Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 06. maí 2011 08:30
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Aftur gera Frakkarnir upp á bak
Alexander Freyr Tamimi
Alexander Freyr Tamimi
Fjöldi svertingja og Norður-Afríkubúa í franska landsliðinu fer fyrir brjóstið á knattspyrnuhreyfingunni þar í landi.
Fjöldi svertingja og Norður-Afríkubúa í franska landsliðinu fer fyrir brjóstið á knattspyrnuhreyfingunni þar í landi.
Mynd: Getty Images
Þetta mál er hið vandræðalegasta fyrir landsliðsþjálfarann Laurent Blanc sem hefur þó fengið stuðning frá mörgum frönskum knattspyrnugoðsögnum.
Þetta mál er hið vandræðalegasta fyrir landsliðsþjálfarann Laurent Blanc sem hefur þó fengið stuðning frá mörgum frönskum knattspyrnugoðsögnum.
Mynd: Getty Images
Eric Mombaerts, þjálfari U21 liðs Frakka.
Eric Mombaerts, þjálfari U21 liðs Frakka.
Mynd: Getty Images
Eins og margir knattspyrnuaðdáendur hafa tekið eftir er allt að verða vitlaust í sambandi við frétt sem birtist á frönsku íþróttasíðunni Mediapart sem birtist undir lok aprílmánaðar. Frétt þessi greindi frá því að franska knattspyrnusambandið hafi í laumi ákveðið að setja ákveðinn kvóta á svarta og norður-afríska leikmenn í franska landsliðinu. Laurent Blanc landsliðsþjálfari er sagður hafa verið með í þessum áformum sem tókst að skekja knattspyrnuheiminn í heild sinni.

Það er flestum vel í minni hvernig fór fyrir franska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku í fyrrasumar. Raymond Domenech missti algjörlega stjórn á liði sínu og sendi Nicolas Anelka heim með skömm og í kjölfarið fóru hinir leikmenn liðsins í verkfall og neituðu að mæta á æfingu. Lið Frakklands komst ekki upp úr riðli sínum og flúði Suður Afríku með skottið á milli lappanna.

Nýi landsliðsþjálfarinn Laurent Blanc kom sterkur inn og gerði nokkrar góðar breytingar og hefur liðinu gengið vel í undankeppni EM 2012. Þá komst allt í einu upp um þennan mikla skandal sem ég ætla að greina ykkur frá.

Samkvæmt Mediapart voru þessi áform kynnt til sögunnar í nóvember 2010 og gengu þau út á að takmarka aðgang ungra leikmann af svörtum og norður-afrískum uppruna að æfingum unglingalandsliðana og átti þetta ferli að hefjast við 12 eða 13 ára aldur. Sá sem stóð að stærstum hluta fyrir þessum áformum var Francois Blaquart, áhrifamikill maður innan franska knattspyrnusambandsins, en honum hefur nú verið tímabundið vikið frá störfum.

Meðal þeirra sem fengu upplýsingar um þessi áform var knattspyrnuakademía liðsins í Clairefontaine, sem hefur meðal annars alið af sér leikmenn á borð við Thierry Henry, Nicolas Anelka, Louis Saha og William Gallas. Samkvæmt áformum Blaquart átti að sjá til þess að einungis 30 prósent þeirra sem mættu á æfingarnar væru af áðurnefndum uppruna.

Á fundinum í nóvember sagði landsliðsþjálfarinn Laurent Blanc að hann væri hlynntur þessum áformum til þess að tryggja betur arfleifð frönsku knattspyrnunnar og menningu. Á Blanc að hafa vísað til spænska landsliðsins með orðunum : „Spánverjarnir segja : Það er ekkert vandamál hjá okkur, við erum lausir við svertingja.“

Skýrsla sem var skrifuð á vegum þeirra sem sjá um þjálfunarstarf franskra unglingalandsliða og kom út í fyrra greindi frá því að allt of margir leikmenn með tvöfaldan ríksiborgararétt kysu að ganga til liðs við önnur landslið eftir að hafa hlotið alla sína æfingu í Frakklandi. Má þar nefna leikmenn á borð við Alex Song, sem spilaði með Kamerún á HM 2010, og Marouane Chamakh sem leikur með landsliði Marokkó.

