| fim 27.nóv 2025 10:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
UTAN VALLAR: Samanburður á fjárhagsstöðu Breiðabliks og Samsunspor
Í kvöld mætir Breiðablik tyrkneska liðinu Samsunspor í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Þá er ekki annað úr vegi en að bera saman félögin utan vallar.
Greinin var einnig birt á utanvallar.is
Rekstrartekjur
Rekstrartekjur Samsunspor voru 1,9 milljarðar króna á síðasta ári, ríflega 159,6% hærri en rekstrartekjur Breiðabliks sem námu 738,1 milljónum króna.
Rekstrargjöld
Það munar töluvert meira á milli rekstrargjaldanna. Hjá Samsunspor námu rekstrargjöldin 6,4 milljörðum króna sem er 634,6% hærra en rekstrargjöld Breiðabliks sem voru tæpar 865 milljónir króna.
Laun
Set smá fyrirvara við upphæðina hjá Breiðabliki en það er vegna þess að laun og launatengd gjöld hjá Breiðabliki falla undir gjaldaliðinn þjálfun, leikmenn og yfirstjórn ásamt fleiri þáttum. Laun og launatengd gjöld Breiðabliks eru þá væntanlega lægri en 591,8 milljónir krónur. Laun Samsunspor námu hins vegar 4,4 milljörðum króna á síðasta ári.
Afkoma
Bæði félögin voru rekin með tapi á síðasta ári. Tapið hjá Breiðabliki var tæpar 104 milljónir króna en tapið var öllu stærra hjá Samsunspor sem var rekið með tapi upp á tæpa 4,6 milljarða króna.
Eignir
Eignir Samsunspor námu 1,9 milljörðum króna á síðasta ári og voru 338,1% hærri en eignir Breiðabliks sem voru 432,8 milljónir króna.
Handbært fé
Minna munaði á milli handbærs fjár liðanna tveggja. Handbært fé Samsunspor var 360,3 milljónir króna og var 96,2% hærra en handbært fé Breiðabliks sem var 183,7 milljónir króna.
Skuldir
Skuldir Samsunspor námu 5,5 milljörðum króna og voru 2.654,1% hærri en skuldir Breiðabliks sem voru 200,5 milljónir króna í árslok 2024.
Eigið fé
Þá var eigið fé Breiðabliks jákvætt upp 232,3 milljónir króna en eigið fé Samsunspor var neikvætt upp á 3,6 milljarða króna.


