til kynna) en það að tvö lið séu að daðra við 100 stig í 38 leikjum er ekki vísbending um að deildin sé sterk. (Hef allavega aldrei heyrt neinn tala um það á þeim nótunum í Skotlandi, eða á jákvæðan hátt yfirleitt!).

Það að lið sem komast langt í (og jafnvel vinna) Meistaradeild ár eftir ár eigi í harðri baráttu um titilinn heimafyrir og tapi reglulega fyrir liðum mörgum sætum fyrir neðan bendir hinsvegar til þess að viðkomandi deild sé sterk. Það þýðir svo aftur líklega lægra stigaskor.

Undanfarin ár hefur enska deildin verið mikið gagnrýnd fyrir að vera lítið spennandi, þ.e. að því leiti að það væru alltaf sömu 4 liðin sem ættu séns á titlinum. Það var vissulega þannig í nokkur ár (þótt ekki þurfi að fara mjög langt aftur til að finna annað) en breyttist loks í fyrra (að einhverju leiti) með tilkomu Tottenham og Manchester City í hóp þeirra efstu. Jú, vissulega mun ekki verða skráð nýtt nafn á dolluna í ár en “stórveldin” munu þurfa að passa verulega vilji þau halda því þannig á næstu árum. Verður þá talað um “6 stóru”? Er það ekki frekar sterkt? Er það ekki bara gaman?
banner
banner