Í reglu 15 hjá FIFA (Alþjóða knattspyrnusambandinu) segir að leikmenn sem hafa ekki spilað fyrir A-landslið sinnar þjóðar megi spila fyrir annað A-landslið ef þeir hafa einnig ríkisborgararétt þar.

Erick Mombaerts, þjálfari U21 landsliðs Frakka, sagði meðal annars: „Við höfum enga þörf fyrir leikmenn sem vilja ekki klæðast bláu treyjunni. Við skulum hafa hugrekkið til að fylgja hjartanu og eigin sannfæringu í þessum efnum. Við verðum að finna lausnir á þessu vandamáli.“

Á umræddum fundi í nóvember á Blanc að hafa sagt að þeir þyrftu að breyta ákveðinni ímynd leikmanna og fækka leikmönnum sem væru stórir, sterkir og kraftmiklir. Vildi hann frekar fá leikmenn með betri tæknilega getu sem gætu spilað flottari fótbolta.

„Og hverjir eru þessir stóru, sterku og kraftmiklu leikmenn? Svertingjarnir. Þannig er það bara, það er staðreynd. Guð veit að á æfingasvæðunum og í fótboltaakademíunum eru margir slíkir,“ sagði Blanc á fundinum. Hann gaf út yfirlýsingu þar sem hann viðurkenndi að ummælin væru höfð rétt eftir honum en sagði þau hafa verið slitin úr samhengi. Hvernig í ósköpunum?

Mombaerts, þjálfari U21 liðsins, sagði í viðtali við franska blaðið Le Monde í mars 2010: „Eiga einungis stórir og sterkir leikmenn að vera valdir? Árið 1998 var liðið hvít, svart og norður afrískt, en núna virðist það frekar vera svart, afrískt og hvítt.“

Þessi leki hefur skiljanlega vakið mikla reiði í knattspyrnuheiminum og víða annars staðar og hefur veraldavefurinn logað af bloggum, pistlum og greinum þar sem hraunað er yfir franska knattspyrnusambandið og þessa áætlun, sem er beinlínis ólögleg. Þó hafa nokkrir komið sambandinu til varnar og lýst yfir samúð vegna þess hversu marga leikmenn þeir missa í önnur landslið.

Þannig er hins vegar mál með vexti að þeir bestu eru enn á mála hjá franska landsliðinu. Leikmenn eins og Samir Nasri og Karim Benzema kjósa frekar að spila fyrir Frakklands hönd og Alsíringurinn Zinedine Zidane er eitt besta dæmið um það að þeir sem eru nógu góðir kjósa frekar að spila í franska liðinu. Flestir þeirra sem fara í önnur landslið gera það vegna þess að þeir sjá ekki fram á að geta spilað með landsliði Frakklands. Er það ekki bara eðlilegt að þeir vilji spila landsleiki?

Þrátt fyrir reiði fólks í garð franska knattspyrnusbandsins vegna þessa máls eru flestir á því að Laurent Blanc landsliðsþjálfari verði að vera áfram um kyrrt. Þó að fólk sé til sem vill að hann segi af sér eru menn á borð við knattspyrnugoðsögnina Bixtene Lizarazu sannfærðir um að hann sé rétti maðurinn í starfið.

Ljóst er að þetta mál mun þó hafa einhverja eftirmála og verður athyglisvert að fylgjast með því sem gerist. Persónulega finnst mér að svona kynþáttafordómar eigi ekki að vera liðnir og að allir þeir sem tóku þátt í þessu uppátæki eigi að segja af sér tafarlaust. Það er einfaldlega engin afsökun fyrir svona hugmyndum og svona hegðun og undirstrikar þetta einfaldlega það hugarfar sem Frakkar hafa til Norður-Afríkubúa (og greinilega blökkumanna líka) í dag.
banner
banner
banner
banner